17.01.1944
Neðri deild: 3. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Þetta frv. til breyt. á stjórnskipulögum, sem hér liggur fyrir, verður að athugast í sambandi við þá þáltill., sem lögð hefur verið fram í sameinuðu Alþ. og fjallar um sambandsslitin.

Ég mun ekki þreyta umr. mjög um þetta mál á þessu stigi, þó að ég telji viðeigandi að segja örfá orð. Ég mun ekki heldur endurtaka það, sem kom fram af minni hálfu eða annarra í sambandi við umr. um þál. í Sþ., en fremur snúa mér að þeim atriðum í þessu frv., sem ekki koma svo mjög inn á efni þáltill., þó að þetta sé í raun og veru allt sama málið.

Gert er ráð fyrir í frv. því, sem hér liggur fyrir, að Íslendingar stofni lýðveldi 17. júní á þessu ári eða m.ö.o. um leið og sambandslagasáttmálinn verður felldur úr gildi. Eins og ég gat um í þeim umr., sem hér urðu í Sþ. um þáltill. um sambandsslit, er byggt á því, að 1941 ákvað þingið, að þetta færi saman, sambandsslit og stofnun lýðveldis.

Segja má, að það sé ekki smávægilegt spor, sem ætlazt er til, að þjóðin stígi með því að breyta aldagömlu fyrirkomulagi um æðstu stjórn landsins frá því að vera konungdæmi og yfir í að verða lýðveldi. Hefur verið mikið rætt um það hér á undanförnum árum, hver réttur Íslendinga sé í þessu efni, hver réttur þeirra sé til þess að breyta konungdæmi í lýðveldi. Það hefur ýmislegt verið um þetta sagt. Ég vil um þetta segja, að mér finnst, að það hljóti að vera réttur hverrar þjóðar að ákveða sjálf, hvernig hún skipar æðstu stjórn sinni, það hljóti að vera höfuðeinkenni frjálsrar þjóðar, að hún ákveði sjálf stjórnarform sitt. Þess vegna lít ég svo á, að Íslendingar hafi fullan rétt til þess að breyta stjórnarskipun sinni í lýðveldi. Þetta hefur verið og er minn skilningur, og út frá þessu hef ég tekið afstöðu til stofnunar lýðveldis. Hitt er annað mál, að konungssambandið hlaut að haldast, á meðan sambandslagasamningurinn var í gildi.

Flestir munu telja, að nú sé aukin ástæða til þess að breyta stjórnskipulaginu úr konungdæmi í lýðveldi, þegar sambandssáttmálinn fellur úr gildi. Ég tel þetta rétt, ekki vegna þess, að rétturinn breytist nokkuð við það, að sambandsl. falla úr gildi, heldur af þeim ástæðum, að það er í samræmi við alla stefnu landsmanna í sjálfstæðismálinu, að þetta tvennt fari saman. Það sýnist óeðlilegt og kannske nær óframkvæmanlegt, að ríki, sem eiga ekkert annað sameiginlegt, hafi sameiginlegan konung eða sameiginlega æðstu stjórn. Það sýnist geta orðið mjög erfitt að koma slíku við, og kæri ég mig ekki um að fara nánar út í það eða tiltaka atvik, sem fyrir gætu komið og stutt gætu þessa skoðun. Mér finnst fullkomlega réttmætt og þinglegt að halda fram þeirri stefnu, sem Alþ. ákvað 1941, og láta nú fara fram í senn sambands.slit og stofnun lýðveldis.

Það má færa fyrir því fleiri rök en ég hef minnzt á, og skal ég minnast á ástæðu, sem er ákaflega mikilvæg, um leið og ég ræði þá uppástungu, sem fram hefur komið um að aðskilja hina tvo þætti málsins, - slíta sambandinu við Dani, .en fresta stofnun lýðveldis. Þessi till. hefur komið fram frá einum hv. alþm., og einhverjir fleiri úr flokki hans, Alþfl., munu vera honum sammála. Enn fremur hefur, utan þings, verið sett af stað nokkur hreyfing og áróður fyrir því að breyta um stefnu Alþ. frá 1941 með því að fresta stofnun lýðveldis, slitum konungssambandsins, þótt menn gangi frá sambandsslitum. Mér virðast rök þau, sem fram hafa komið fyrir þessari stefnubreytingu, vera ákaflega veigalítil, svo að ekki sé meira sagt, og mér er með öllu óskiljanlegt, að þessari skoðun verði haldið til streitu. Mér heyrist sem fyrir þessu séu færð þau rök ein, að það sé óeðlilegt og ódrengilegt af hálfu Íslendinga að slíta konungssambandinu, þar sem ekki sé hægt að ræða til þrautar við konung, hvort hann vill segja af sér, áður en þessi breyt. verður formlega samþ. Ég hef engin önnur rök orðið var við og vænti, að það verði leiðrétt, ef mér hefur yfirsézt í því. Þá er það og látið í veðri vaka af þeim, sem nú vilja breyta alveg um stefnu í málinu, að það sé útlátalaust fyrir Íslendinga að bíða með stofnun lýðveldis og að ekki sé hægt að finna neitt málefnalega á móti því að láta lýðveldisstofnunina bíða, til þess að menn geti sýnt konungi þá persónulegu tillátssemi, sem þeir telja í því fólgna að eiga viðtöl við hann um það, að hann segi af sér.

Áður en ég svara því, hvort það væri háttvísara að bíða til þess að ræða við konung, mun ég minnast á þá staðhæfingu, að áhættulaust sé nú að breyta alveg um stefnu. Ég lít öðrum augum á þetta. Ég tel, að af því gætu stafað mikil vandkvæði fyrir þjóðina, ef þráðurinn væri nú slitinn þannig, að sambandsslit færu fram, en látið undir höfuð leggjast að stofna lýðveldi. Þetta mál hefur undanfarið verið rætt við aðrar þjóðir. Það hefur verið nauðsynlegt vegna þess, hversu ástatt er um alþjóðamál, og til þess að þær fái réttar hugmyndir um rétt okkar og fyrirætlanir. Þegar við höfum talað um þessi mál við fulltrúa þeirra, höfum við ævinlega haldið þannig á málum, að sambandsslitum hlyti að fylgja stofnun lýðveldis, milli þeirra ákvarðana væri órjúfandi samband. Það er kannske viðkvæmt mál í augum sumra utan Íslands, hvernig farið er með konungssambandið, og hugsanlegt, að þær raddir komi fram, ef breytt er um stefnu í málinu. Við höfum nú fengið viðurkenningu a.m.k. frá öðru því stórveldi, sem við höfum mest samskipti við, fyrir þeirri meðferð á málinu, sem Alþ. ákvað 1941, og þegar ég segi „málinu“, þá á ég ekki aðeins við sambandsslitin, heldur einnig stofnun lýðveldis. Ég tel einnig, að af hendi hins stórveldisins sé ekkert því til fyrirstöðu, að full viðurkenning fáist fyrir þessari málsmeðferð. Það er því mjög áríðandi, að við slítum ekki í sundur það, sem saman á að fara. Það yrði til þess, að taka yrði allt málið upp á nýjan leik, og enginn getur sagt fyrir um afleiðingar þess. Þetta eru þung rök. Ég legg því áherzlu á, að það verða að vera sterkar og knýjandi ástæður fyrir því, ef Íslendingar eiga nú að breyta um stefnu í málinu. Það hvílir því sú skylda á þeim, sem vilja nú breyta um stefnu, að færa þung og sterk rök fyrir því, að þjóðarnauðsyn krefjist stefnubreytingar.

Ég kem þá aftur að þeim einu rökum, sem enn hafa verið fram færð í þessu sambandi, sem sé því, að ódrengilegt sé að ræða ekki nánar við konung, áður en ákvörðun verður tekin um stofnun lýðveldis. Í sambandi við þetta gerðist hv. 4. þm. Reykv. til þess að ræða um persónulega verðleika Kristjáns konungs X. og hversu hann stæði drengilega í fararbroddi þjóðar sinnar í þeim hörmungum, sem yfir Dani hafa dunið. Hann vildi, að þetta yrði tekið til greina hér í sambandi við stofnun lýðveldis. Drengileg framkoma konungs í málefnum Dana kemur þessu máli ekkert við og ekki heldur verðleikar konungs. Við beinum engu gegn honum persónulega í sambandi við þetta mál. Þegar rætt er um drengskaparrökin og athugað gildi þeirra, þá ber hins vegar fyrst Og fremst að minnast þess, að hv. 4. þm. Reykv., ég og allir aðrir hv. þm., sem áttu hér sæti árið 1941, og í raun og veru þjóðin öll síðan, hafa ákveðið og lýst yfir því og tilkynnt það Kristjáni konungi X. árið 1941, að það verði stofnað lýðveldi á Íslandi. Þetta er hvorki meira né minna en aðalatriði málsins, þegar metin eru rökin um nauðsyn frekari viðræðna við konung. Ég vil segja það hreinskilnislega, að ég er í vafa um, að það væri nokkur kurteisi að fara til Kristjáns konungs X. og spyrja hann, hvort hann vilji leggja niður konungdóm, þegar við erum búnir að lýsa yfir lýðveldisstofnun, áður en talað er við hann, og það liggur fyrir, að þótt hann vildi ekki leggja niður konungdóm á Íslandi, þá yrði hann lagður niður þrátt fyrir það og lýðveldi stofnað. Það skiptir sem sé engu máli fyrir úrslit málsins, hvað hann segir. Þau eru þegar ráðin og gerð öllum heimi kunn árið 1941. Hv. 4. þm. Reykv. og aðrir, sem eins kunna að hugsa, hefðu átt að beita sér gegn því, að lýðveldisstofnun væri ákveðin árið 1941, án þess að talað væri við konung. Það gat talizt sérstök kurteisi að tala við konung, áður en gerð var samþykkt um að leggja konungdóm niður. En það er engin sérstök kurteisi að spyrja konung, hvort hann vilji leggja niður konungdóm, þegar fyrir liggur yfirlýsing okkar um, að lokið verði konungdómi hans á Íslandi, hverju sem hann kann að svara. Ef skylt var að sýna konungi slíka varfærni, þá átti að gera það, meðan það var tímabært og þegar það átti við, en nú, þegar málið er komið á þennan rekspöl, þá er ómögulegt, að þetta geti orðið grundvöllur þess að breyta alveg um stefnu og stefna málinu í óvissu. Það verður að vera annað og meira en einber hégóminn, sem þess væri valdandi, að svo yrði á haldið. Hér við bætist svo, að við höfum samvizkusamlega tilkynnt Kristjáni konungi X. samþykktir okkar í þessum málum og hann veit vel um fyrirætlanir okkar.

Það hefur verið rætt um persónu Kristjáns konungs X. í sambandi við þetta mál. Ég tel það mjög óviðeigandi. Hér er ekki verið að aðhafast neitt ótilhlýðilegt við hann. Ég hygg, að Íslendingum hafi líkað prýðilega, hvernig hann hefur rækt konungsembætti sitt, og að þeir hafi bókstaflega ekkert út á hann að setja. Við erum ekki að víkja Kristjáni konungi X. frá völdum persónulega, heldur erum við að leggja niður konungdóm á Íslandi og stofna lýðveldi í staðinn. Það er alveg hliðstætt því, þegar eitt embætti er lagt niður og annað stofnað í þess stað. Það er aðeins af því að við teljum, að okkur henti betur annað stjórnarfyrirkomulag en konungdæmið, að við ætlum að taka það upp. Og það er sérstaklega eðlilegt að gera það nú. En það er ekki af því, að við höfum áhuga á því að losna við persónuleg samskipti við Kristján konung X. Því fer alls fjarri.

Ég vil aðeins segja að lokum um þennan þátt málsins, að mér er ómögulegt að skilja, að það geti farið svo, að þjóðinni verði kastað út í stórvægar deilur út af þessu atriði. En ekkert annað hefur verið borið fyrir. Að vísu hefur verið minnzt á 18. gr. sambandsl., en vitanlega er okkur engin skotaskuld úr því að láta atkvgr. fara þannig fram, að hún uppfylli 18. gr. sambandslaganna. Við erum fullkomlega færir um það. Því er þetta það eina, að við eigum að ræða við konunginn um það, hvort hann vilji segja af sér, þó að við séum búin að lýsa yfir, að við ætlum að stofna lýðveldi.

Um frv. sjálft, sem hér liggur fyrir, get ég verið fáorður. Það þarf að sníða því stakk eftir stjskrbreyt., sem gerð var á s.l. ári. Þess vegna má ekki gera aðrar breyt. en þær, sem lúta að ráðstöfun æðsta valdsins, konungsvaldsins, og flutningi þess inn í landið. Það má vera, að ágreiningur verði um það, hvernig þessi æðsti maður verði valinn. Í frv. er gert ráð fyrir, að hann skuli valinn af Alþ. Þess hefur orðið vart, að menn telja orka tvímælis, hvort þetta sé rétt. Ég get ekki sagt annað á þessu stigi málsins en að Framsfl. vill taka til athugunar, hvort eigi sé rétt að hafa forsetann þjóðkjörinn.

Um vald forseta er það að segja, að það mun vera óheimilt að ætla honum meira vald en konungur hefur haft, en mér finnst vafasamt, hvort það eigi að afhenda honum allt það vald, sem konungur hefur haft. Annars má ekki blanda inn í þetta mál neinum atriðum, sem ekki geta átt þar heima, eins og ég gat um áðan. T.d. vitum við, að uppi eru raddir í landinu um að breyta stjskr. þannig, að forseti hafi meira vald en konungur hefur nú, og enn fremur um breyt. á kosningum til Alþ. Ég held, að allir flokkar hafi einhvern áhuga á því máli, og svo mikið er víst, að Framsfl. telur þar þörf gerbreytingar. En enginn má blanda áhuga sínum á slíkum breyt. saman við þær breyt., sem við þurfum nú að gera til að stofna lýðveldi. Við megum ekki taka upp í l. um lýðveldisstjskr. annað en það, sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis, án þess að almennar alþingiskosningar þurfi til. Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjskr. í heild og vinna að þeim breyt., sem gera þarf. Það er ekki ólíklegt, að þær breyt., sem ýmsir óska eftir, blandist í hugum manna saman við þá stjskr. fyrir lýðveldið, sem hér verður nú sett. Má vera, að þessi stjskr. mæti andúð vegna þess, að í hana vanti ýmislegt, sem menn vildu nú gjarnan, að sett yrði í stjórnskipunarlög landsins. Þetta er hættulegt og því má aldrei gleyma, að þessi stjskr., sem nú verður sett, getur ekki breytt öðru en því, sem snertir flutning æðsta valdsins inn í landið. Ef einhverjar tilraunir verða gerðar til að vekja óánægju með þessa stjskr., af því að ekki eru í henni verulegar breyt. á ýmsu, sem við vitum, að breyta verður, en ekki snertir þetta, þá verður að sameinast um að ganga gegn slíkri gagnrýni svo kröftuglega, að hún nái ekki að spilla fyrir stofnun lýðveldisins nú í vor.