07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Ég kvaddi mér hljóðs til þess að láta í ljós sömu skoðun og komið hefur fram hjá tveim síðustu hv. þm., hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. þm. Skagf. — Það er öllum kunnugt, sem um þessi mál hafa fjallað, að það hefur verið mjög erfitt að ná samkomulagi um sanngjarna verðjöfnun á milli bænda. Eftir mikla viðleitni og góðan vilja hefur það þó loks tekizt. Svo eru sett hér á Alþ. lög, sem á engan hátt eru ætluð til þess að girða fyrir slíkt samkomulag, og má segja, að því fari mjög fjarri, að löggjöfin hafi ætlazt til þess, að samtök bænda væru um það einráð, hvaða reglur þau settu á sínu verðjöfnunarsvæði. Ég held, að fyrst svona hefur til tekizt. að það þykir orka tvímælis, hvort þessi löggjöf eigi að gilda áfram, þá sé það skylda Alþ. að taka af allan vafa í þeim efnum. Og ég vildi sagt hafa, eins og síðasti ræðumaður sagði, að þó að ég greiði nú atkv. móti öllum brtt. öðrum en brtt. meiri hl. n., vildi ég ekki með því segja til um, að ég væri mótfallinn þeim fyrirmælum, sem þar er ákveðið að lögfesta. Ég greiði þó atkv. móti þessum brtt., því að verði þær samþ., verður að telja a.m.k. mjög líklegt, að þetta frv. nái ekki fram að ganga á þessu þingi, sem bráðlega verður frestað. Ég legg því eindregið til, að brtt. verði felld, en frv. staðfest.