09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Um frv. sjálft hef ég lítið að segja. Ég hef verið þeirrar skoðunar frá upphafi, að það væri þarflaust. Hitt orkar aftur á móti tvímælis, hvort heimild sé til að taka tillit til flutningskostnaðar til sölustaðanna í greiðslunni, þannig að bændur hér í nágrenni Rvíkur greiði skatta, sem renni til bænda fyrir austan fjall.

Í sambandi við ræðu hv. 7. landsk. vil ég taka það fram, að mér er kunnugt um, að ríkisstj. lítur svo á, að hún hafi heimild til niðurgreiðslu. 16. des. s.l. var samþ. hér á Alþ. þál., sem hljóðar svo: „Sameinað Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að lækka verð á vörum innan lands gegn framlagi úr ríkissjóði til þess að hindra verðbólgu, þar til Alþingi gerir aðrar ráðstafanir.“ — Það er þó mín skoðun, að mjög óviðeigandi sé, að slíkar uppbætur séu greiddar, án þess að fyrir liggi upplýsingar um fullan vilja Alþingis.

Eg geri ráð fyrir, að þótt brtt. á þskj. 189 yrðu samþ., mundi ríkisstj. telja sig hafa heimild til að halda áfram niðurgreiðslum eftir sem áður. Ég sé því ekki ástæðu til að greiða atkv. með brtt.

Að því er snertir 2. lið brtt., er sama um hann að segja og á síðasta þingi. Ég get ekki greitt því atkv. Eins og margoft hefur komið fram, er það mitt álit, að niðurstöður sex manna n. séu ekki aðeins hæpnar, heldur allfjarri sanni. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til, að n. athugi málið frekar, auk þess sem það er augljóst, að slík fyrirmæli um endurskoðun af hálfu n. hljóta að vera árangurslaus. Grundvelli vísitölunnar verður ekki breytt, nema n. sé á einu máli um það vegna nýrra upplýsinga. Það er þegar vitað, að verulegur hluti n. og þeir, sem bak við þá menn standa, óska ekki eftir breyt., svo að ég hygg, að árangurinn yrði ekki annar en sá, að upp kæmi ágreiningur milli nm. um það, hversu réttur grundvöllurinn væri, án þess að breyt. fengist.

Hv. 7. landsk. talaði um, að með þessu ætti að tryggja, að það samkomulag milli stétta, sem nú væri fengið, héldist. Ég hygg, að þessi orð séu mælt út í loftið, ef svo mætti segja. Hitt er rétt hjá hv. þm., að skv. dýrtíðarl. og að þeim óbreyttum, — en þeim má auðvitað breyta, — á ríkisstj. að sjá um, að athugun á grundvelli vísitölunnar fari fram innan tiltekins tíma, og geri ég ráð fyrir, að henni verði ekki skotaskuld úr því að framkvæma slíkt.