09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Mál þetta er ekki mjög margbrotið, og get ég verið stuttorður um það. — Það er þannig til komið, að þeir, sem stjórna Mjólkursamsölunni, óskuðu eftir því við landbn., að frv. í áttina við þetta yrði borið fram á þessu þingi. Þeir töldu sig ekki hafa fulla heimild til þess nú á þessu ári að ákveða misjafnar greiðslur fyrir mjólk og þannig gæti farið, að mjólk, sem væri í 3. flokki, væri í svipuðu verði og mjólk í 1. flokki. Að þessu leyti var ekki síður nauðsynlegt fyrir neytendur en framleiðendur, að þessi breyt. kæmi fram til þess að koma í veg fyrir, að lakari mjólk bærist á markaðinn. — Hið sama er að segja um kjötið; það var einnig nauðsýnlegt, að hægt væri að koma á verðjöfnun, hvað það snertir.

Meiri hl. landbn. Nd. flutti þetta mál þar, og var því vinsamlega tekið þar í d. og samþ. án breyt. — Nú hefur málið komið til landbn. þessarar hv. d. Einn nm. var ekki staddur á fundi n., en þrír nm. voru sammála um að samþ. frv. breytingalaust. Ég lít svo á, að brugðið geti til beggja vona, að rétt sé að gera nokkra breyt. á þessu frv., því að þá nær það sennilega ekki fram að ganga, og er það verra fyrir alla, ekki sízt neytendur.

Hv. 7. landsk. skrifar undir nál. með fyrirvara og kemur með brtt. samhljóða þeirri, sem flutt var í hv. Nd. Við hinir í n. getum ekki mælt með því að taka nú þessa brtt. til greina, og leggjum við til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.