07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Það var út af þessu bréfi, sem ég talaði um. Fékk ríkisstj. ekki bréf frá þingflokkunum, er þeir töldu svar við bréfi frá henni, sem mig minnir ganga út á, að æskja álits flokkanna um málið? Ekki veit ég betur.

Það er rétt, enda tók ég það fram í ræðu minni, að síðasta þing, veitti ríkisstj. heimild til að greiða niður dýrtíðina, þar til það ákvæði öðruvísi. En þessi samþykkt var aðeins gefin í þál. formi, er kom fram og var samþ. í skyndi allra síðast á þinginu, eftir að forseti þessarar hv. d. var allt þingið búinn að liggja á öðru máli um þetta efni og hindra, að kæmi fyrir þingið. Þessi þál. er og þannig, að hún ber með sér, að hún er aðeins samþ. til bráðabirgða. Væri eðlilegast, að hún væri nú leyst af með l., enda kom það þá fram í þinginu, að þetta ætti ekki að vera nema bráðabirgðalausn, svo að ekki þyrfti að hætta að greiða niður dýrtíðina, meðan leitað væri að varanlegri ráðstöfunum. Þetta vildi ég taka fram.