17.01.1944
Neðri deild: 3. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Jóh. Stefánsson:

Mér þykir rétt að segja aðeins nokkur orð á þessu stigi um stjórnarskrárfrv. það, sem hæstv. ríkisstj. leggur nú fram hér í hv. d. Eins og ég gat um við umr. í Sþ. á föstudag s.l., þá eru þættir þessa máls, sem við kemur skilnaði Íslands og Danmerkur og stofnun lýðveldis á Íslandi, tveir, — annar nánast neikvæður, sem var til umr. í Sþ. á föstudaginn var, um að fella niður sambandslagasáttmálann frá 1918, og hinn þátturinn, sá jákvæði, að stofna lýðveldi á Íslandi.

Stjskrfrv. það, sem hér liggur fyrir, snertir, eins og kunnugt er, síðari þáttinn. Mér þykir hlýða einmitt nú, — og ég gerði það af ásettu ráði að fara ekki inn á það atriði við umr. um niðurfelling sambandslagasáttmálans, þó að ég kannske verði að koma að því við síðari umr. um það mál eða áframhaldandi sömu umr. að gefnu tilefni, — að skýra með nokkrum orðum í sambandi við gildistöku þessa stjskrfrv., sem hér liggur fyrir, það, sem fram hefur farið á sínum tíma og til hefur oft verið vitnað í mþn. í stjórnarskrármálinu, sérstaklega vegna þess, að til mín hefur verið beint nokkrum orðum um þetta og jafnvel í Sþ. í umr. um niðurfellingu sambandslagasáttmálans. Ég þarf þó ekki að hafa þessi orð ýkja mörg, því að mér hefur á opinberum vettvangi og í blaðaumr. gefizt kostur þess að skýra þetta mál frá minni hálfu. En þó á vel við í umr. um þetta mál, að þetta sé einnig fram tekið.

Þegar mþn. í stjórnarskrármálinu hafði stjskrfrv. til athugunar, frv., sem miða átti að því innan heimildar breyt. á stjskr. frá 1942 að stofna formlega lýðveldi á Íslandi, þá höfðu umr. í flokkunum, innan flokkanna og á milli þeirra ekki fram farið um það atriði, hvenær það væri eðlilegt og tímabært að láta slíka stofnun lýðveldis koma til framkvæmda. Það varð þá að ráði í undirnefnd í stjórnarskrárn. að ákveða 17. júní 1944 sem eins konar áætlun og til athugunar fyrir flokkana innbyrðis fyrir hvern þeirra og væntanlega líka á milli flokkanna sjálfra til athugunar. Í þeim inngangi, sem fylgdi stjskrfrv., sem sent var hæstv. ríkisstj. til geymslu, eins og hæstv. forsrh. hefur réttilega og skýrt fram tekið, var einnig minnzt á þetta atriði á sama hátt og í frvgr., sem fjallar um gildistökuna.

Þegar þessu fór fram, hafði í Alþfl. ekki verið rætt um það á neinn hátt innan miðstjórnar þingflokksins og allra sízt á flokksþingi, hvenær flokknum virtist eðlilegt og tímabært, réttast og öruggast að stofna lýðveldi á Íslandi. Ég ætla, að ég hafi í stjskrn. ekki látið neitt orð falla um það, að sá flokkur, sem ég tilheyri, mundi vera fús til þess að taka ákvörðun um það, að það yrði gert 17. júní 1944, og allra sízt, að hann hefði þá nokkuð um það ákveðið. Ég held, að enginn hinna stjórnmálaflokkanna hafi heldur á því stigi málsins verið búinn að taka um það nokkra ákvörðun. Frá minni hálfu var því þetta þannig, að þetta var eins konar till. til athugunar fyrir flokkana, eins konar áætlun, sem lögð var með hliðsjón af því, hvort hægt mundi vera að framkvæma hana eftir nánari íhugun og samstarf á milli flokka. Ég gat þess strax í blaðaskrifum í júní s.l., hver væri afstaða mín út af þessu. Og miðstjórn Alþfl. hafði strax 29. júní 1943 ákveðið um það, að flokkurinn vildi fyrir sitt leyti ekki binda sig við 17. júní 1944 sem gildistökudag stjskr. Ég gerði svo í byrjun júlí í blaði nokkra grein fyrir því, enda hygg ég, að fáum hafi komið það á óvart, sem til þekktu. Og í yfirlitsgrein, sem ég reit í Alþýðublaðið 31. des. 1942, minntist ég á þetta mál og með þeim hætti, að ég teldi eðlilegt, ef þess væri nokkur kostur og engin áhætta væri í sambandi við það, að fresta hinni formlegu gerð um stofnun lýðveldis á Íslandi, þangað til þeir aðilar, sem þar eiga hlut að máli, Íslendingar og að einhverju vissu leyti Danir, gætu talað saman um það atriði. Ég hef látið bóka í gerðabók stjskrn. um það atriði og tekið fram, að Alþfl. hefði, áður en stjskrn. samþ. frv. sitt, enga ákvörðun tekið um gildistöku þess. Var n. því þetta kunnugt. Og frá minni hálfu var 17. júní 1944 aðeins látinn koma til álita sem gildistökudagur, en væri á engan hátt bindandi fyrir mig eða Alþfl. Þar af leiðandi er afstaða mín til þess máls sú, að ég er ekki reiðubúinn til þess nú að miða við þennan dag og slá því föstu fyrir mitt leyti, að lýðveldisstjórnarskráin skuli skilyrðislaust öðlast gildi ekki seinna en 17. júní 1944. Ég mun því fyrir mitt leyti koma á framfæri um það brtt., sem ég býst við, að verði á þá lund, að stjskr. öðlist ekki gildi, fyrr en hún hefur verið samþ. af meiri hl. allra kosningabærra manna í landinu, eins og gert er þegar ráð fyrir í frv. sjálfu, og þegar Alþ. síðan hefur tekið um það formlega ákvörðun að láta hana ganga í gildi.

Þau rök, sem sérstaklega hníga í þessa átt af minni hálfu, eru þau, eins og ég gat um við upphaf fyrri umr. um niðurfelling sambandslagasáttmálans, að ég vildi, að það gæti orðið að samkomulagi allra flokka og allra manna hér á landi yfirleitt; að niðurfelling sambandslagasáttmálans yrði með þeim hætti, sem ég og margir aðrir telja einu löglegu leiðina, til þess að farið verði eftir 18. gr. sambandslagasamningsins, að ekki verði gengið frá samþykkt um niðurfelling hans með þjóðaratkv., fyrr en eftir 20. maí n.k., og einnig, að stjórnarskrá, þó að afgreidd yrði á næstunni, væri ekki látin fá ákveðinn gildistökudag, heldur væri það undir síðari ákvörðun Alþ., hvenær hún öðlaðist gildi, og höfð væri hliðsjón af því, að áður en slíkt færi fram, yrði reynt að ná sambandi við konung Dana, þar sem honum yrði gefinn kostur á að segja af sér. Ef það reynist ekki hægt, þá vil ég fara aðra löglega leið um samþykkt stjskr., sem ég mun koma að síðar.

Ég hefði kosið, að á þessu stigi hefði ekki þurft að róta við málinu, en það hefði verið geymt til seinni tíma að ganga frá því. En með því að mikill meiri hl. hv. alþm. virðist þeirrar skoðunar, að slíkt sé alveg bráðnauðsynlegt út frá þeirra sjónarmiði séð, — og vil ég ekki efast um, að bak við þá skoðun liggi hugsun þeirra um að gera það, sem bezt má verða í sjálfstæðismálinu, jafnvel þó þeir, sumir hverjir, ætli mér og mínum líkum nokkrar aðrar hvatir, en um það gefst mér síðar tækifæri til að ræða nokkru nánar í Sþ. í sambandi við umr., sem byrjaðar eru þar, — með því að þessi mikli þingvilji virðist vera fyrir hendi, vil ég fyrir mitt leyti reyna að greiða fyrir því, að samningar geti orðið um þennan þátt skilnaðarins, stofnun lýðveldis, eins og um niðurfellingu sambandslagasáttmálans, og það á þá lund m. a., að það verði sett í stjskrfrv., að stjórnarskráin öðlist ekki gildi, fyrr en hún hefur fengið samþykki meiri hl. kjósenda á Íslandi og þegar Alþ. seinna hefur gert um það formlega samþykkt.

Ég er æ sannfærðari um það, eftir því sem lengra liður, hversu hæpið sé nú, allt að því hálfu ári áður, á þeim tíma, sem við lifum nú á, að slá föstu, að gildistaka stjskr. skuli vera 17. júní 1944, hvernig sem kynni að verða þá umhorfs hér á landi og í umheiminum. Það er spá spakra manna, að þetta ár, sem nú er byrjað, verði eitt hið atburðaríkasta í heimsátökum þeim, sem nú standa yfir, og þegar lengra kemur fram á árið, verði blóðugri orustur og geigvænlegri en áður hafa verið háðar í þessu stríði. Enginn veit, hvar þær verða háðar eða hvernig umhorfs verður, þegar þær verða háðar. Og ég veit ekki, hvort það er eðlilegt eða drengilegt af okkar hálfu að ákveða, að hvað sem á gangi í heiminum, þá skulum við stofna lýðveldi þennan ákveðna dag, 17. júní í vor, hvernig sem umhorfs verður þá í heiminum. Ég treysti mér ekki til að spá svo fram í tímann, að ég telji, að sá dagur verði hinn glæsilegasti fyrir íslenzku þjóðina til þess að halda hann hátíðlegan með stofnun hins íslenzka lýðveldis. Vera má, að aðrir séu þar spakvitrari og geti betur um það sagt. Þó ætla ég, að það sé á fárra manna færi að segja um það, hvernig þá verði umhorfs, og segja um það, hvort skynsamlegast væri, að íslenzka þjóðin héldi þá hátíðlega lýðveldisstofnun sína.

Á þingi Alþfl., sem háð var í nóv. s.l., var samþ. með samhlj. atkv., að forseti lýðveldisins yrði kosinn af þjóðinni, en ekki af Alþ., og vald hans væri þar af leiðandi ekki á neinn hátt háð Alþ. Af þessu leiðir að sjálfsögðu, að Alþfl. mun standa að brtt. um það, þegar lýðveldisstjórnarskráin verður afgreidd, hvenær sem það verður, að hún verði á þann veg, að forseti verði kjörinn af þjóðinni. Og ég ætla, að fleiri geti um það orðið samferða Alþfl., eftir því sem heyrzt hefur, og má ætla, að það atriði verði ekki deiluatriði, enda vil ég vænta þess, að það verði ekki deiluatriði. Ég lýsi yfir því, að Alþfl. mun stuðla að því, eftir því sem hann getur, og flytja um það brtt. í samráði við aðra, að sá verði háttur hafður um val og valdsvið forsetans, sem ég nú hef lýst.

Þá vil ég nú þegar taka eitt atriði skýrt fram á þessu stigi málsins og að gefnu tilefni út af yfirlýsingum, sem fram hafa komið opinberlega, — og man ég þar sérstaklega eftir yfirlýsingu í ræðu hv. 6. þm. Reykv., Bjarna Benediktssonar, borgarstjóra í Reykjavík, sem hann flutti á Þingvöllum 18. júní s. l., og mun það síðar eitthvað hafa verið orðað af öðrum, að stjskrfrv. það, sem hér liggur fyrir, taki gildi eftir ákvæðum þeim, sem í því eru um gildistöku þess, þ.e. þegar Alþ. hefur samþ. það upprunalega og þjóðin eða meiri hl. kjósenda hefur einnig samþ. það, án þess að á stjórnskipul. fari fram staðfesting. — Þessari skoðun verð ég að mótmæla sem algerlega rangri og vil láta koma fram þegar á þessu stigi þá skoðun, að stjórnskipulögin verða ekki afgreidd á löglegan hátt, án þess að þau verði staðfest af handhafa konungsvaldsins. Í viðauka við stjskr., sem samþ. var á Alþ. 1942 um þetta atriði, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar Alþingi samþykkir þá breytingu á stjórnskipulagi Íslands, sem greinir í ályktunum þess frá 17. maí 1941, hefur sú samþykkt eins þings gildi sem stjórnskipunarlög, er meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu hefur með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt hana.“ — Svo er niðurlag breyt. um, að ekki megi með slíkri stjskrbreyt. breyta öðru en frá konungsvaldi í lýðveldi. Að vísu er það ekkert orðað í stjskrbreyt. þessari, að hún þurfi að fá staðfestingu á venjulegan hátt, svo sem l. eru staðfest. En ef frá þeirri grundvallarreglu á að víkja, sem stjórnskipun Íslands er byggð á, þeirri grundvallarreglu, að löggjafarvaldið sé hjá Alþ. og konungi í sameiningu, þeirri grundvallarreglu, að hvert einasta lagaboð fái staðfestingu, þá þarf að orða það skýrt og ótvírætt. Ég hef lauslega farið gegnum grg. þessa frv. frá 1942, fjögur nál. um það og umr., sem eru í handriti, en ekki prentaðar, og ég hef hvergi getað fundið neina skýringu í þá átt, að með þessu væri verið að gerbreyta grundvallaratriðum í stjórnskipul. Íslands um það, að það þurfi ekki að staðfesta þessi l. eins og önnur l. Ég þarf ekki að benda á þá staði í stjskr., þar sem tekið er fram um slíka staðfestingu. Ákvæði um það eru þar mörg og ótvíræð. Ég get bent á 2. gr. stjskr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Löggjafarvaldið er hjá konungi og Alþingi“, og í 12. gr.: „Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skulu bornar upp fyrir konungi“ ... Og ég get bent á 22. gr.: „Staðfesting konungs þarf til þess, að nokkur samþykkt Alþingis fái lagagildi“. — Þannig mætti halda áfram. Ef þessu hefur verið breytt með stjskrbreyt. 1942, þá hefði þurft að orða það skýrt og ótvírætt, svo að ekki yrði um villzt. En það er ekki minnzt á þetta einu orði í þeirri stjskrbreyt. En vegna þess, að þessi skoðun hefur komið fram opinberlega, þykir mér rétt þegar á þessu stigi málsins að vekja athygli á þessu og lýsa yfir sem ótvíræðri skoðun minni, að stjórnskipunarl. þau, sem hér er talað um að samþ., öðlast ekki lagagildi eftir íslenzku stjskr., sem áður var, nema þau verði staðfest á réttan hátt. Það er vert að gera sér ljósan í upphafi þann ágreining, sem um þetta kynni að vera.

Ég vil svo að lokum geta þess, að ég fyrir mitt leyti, — eins og um niðurfelling sambandsl., — vil gera tilraun til þess, að samkomulag geti orðið um þessi mál meðal þingheims. Ég hef lýst því, sem ég tel, að leitt gæti til samkomulags. Og ég vil fyrir mitt leyti vænta þess, að gerð verði ýtarleg athugun á málinu, áður en stofnað verður til, vil ég segja, meiri deilna en orðið hafa um þetta mál. Og mun ég minnast á það síðar, hver ber sérstaka ábyrgð á þeim deilum, ef til þeirra kemur.