07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Ég vil taka undir þá ósk hv. þm. V.-Húnv., að ekki sé farið að blanda í þetta frv. ágreiningsefnum, sem um þetta mál eru.

Mér var það ljóst, þegar frv. þetta var flutt, að engin von var um að fá það fram nema því aðeins að verðjöfnunarákvæðin, sem höfðu verið lögleidd áður, væru þar staðfest. En það er ekki ljóst, eftir því sem sex manna n. hefur ákveðið, að verðjöfnunarákvæðin séu áfram í gildi. Það, sem um er að ræða, er tvenns konar verðjöfnun, sú verðjöfnun, sem framleiðendur hafa komið sér saman um, að allir fái sama verð fyrir sömu vöru á sama stað, og svo mismunandi verð vegna vörugæða. Það er misskilningur, sem kemur fram hjá minni hl. fjhn., að verið sé að veita stjórn Mjólkursamsölunnar rétt til þess að ákveða mismunandi verð, heldur er farið fram á þarf, að þau ákvæði, sem nú eru í l. um verðjöfnun, standi áfram í framkvæmdinni. Það er ekki um annað að ræða. Og það er mikill misskilningur að láta sér koma til hugar, að það, sem áður hafði verið mesta ágreiningsefnið, meðan verið var að koma afurðasölunni í framkvæmd, sé hægt að fela n., sem er málinu gersamlega ókunnug, að setja ný ákvæði um verðjöfnun, önnur en þau, sem nú standa í l., veita henni heimild til þess að stjórna því eftir þeim reglum, sem henni þóknast. Ég er viss um, eins og fram kemur í bréfi frá formanni sex manna n., að þá hefur n. ætlazt til, að verðjöfnunarákvæðin væru framkvæmd, og það mun vera álit allra alþm., að svo sé. Þessi skilgreining staðfestist með því, sem farið er fram á hér, og ég vil mælast til þess, að hv. þm. a.-Húnv. vilji taka aftur þessa brtt. sína, sem nokkur ágreiningur hefur verið um, og sömuleiðis minni hl. fjhn. sína brtt. Verði þessar brtt. ekki teknar aftur eða þá felldar, er vonlaust um, að þetta frv. nái fram að ganga, og það hygg ég, að væri það versta, sem hægt væri að gera í málinu. Og ég hygg þá líka, að engir hv. alþm. ætlist til, að svo fari.