25.02.1944
Neðri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Eins og menn vita, er hinn formaður og frsm. hinna sameinuðu stjskrn. ekki í þessari hv. d., og verð ég því að tala af hálfu Sósfl. við þessar umr. hér. Ég mun ræða nokkuð bæði um þetta atriði, sem hv. frsm. annars nefndarhlutans hefur gert að aðalumræðuefni sínu, og fleiri.

Ég vil undirstrika það, sem hann sagði um þýðingu þessa máls og þess, að þjóðin standi sameinuð. Það er nauðsynlegt að gera sér ljóst, þegar samþ. er þessi stjskr., að við erum að framkvæma stórfellda breyt. á stjórnskipulagi okkar. Við erum í fyrsta lagi að afnema síðustu leifarnar af erlendu kúgunarvaldi, sem þjóðin átti við að búa öldum saman, en við erum einnig að breyta þjóðfélagsskipun okkar þannig, að allt valdið kemur frá þjóðinni sjálfri. Við breytum ekki einungis afstöðu okkar út á við til annarra þjóða, við erum líka að breyta þjóðskipulaginu, sem við höfum búið við sjálf, og tryggja, að allt vald sé frá þjóðinni sjálfri og að enginn einn maður hafi sakir erfða eða annars vald umfram aðra.

Formaður Nd.-nefndarhlutans minntist á það, með hvaða rétti við gerðum þessar breyt. Ég vil undirstrika það, sem hann sagði, að við höfum réttinn og höfum ætið haft hann, því að engin kynslóð hefur né hefur nokkru sinni haft rétt til þess að binda komandi kynslóðir undir ok annarra þjóða. Ef við vildum nota orðið „bylting“ um það, þegar þjóð tekur sér rétt, sem henni hefur verið neitað um um aldaraðir, þá er það nokkurs konar bylting, sem hefur verið að fara fram hér á Íslandi s.l. fjögur ár, eða frá 10. apríl 1940, þegar hver einasti þm. samþ. að flytja konungsvaldið inn í landið. En það þýðir, að vald konungs sem persónu gat ekki lengur notið sín og innlendum mönnum var fengið það í hendur, innlendum mönnum, sem má vita, að fylgja þeim l., sem þjóðin setur.

Hinn 15. des. 1942 var staðfest sú stjskrbreyt., sem heimilar Alþ. að afnema konungsvaldið, án þess að til komi staðfesting konungs, heldur látin einungis nægja staðfesting þess manns, sem er handhafi konungsvalds. Þetta er staðfesting þess, að þjóðin er að taka sér sjálf þetta vald, og það er þessi fjögurra ára þróun, sem við erum nú að leggja smiðshöggið á. Það má fullyrða, að þjóðin cildi yfirleitt ekki áframhaldandi konungdæmi, enda þótt einstaka manni kunni að hafa komið það til hugar, og það er nokkur hamingja, að deilan um það atriði varð ekki háværari.

Þá kem ég að brtt., sem sósíalistar fluttu þegar í byrjun um, að forseti skuli vera þjóðkjörinn. Þá voru allir á móti því, þótt nú hafi öðruvísi skipazt.

Það hefur komið fram hér í umr., að vald forseta sé ekki mikið. Ég er því ekki sammála. Ég tel, að vald hans sé mjög mikið. En ef til ágreinings kemur milli þings og forseta, þá á þingið að ráða. Og ég er sammála hv. frsm. um afstöðu hans til neitunarvalds forseta.

Um bráðabirgðaákvæðið er það að segja, að þjóðin á að fá ráðrúm til að búa sig undir kosningar. Sem stendur eru stjórnmálaflokkarnir hin einu skipulagsbundnu öfl, sem viðbúin eru kosningum. Hins vegar tel ég rétt, að t.d. þeir menn, sem mest hafa gagnrýnt stjórnmálaflokkana á Alþ., fái tækifæri til að taka virkan þátt í þeim kosningum.

Hv. 2. þm. S.-M. minntist á niðurfellingu 17. júní sem gildistökudags. Við sósíalistar erum á móti, að þetta ákvæði sé fellt úr, því að með því móti heldur Alþ. enn valdinu til að ákveða, hvenær lýðveldið skuli stofnað, en þjóðinni er ekki fengið það í hendur. Og það er ástæða til að ætla, að þetta vald verði notað til að draga lýðveldisstofnunina, þangað til talað hefur verið við konung. Á þennan hátt tekur Alþ. á sig ábyrgð, sem þjóðin á að hafa.

Hv. 2. þm. S.-M. tók það einnig fram, að þeir atburðir gætu gerzt, sem hindruðu, að lýðveldið yrði stofnað, og ef svo færi, þá yrðu það svo alvarlegir atburðir, að gagnslítið mundi að hafa þetta ákvæði í stjskr. Ég tel ekki sæmandi, að þm., sem talar fyrir hönd meiri hl. þings, skuli gera ráð fyrir því, að stjskr. skuli brotin, enda þótt slíkt hafi eitt sinn verið gert. Ég get alls ekki fallizt á slíkt sjónarmið, og ég verð að segja það, að þegar slík yfirlýsing er gefin, þá fer það vald, sem við erum að samþ. með þessari stjskr., að verða nokkuð rýrt. Og hvers getum við vænzt af mönnum, sem taka sér ekki þyngra en svo að brjóta stjskr.?

Þá minntist þm. á, að erfitt hefði orðið um samkomulag, ef ákvæðinu um 17. júní hefði verið haldið. — Í því sambandi er rétt að geta þess, að fulltrúi sá, er lagði á móti þessu ákvæði, var ekki fulltrúi fyrir allan sinn flokk. Haraldur Guðmundsson hefur lýst yfir, að hann væri með þessu ákvæði. Hins vegar er það vitað, að þótt nú hafi verið slakað til, þá er ekkert endanlegt samkomulag fengið, og það er engin trygging fyrir því, að þessir menn verði með hinn 17. júní. Þeir munu þvert á móti nota þennan tíma til að gera sem ákveðnastar kröfur um, að lýðveldið verði ekki stofnað, fyrr en talað hefur verið við konung. Við mótmælum ekki gildi einingarinnar í þessu máli, en með þessari skipan er engin eining og ekkert raunverulegt samkomulag fengið. Það virðist því auðsætt, að hér er haldið á af nokkurri skammsýni.

Þær þjóðir, sem kynnu að vera andstæðar sambandsslitum, munu án efa nota öll tækifæri til að draga gildistökuna á langinn. Við teljum því, að með þessu sé málinu stefnt í hættu. En ef þetta ákvæði var haft, þá var skellt í lás og þjóðinni jafnframt fengið það vald, sem henni bar. Það er allveigamikið atriði, hvenær lýðveldið skuli stofnað, og raunar hafa aðalátökin alltaf verið um það. Þess vegna var það, að stjskrn. ákvað að setja 17. júní sem endanlegan gildistökudag.

Frsm. sagði, að meðan enginn hefði skorizt úr leik, væri ekki hægt að áfella neinn. Það væri fyrst hægt að dæma menn fyrir þetta, þegar þeir hefðu sýnt, að þeir vildu ekki, að lýðveldi yrði stofnað 17. júní. Hann gætir þess ekki, að þá er um seinan að iðrast. Það, sem við getum nú tekið ákvarðanir um, það eigum við að ákveða. Með því móti er málið ljósast og öruggast. Það hafa komið hér fram ómaklegar ásakanir í garð okkar sósíalista, einkum frá hv. þm. G.-K. Það kom illa við okkur, þegar farið var að taka ákvæðið um 17. júní út úr. Með því var brugðið einingu hinna þriggja flokka, sem höfðu staðið saman í þessu máli, og samvinnunni var brugðið vegna atriðis, sem er í raun og veru einskis virði, eins og ég hef nú sýnt fram á. Þetta viðkvæma mál um stofnsetningu lýðveldisins gæti orðið harðvítugt deilumál.

Ég álít, að þegar við ræðum þetta atriði, eigum við að athuga, hver verið hefur afstaða Íslendinga til lýðveldisstofnunarinnar til þessa. Íslenzk alþýða hefur gert ráð fyrir því, að stofnað yrði lýðveldi, þegar þjóðin yrði frjáls. Árið 1928, þegar fulltrúar Alþfl. lögðu fram fyrirspurn um afstöðuna til lýðveldisstofnunar, þegar skilnaðurinn yrði við Dani, þá fengu þeir ekkert svar. Hinir flokkarnir vildu ekkert um þetta segja. Þegar 20 ár voru liðin, frá því að sambandslögin voru gerð, kom aftur fram fyrirspurn um afstöðu flokkanna til lýðveldisstofnunar. Og það var í gær í sambandi við umr. um skilnaðarmálið verið að minnast á þá yfirlýsingu, sem hv. þm. G.-K. gaf viðvíkjandi afstöðu Sjálfstfl. til skilnaðarmálsins 1937. Hann svaraði þá um leið spurningum viðvíkjandi lýðveldismálinu, og hann segir þar í þeirri þingræðu, sem hann hélt til þess að skýra afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli, þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„En hinn hlutinn er um konungssambandið og aðra óviðkomandi. hluti.“

Hv. þm. G.-K. talaði í þessu sambandi um konungssambandið sem óviðkomandi hlut sambandsmálinu, enda tekur hann þetta fram í ræðu seinna á þinginu. Þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Sambandslagasamningurinn fjallar ekki um konungssambandið, og við höfum enga leið til þess að losna við konunginn á annan veg en með uppreisn eða á þann hátt að banna konungi okkar, eftir að málefnaskilnaður hefur orðið á milli Dana og Íslendinga, að vera konungur í öðrum ríkjum. En það mál er þessu máli alveg óskylt, enda hefur þessi hv. þm. hvorki látið uppi sínar skoðanir né heldur reynt að knýja fram álit annarra flokka við umr. í utanrmn.

Það er auðséð, að á þessu stigi er ekki búið að taka ákvörðun um þetta, a.m.k. ekki hv. þm. G.-K., að því er snertir hans flokk, að standa með því að stofna lýðveldi á Íslandi, um leið og skilnaður fari fram við Dani. Framsfl. svaraði ekki fyrirspurn Alþfl., ef ég man rétt.

Ég lauk þar við áðan, sem ég hafði rætt um svör við fyrirspurn Alþfl. 1937 um afstöðu annarra þingflokka til lýðveldismálanna, og hafði greint nokkuð frá, hverju hv. þm. G.-K. hafði svarað. Afstaðan var þá þannig 1938, að tveir flokkar, Alþfl. og Sósfl., lýstu yfir því, að þeir væru meðmæltir lýðveldi, en hinir flokkarnir, sem voru þó miklu stærri, höfðu enn ekki tekið afstöðu og höfðu ekki þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir látið uppi, hvað þeir vildu gera. Ég skal geta þess til þess að vera fyllilega sanngjarn, að það er ef til vill skiljanlegt, að flokkur stjórnarinnar hafi síður fengizt til að láta uppi, að hann vildi vinna að því að fá afnám konungdómsins, þar sem hann stóð í stöðugu sambandi við konung.

Ekkert var gert til að undirbúa þjóðina undir skilnaðinn. Árið 1939 höfðum við okkar síðustu afskipti af Dönum og konunginum. Það hefur áður verið rætt svo margt um heimsókn Staunings hingað, að ég sé ekki ástæðu til að gera það að sérstöku. umræðuefni nú, en mér þykir rétt, að það komi fram í þessu sambandi, hvernig afstaða Sjálfstfl. var þá til málanna, með tilliti til þess, sem hv. þm. G.-K., form. Sjálfstfl., lét falla til okkar sósíalista. Hinn 12. ágúst 1939 birtir Morgunblaðið viðtal við Stauning, þar sem hann segir:

„Ég vil, að sambandið haldist milli þessara tveggja nágrannaþjóða. Ég held, að margir Íslendingar óski hins sama.“

Í sama blaði er ræða eftir þáv. sendiherra Íslendinga í Khöfn: „Um konungssambandið. Alveg eins var um eitt atriði, konungssambandið. Um það var ekki samið, heldur var því slegið föstu, að við værum í sambandi við Dani um einn og sama konung. Þetta var heldur ekki samningur, heldur samningsgrundvöllur. Eftir orðalagi laganna gildir eitt og hið sama um þessi tvö atriði, fullveldið og konungssambandið. Okkur er jafnóheimilt að segja upp konungssambandinu eins og Dönum er óheimilt að taka aftur fullveldisviðurkenninguna.“

13. ág. ritar ritstj. Morgunblaðsins þessi orð í blaðið um „Konungssambandið“: „... því þótt einkennilegt megi virðast, þá hefur svo lengi verið algerlega kyrrt um sambandsmál vort við Dani, að fjöldinn af fólki hefur ekki gert sér grein fyrir því, að konungssambandið er alveg utan við það mál. Skýring sendiherrans á málinu, að því er konungssambandið snertir, var því þörf hugvekja, sem margir eru þakklátir fyrir.“

16. ágúst er talað um sambandsmálið í leiðara Morgunblaðsins, en ekki minnzt einu orði á konung.

Ég skal ekki draga neinar ályktanir af því, hvað þessi orð bera með sér, en það hlýtur þó að vera augljóst, að fastákveðið hefur ekki verið þá, að Sjálfstfl. beitti sér fyrir stofnun lýðveldis á Íslandi.

Þegar styrjöldin skellur á, slitnar sambandið við Dani. Við verðum að gera okkur ljóst, að í hvaða styrjöld, sem er, slitnar sambandið við Dani. Svo var það 1809, í fyrri heimsstyrjöld og einnig nú. Samband Íslendinga við Dani er alltaf óeðlilegt. Þegar sambandið slitnaði, urðum við að stjórna okkur sjálf, og þá jókst tilfinning okkar fyrir því, að við gætum það, og hin gamla vanmáttartilfinning þvarr. Þá loks vinnur sú hugsun á og sigrar, að íslendingar séu ekki aðeins færir um að stjórna sér sjálfir, heldur hafi þeir rétt til að gera það og sjálfsagt sé að gera það. 1940–41 stendur Alþ. ekki einungis saman um að slíta sambandið, heldur einnig um að stofna lýðveldi.

Hef ég nú rifjað að nokkru leyti upp, hvað það er, sem svo eðlilega gerir okkur tortryggna. — Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem eining hefur verið um að stofna lýðveldi á Íslandi. Sumarið 1942 voru gefnar um þetta stórorðar yfirlýsingar, og hv. þm. G.-K. lýsti yfir því, að hann mundi beita sér fyrir, að gengið yrði frá lýðveldisstjskr. og lýðveldisstofnuninni. Þá var gert kunnugt út á við, að lýðveldisstjskr. ætti að öðlast gildi á því ári og, eins og síðar kom fram, gerðar sérstakar ráðstafanir til, að slíkar fréttir bærust út til Danmerkur. Eins og hv. frsm. komst að orði, stóð Alþ. og þjóðin öll á bak við þetta. En svo kom þessi bobbi í bátinn, að sú erlenda þjóð, sem mest völd hefur hér, lagði mjög fast að okkur að fresta þessu. Hér á Alþ. var þá reynt að fá því framgengt, að ekki væri látið undan. Vikum saman var reynt að ná samkomulagi um, að haldið yrði svo fast á málunum, að lýðveldi yrði stofnað þrátt fyrir mótmælin. Ég held mér sé óhætt að segja, að lengst af hafi Sjálfstfl. verið á móti því að láta undan. Sósfl. og Alþfl. stóðu einnig ákveðið saman um það, en með Framsfl. voru ýmsir örðugleikar, kjördæmamálið vildi blandast þar inn í. En það var þáv. forsrh., form. Sjálfstfl., sem mest beitti sér fyrir því að láta undan, á móti „hörðu leiðinni“, eins og það var kallað hér á þingi. Svo fór að lokum, að Alþ. lét undan þeim þrýstingi, sem þá kom upp, og það voru einmitt þeir, sem gefið höfðu svo stórorðar yfirlýsingar um, að lýðveldi skyld'i stofnað, hvað sem hver segði, sem létu undan síga.

Ég vil minna á það út af ásökunum frá hv. þm. G.-K., að það vorum ekki við, sem skárumst úr leik þá. Við stóðum alltaf með ályktunum Alþ. Þeir, sem skárust úr leik, voru menn úr Sjálfstfl. sjálfum. Hitt er það, að þá fengum við reynslu, sem við höfum geymt, og við munum reyna að gera það, sem við getum, til þess að það sama endurtaki sig ekki. Þess vegna stöndum við svo fast um það, að 17. júní standi áfram í stjskrfrv., svo að Alþ. geti ekki farið leiðina, sem farin var 1942, að láta undan. Við vitum, hve Alþ. er miklu næmara fyrir þessum þrýstingi en þjóðin sjálf, og ef Alþ. samþ. að breyta 81. gr., tekur það á sig ábyrgð, sem það getur ekki risið undir. Þjóðin sjálf á að ráða og taka endanlega ákvörðun um þetta atriði.

Árið 1943 var hvað eftir annað farið fram á það, bæði af hálfu Sjálfstfl. og Sósfl., að afgreiða þetta mál, en Framsfl. vildi alltaf fresta því. Síðast nú í nóv. s.l. vildi hann láta fresta því þar til eftir 17. maí, og málið hefur því dregizt mánuð eftir mánuð. Það hefur ekki staðið á okkur. Við skoruðum eindregið á alla flokka að fylkja sér um sjálfstæðismálið, áður en Alþ. var frestað í apríl s.l.

Það, sem ég hef rifjað hér upp af sögu málsins, hef ég gert til að sýna fram á, hvaða átök hafa verið um 17. júní, og til að hindra, að það ákvæði verði strikað út í frv. Við vitum, að það hefur verið settur þrýstingur á, að beðið yrði, þangað til hægt væri að ná tali af konungi. Það heyrðum við einmitt við 1. umr. frá hv. 4. þm. Reykv. Þá var verið að hræða þá flokka, sem til hægri stóðu, með því, að hér væri verið að framkvæma byltingu. Því er enginn efi á, að þetta ákvæði þarf að binda fast, og það verður ekki fastar bundið en með því að láta það standa í stjskr.

Við sósíalistar höfum frá upphafi fylgzt með þessu máli, en við höfum aldrei skoðað það sem sérmál okkar og álítum ekki rétt af neinum flokki þings að gera það. Við höfum heldur aldrei sett það á oddinn við kosningar, en alltaf álitið, að okkur bæri að standa saman um það, hver sem bæri það fram á hverjum tíma. Og það munum við halda áfram að gera, jafnvel þótt okkur finnist nú illa að okkur farið. Við munum ekki grípa til þess að beita hótun, hvað þá meira, um að vera á móti því. En okkur finnst það leitt, að þeir, sem beita hótunum um að vera á móti málinu, ef þeir fái ekki öllu sínu framgengt, þeir ráði, en til hinna, sem undir öllum kringumstæðum er vitað, að verði loyal, sé ekkert tillit tekið. Ég álít það skyldu okkar að vara þjóðina við að fella ákvæðið um 17. júní úr stjskr. Þetta álít ég ekkert flokksmál og veit, að menn, bæði úr Sjálfstfl., Framsfl. og fleirum, eru á sama máli um það.

Að síðustu vil ég beina til hv. frsm. tveimur fyrirspurnum út af því, sem hann hefur sagt. Ég get ekki séð, að nein trygging sé fyrir því, að sömu þm. verði á því Alþ., er saman kemur í júníbyrjun. Það væri því æskilegt, að hann vildi lýsa því fyrir þingheimi, hvernig það sé tryggt, af því að ég tók ekki eftir, að framsaga hans væri svo skýr, að þm. gætu skilið, hvernig þetta er tryggt.

Í öðru lagi sagði hv. frsm., að hann vonaði, að Alþ. mundi standa saman um þetta mál, hvernig sem fer um einstakar brtt.

Ég vil lýsa yfir því fyrir hönd Sósfl., að við munum standa saman um stjskrmálið, hvernig sem fer um einstakar brtt. En ég vil spyrja hv. frsm.: Hefur hann tryggingu fyrir því, að staðið verði saman nú um þetta stjfrv. af hálfu þeirra manna, sem hér semja, hversu sem fer um einstakar brtt.? Hefur hann tryggingu fyrir því, að þm. Alþfl. muni greiða atkv. með stjfrv., þó að brtt. n. við 81. gr. yrði felld? Eða er það svo, að þingheimi verði sett skilyrði af hálfu eins manns í n. og hann muni ekki standa með öðrum flokkum nema því aðeins, að hann fái sínum vilja framgengt?

Það hefur verið þjóðleg eining um afgreiðslu þessa máls, allt frá því að það var fyrst tekið fyrir á hæstv. Alþ. Það var þjóðleg eining um það hjá hverjum einasta þm. hinn 10. apríl 1940 að taka æðsta vald ríkisins inn í landið. Það var þjóðleg eining hinn 17. maí 1941, og það var þjóðleg eining um þetta mál, þegar nál. var undirskrifað 1943. Það er vonandi, að sú eining megi haldast, og við verðum að gera það, sem við getum, til þess að svo verði. En jafnframt því, sem við þörfnumst að hafa einingu um þetta mál, þá þurfum við líka meiri festu, þurfum að halda fastar á þessu máli okkar en við höfum gert. Eining og stefnufesta verður að fara saman, annars getur hér orðið undanhald, en ekki sókn.

Við munum ekki bera fram brtt. við þessa umr. Kann að vera, að við gerum það við 3. umr., enda er það talið langréttast „prinsip“, að það, sem n. kom sér niður á, komi fyrst til atkvæða hér í þessari hv. d.