25.02.1944
Neðri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Ég hafði raunar ekki ætlað að kveðja mér hljóðs, en ég geri það af sérstöku tilefni frá síðasta ræðumanni. En ég tek það fram, að enda þótt ég hafi talið rétt af mér að taka þátt í þessum umr. af þessu gefna tilefni, þá sé ég ekki ástæðu til að fara að gera neina almenna grein fyrir afstöðu þess flokks, sem ég tilheyri, til niðurfellingar sambandslagasamningsins og samþykktar lýðveldisstjórnarskrár. Ég get um öll meiri háttar rök og almenn sjónarmið vísað til þeirra tveggja framsöguræðna, sem fluttar hafa verið hér af hendi skilnaðarn., í Sþ. í gær og af hendi stjskrn. í dag af hv. 6. þm. Reykv. og hv. 2. þm. S.-M. Þær ræður eru skýrar og segja það um efni og eðli málsins, sem ég tel meginmáli skipta, og ég álít, að ég mundi alls ekki bæta þar um, þótt ég færi að ræða málið sérstaklega. En út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. veik að mér, þá vil ég segja nokkur orð.

Hv. þm. sagði, að það hefðu komið fram hér í umr., að vísu um annað mál, en þó þessu skylt, dylgjur í garð Sósfl. og þá sérstaklega af minni hendi. Ég veit, að þeir hv. þm., sem hlýddu á þessar umr., mundu staðfesta það, að ég átti ekki frumkvæðið að þeirri deilu, sem þá fór fram, heldur bar ég þar aðeins af gefnu tilefni hönd fyrir höfuð flokks míns. Ég skal ekki fara út í að rifja upp þá deilu. Mér fannst hún ástæðulítil þá og enn ástæðuminna að vera að skjalfesta þær umr. nú í þessu stærsta máli þjóðarinnar, því að þessar umr., sem nú fara fram, verða síðar á komandi áratugum og öldum lesnar af komandi kynslóðum Íslands, og þegar af þeirri ástæðu gætu þær orðið okkur til sóma, eftir því sem föng standa til. Ég tel, að ekki verði aukið á þann sóma með því að draga þessa tiltölulega lítilfjörlegu misklíð nú inn í umr., en misklið þessi var um skipun n. til þess að undirbúa hátíðahöld í sambandi við stofnun lýðveldisins. Það er enn minni ástæða fyrir okkur að vera með þessa misklíð nú, þar sem ekki verður annað sagt en að samvinna okkar í stjskrnefndum beggja deilda hafi verið ánægjuleg og í alla staði með ágætum. Við höfum starfað þar dag eftir dag af mikilli alúð og einlægni til þess að leita að sönnum niðurstöðum í þessu máli. Ég held í raun og veru, að varla nokkru sinni hafi komið fyrir nokkur sá ágreiningur, sem rekja mætti til þess flokkaágreinings, sem ríkir hér á hæstv. Alþ. Þvert á móti var það oft áberandi, þegar fram fór atkvgr. um einhver ákveðin ágreiningsefni, hvernig skoðanir manna komu fram á þá lund, að það var alveg auðsýnt, að álit manna skiptist þá,á enga lund eftir flokkum.

Ég tek þetta fram af því, að mér finnst rétt, að við njótum þessa sannmælis. Um þessi stórmál þjóðarinnar hefur í n. ríkt sá eini rétti andi. Mér hefði verið það sönn ánægja, ef öll þjóðin hefði getað fylgzt með því, sem þar fór fram.

Ég skal nú ekki gera neina tilraun til þess að auka á þann ágreining, sem fram kom frá hendi hv. 2. þm. Reykv., þótt ég telji betur hlýða að fara um þetta mál nokkrum orðum og setja fram sjónarmið mitt.

Hv. þm. sagði í ræðu sinni, að ekki væri hægt að komast hjá því að rannsaka fortíð þessa máls, og lét hann í það skína, að nokkuð mundi á það skorta, að sá flokkur, sem ég tilheyri, hafi sýnt nægilega rögg af sér um það, hvaða stjórnarfar skuli verða hér, þegar við slítum konungssambandinu, — þegar sú stund rennur upp, sem vonandi verður í vor. Hann vitnaði í nokkrar ræður, er ég flutti sem formaður Sjálfstfl. á Alþ. 1937, þegar rætt var um till., sem fram kom frá hendi þáv. ríkisstj. um, að Íslendingar færu að undirbúa það, sem verða ætti, þegar við Íslendingar tækjum í okkar hendur meðferð allra okkar mála og lýðveldi yrði stofnað. Ég man nú ekki nákvæmlega, hvað þá var sagt, en Sjálfstfl. taldi það ekki koma þar nægilega skýrt í ljós, að Íslendingar ætluðu ekki aðeins að taka í sínar hendur utanríkismál, heldur stjórn allra sinna mála. Um þann orðasveim, sem þá kom fram, spunnust svo nokkrar umr. Í þeim umr. lýsti ég fyrir hönd flokks míns greinilega yfir þeim vilja flokksins að .hagnýta þau fyrstu tímatakmörk, sem sambandslagasamningurinn heimilaði, til þess að krefjast endurskoðunar á samningnum og slíta honum með öllu. En ég lýsti líka yfir því fyrir hönd flokksins, að við vildum engan samning gera í staðinn.

Svo mun það hafa verið á Alþ. 1938, þegar sama mál var þar til umr. og 1937, að þá drógust inn í þær umr. umr. um konungssambandið, og það er rétt, sem hv. þm. sagði, að ég nefndi það mál þá óviðkomandi þeirri till., sem þar var til umr. Enn fremur er það rétt hjá honum, að ég lét þá orð falla um það, að sambandslagasamningurinn fjalli ekki um konungssambandsslit. Þetta er rétt eftir haft. En ég get vitnað til þeirrar almennu skoðunar, sem ríkt hefur allt fram á þennan dag, og til tveggja merkra stjórnlagafræðinga og lögfræðinga, hæstv. dómsmrh. og hv. 6. þm. Reykv., sem báðir hafa staðfest þetta. Ég hef því ekki sagt neitt annað en staðreyndir og það, sem verið hefur sameiginleg skoðun allra þeirra manna, sem um þetta mál hafa fjallað fram á þennan dag. Ég get þess vegna ekki litið svo á, að aðrir flokkar hafi verið hollari þeirri ósk, sem nú er efst á baugi, að slita konungssambandinu og stofna lýðveldi á Íslandi. Enda er það staðreynd og hefur á fullkomnum rökum að byggja, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði og hv. 6. þm. Reykv. lagði líka áherzlu á í ræðu sinni, að innst inni í huga langflestra Íslendinga hafi ávallt búið óskin um stofnun lýðveldis í sambandi við hugsunina um slit konungssambandsins. Þá er það rétt, að um þetta var miklu minna talað en um sjálf sambandsslitin, og sjálfsagt hefur nokkur fjöldi manna gert sér minni grein fyrir þessari hlið málsins. En ég legg áherzlu á, að það raskar ekki þeirri staðreynd, að langflestir, þó með örfáum undantekningum, hafa hugsað sér annað skipulag á æðstu stjórnskipun okkar, þegar þar að kæmi.

Ég vil geta um það, að 1937, þegar þær umr. fóru fram, sem hv. 2. þm. Reykv. gerði að umtalsefni, kærði Sjálfstfl. sig ekki um að blanda sér inn í þær umr., og benti ég á það þá, að þetta lægi utan við hið eiginlega umræðuefni. Bar ég síðan fram þessa ósk: Ég leyfi mér að beina því til forseta, hvort honum þyki ekki rétt að fresta atkvgr. um málið og taka það af dagskrá, til þess að Alþfl. geti komið fram með brtt. Það er sýnt, að þegar á þessu stigi málsins, er rætt var um það, sem ég kallaði óskylt mál, hafði ég talið flokk minn ekki óviðbúnari að taka afstöðu til málsins en svo, að ég gerði það að ósk minni, að málið yrði tekið af dagskrá, til þess að Alþfl. gæfist kostur á að taka ákvörðun um málið, þ.e.a.s. konungssambandsslit og stofnun lýðveldis á Íslandi. Það er rétt að játa það, að síðan þær umr. fóru fram, hefur þjóðin miklu almennar gert sér grein fyrir því, hvað sé eðlilegt samband milli þjóðarinnar og forsetans. Frá því er við í apríl 1940 færðum æðstu stjórnina inn í landið í fyrsta skipti frá því 1262, þá hefur öllum mönnum orðið ljóst, ekki aðeins, að við værum færir um að fara með þetta vald, heldur einnig, að ekkert annað er eðlilegra og að forsetinn sé búsettur hér heima. Ég skal svo ekki að öðru leyti ræða þetta mál.

Út af því, sem hv. þm. sagði varðandi viðræður flokkanna á sumarþinginu 1942 í sambandi við íhlutun Bandaríkjanna um fyrirhugaða lýðveldisstofnun á því ári, þá vil ég segja það, að við höfum yfirleitt ekki talið henta að gera opinberar þær viðræður, sem þá fóru fram. Það voru sjálfsagt innan allra flokka skiptar skoðanir um það, hvort verða ætti við þeim óskum, en það varð þó samkomulag allra flokka að taka þessar óskir til greina. Ég er þeirrar skoðunar, að það, sem við gerðum þá, hafi verið það eina rétta. Það er að vísu rétt, að einn og einn þm. voru og eru enn í dag þeirrar skoðunar, að við hefðum þá stigið víxlspor. En ég vil þó undanskilja hv. 2. þm. Reykv. og flokk hans. Ég veit ekki til þess, að um þetta hafi verið skiptar skoðanir innan flokks hans. Hins vegar veit ég, að innan Sjálfstfl. voru skoðanir manna skiptar.

Ég held nú, að ég þurfi ekki að rekja frekar ummæli hv. 2. þm. Reykv. til þess að sýna fram á, að sá kvíðbogi, sem hann segist bera fyrir einhverjum óhöppum í sambandi við stofnun lýðveldisins, sé úr lausu lofti gripinn, þ.e.a.s., að hann verði ekki studdur við neitt í fortíð þessa máls. Ég held, að með réttum rökum verði ekki sagt, að við höfum gert neitt það, sem rangt er eða gefi tilefni til að halda, að við eigum fyrir höndum að stíga víxlspor í þessu máli.

Hv. þm. lét í ljós mikinn ugg yfir því, að úr frv. hefur verið tekið gildistökuákvæðið um 17. júní. Hv. frsm. svaraði þessum hugsunarhætti og þessum kvíðboga allýtarlega í framsöguræðu sinni, og þar komu fram þau meginrök, sem vakað hafa fyrir okkur, sem teljum okkur eins góða „sjálfstæðismenn“ og hv. 2. þm. Reykv. En samt sem áður höfum við fallizt á þetta samkomulag.

Þá varpaði hv. þm. fram þeirri spurningu, hvað það þýddi, ef Alþ. héldi völdunum hjá sér, en fæli þau ekki þjóðinni, svo sem bundið er fyrirmælum í sjálfri stjskr. Og hann svaraði á þá lund, að enn væri þar opinn möguleiki til þess að vona, að sem flestir fagni yfir lokasporinu. Ég er ekki sammála hv. alþm. um það, að ekki hafi átt að ganga til samkomulags og taka úr frv. ákvæðið um 17. júní. Því að hvað leiðir af því, að þetta hefur verið gert? Það leiðir það af því, áð við þá atkvgr., sem nú fer fram, höfum við greitt götu þeirra, sem vilja ekki gildistökuákvæðið um 17. júní, til þess að gjalda jáatkvæði við atkvgr. En af því leiðir, að þá höfum við aukið fylgi okkar í þessu máli, og af því leiðir loks, að það dregur úr hættunni á erlendum afskiptum af þessu máli, ef sú hætta er annars nokkur fyrir hendi, — því að því meiri einingu sem þjóðin sýnir, þeim mun minni eru líkurnar fyrir því, að aðrar þjóðir fari að hafa afskipti af þessu máli, úr því sem komið er. Hitt er svo annað mál, að á þennan hátt höfum við með engu móti glatað öryggi okkar né dregið úr því, að 17. júní verði eftir sem áður valinn. Hv. þm. má ekki gleyma því, að þegar þjóðin staðfestir stjskr. við þjóðaratkvgr., þá leggur hún blessun sína á, að Alþ. ákveði gildistökudag, það Alþ., sem hefur nú nýlega lýst yfir því, að 17. júní og enginn annar dagur skuli verða valinn sem gildistökudagur stjskr. Þjóðin hefur þannig ekki sjálf gert 17. júní að gildistökudegi stjskr., heldur einungis falið hæstv. Alþ. að kveða á um þennan dag og engan annan. Þeir eru fáir, sem telja, að ekki megi treysta því, að þjóðin hafi falið Alþ. að kveða á um þennan dag og engan annan, og að það sé hún ein, sem vilji sýna brigðmæli um það, að gildistaka stjskr. fari fram 17. júní. Þó að einhver flóttahugur kynni að koma upp í því liði, sem í öndverðum des. s.l. batzt samtökum um að leggja fyrir Alþ. það lýðveldisstjskrfrv., sem nú er lagt fram hér á hæstv. Alþ. með gildistökudeginum 17. júní í frv., þá get ég ekki séð, að aðstaða til undanhalds í málinu fyrir það lið hafi batnað. Það er sérstaklega skoðun mín, að þessir menn, sem nú samþ. að taka þetta fyrirmæli um, að stjskr. taki gildi 17. júní, úr henni, hafi þrengt dyr sínar til undanhalds í málinu, hvað svo sem fyrir kann að koma. Ég er ekki að gera því skóna, að neinir voveiflegir atburðir gerist til að hamla gildistöku stjskr. En mér skildist á hv. frsm., að hann tæki þann möguleika til greina í umr. Og mér skildist, að hv. 2. þm. Reykv. skoðaði þetta sem fullkominn möguleika. En ég staðhæfi, að ef eitthvað slíkt kemur fyrir, þá eru útgöngudyrnar til undanhalds þrengri fyrir Framsfl. og Sjálfstfl., ef þetta gildistökudagsákvæði er tekið burt úr frv., en ella mundi vera. Þessir flokkar mundu þá — að þeim atburðum orðnum, sem nú eru orðaðir í þessu sambandi, sem yrðu þess valdandi, að þessir flokkar teldu sig tilneydda að bera fram ósk um frestun á gildistöku stjskr., — vita það, að þeir væru lagðir undir ámæli um að hafa haft illan ásetning, þegar þeir gerðu þessa till. um að nema þetta ákvæði burt úr frv. eða féllust á hana. Og ég endurtek það enn, að þar af leiðandi eru útgöngudyrnar þrengri til undanhalds fyrir þessa flokka, þó að aðstæður gerðu það aðkallandi að fresta gildistökunni. Og ég vil sérstaklega undirstrika það, sem hv. frsm. sagði, að ef erlent vald ætlaði nú að hafa afskipti af þessum málum hjá okkur, þá á það ekkert svar að fá annað en að það sé um seinan. — Það má raunar ævinlega segja, að við eigum ekki að taka of mikið tillit til þeirra radda, sem hljóma yfir álana. Ég tel þó, að 1942 hafi verið skynsamlegt að taka það tillit til álits erlendra manna, sem þá var gert. En ég tel, að við höfum svar á reiðum höndum við hvern, sem á elleftu stundu sér sér fært að bera fram óskir um frekari frestun á gildistöku stjskr.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það hefði ekki einu sinni unnizt það á með samkomulaginu, sem fékkst við Alþfl., að við ættum einingu um málið til lokaafgreiðslu þess. Það getur vel verið, að það megi segja. En það, sem á hefur unnizt, er, að nú er víst um það, að á þessu þingi stöndum við allir saman. Ég hef alltaf lagt ákaflega mikið upp úr því. Ef þetta samkomulag hefði ekki tekizt, þetta samkomulag, sem hefur fært okkur vissuna um einingu um málið á þessu þingi, þá hefðum við í stað þess haft vissuna um óeiningu á þessu þingi. Það, sem þá var um að velja, var annars vegar vissa um óeiningu á þessu þingi og hins vegar vissa um einingu á þessu þingi. Og við einingu á þessu þingi má einnig bæta einingu á því þingi, sem kemur saman í júní n.k. Ég er ekki í vafa um, að þjóðaratkvgr. mun sýna svo mikið fylgi við þetta mál, að menn þurfi ekki að hika við að fylgja því á seinna þinginu. Og ég geri mér vonir um, að niðurstaða þjóðaratkvgr. um niðurfelling sambandslagasamningsins muni hafa gagngerð áhrif á afstöðu Alþ. til gildistökunnar 17. júní. Meginatriði málsins er þess vegna það, að með þessum tilslökunum, sem á engan hátt snerta kjarna málsins, höfum við í meiri hl. á Alþ. bundizt samtökum um málið við fjórða flokk þingsins, sem er gamall stjórnmálaflokkur. Við skulum gera mikið eða lítið úr hans fylgi við málið, eftir því sem menn vilja, en ég hef þá skoðun, að kraftur okkar rýrni ekki, heldur aukist verulega við þátttöku þess flokks í baráttu fyrir málinu. Og við höfum nú skýlausa yfirlýsingu og einlægan vilja fjórða flokksins einnig um jákvætt fylgi við niðurfellingu sambandslagasáttmálans og jákvæða staðfestingu á lýðveldisstjskr. Það er því mikill sigur, sem við höfum unnið í þessu máli, en hefðum ekki náð, ef hv. 2. þm. Reykv. hefði ráðið. En með þessu er ég ekki að halda fram, að hann hafi óskað eftir óeiningu um málið. En hann hefur lagt of mikið upp úr þeim tilslökunum, sem við höfum fallizt á, til þess að allsherjar samkomulag gæti náðst. — Hv. þm. sagðist bera kvíðboga fyrir því, að nú mundi verða farið að freista þess að fá Íslendinga til þess að fresta gildistöku stjskr. og megináherzla á það lögð, að það hefði ekki verið hægt, ef gildistökudagurinn hefði verið ákveðinn 17. júní, því að þá hefði verið búið að skera á þráðinn. En það er búið að skera á þráðinn nákvæmlega á sama hátt og þó að gildistökudagurinn væri ákveðinn 17. júní í stjskr. — og raunar kannske enn þá ákveðnar.

Ég vil svo varðandi þetta atriði segja það, að ég endurtek, að fortíðin er okkur til lofs, en ekki til lasts í þessu máli. Ég held, að það verði dómur sögunnar um undanfarin þing, að þótt þau að öðru leyti hafi ekki borið gæfu til að leysa ágreiningsmál, sem þó eru eðli sínu samkvæmt meiri og stærri en önnur þing hafa átt við að glíma, og áróður gagnvart Alþ. þess vegna að mestu leyti úr lausu lofti gripinn og stundum af furðulegu þekkingarleysi, — þá verði það okkur til lofs, hvernig við höfum haldið á sjálfstæðismálinu á undanförnum þingum. Og því sorglegra hefði það verið, ef á örlagastund, á elleftu og síðustu stundu, hefði svo til tekizt, að deila, sem ég get ekki kallað annað en deilu um keisarans skegg, hefði orðið til þess, að við hefðum ekki borið gæfu til þess að standa saman í málinu.

Hv. 2. þm. Reykv. endaði ræðu sína á því að segja, að hann hefði alltaf álitið, að okkur bæri öllum að standa saman, og að framkoma hans og flokks hans hefði hnigið að því, hann hefði ekki einu sinni viljað hafa í hótunum um það, að sundur skyldi draga, jafnvel þó að flokkur hans teldi miður farið með ýmislegt í málinu en skyldi. Ég tel þann tilgang lofsverðan, en óska þá einnig og vona, að sá hv. þm. víki til hliðar í huga sér öllum minni háttar skoðanamun og virði það, sem var grundvallarsjónarmið sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, þegar þeir gerðu það samkomulag, sem orðið er, — og það er í samræmi við það, sem hv. 2. þm. Reykv. lýsti, að væri sitt grundvallarsjónarmið, mikilvægi þess, að allir mættu standa saman um málið.

Ég skal svo að lokum aðeins segja það, sem ég vona, að gefi ekki tilefni til neinna stórdeilna, að ég lét í ljós við 1. umr. um þetta mál þá von og þá ósk, að takast mætti að sameina Alþ. um þetta mál. Ég hef fyrir mitt leyti af fremsta megni viljað eiga þátt í því, að sú ósk mætti rætast. Þetta samkomulag hefur nú náðst. Og ég fagna því af heilum huga og tel það einn markverðasta og farsælasta viðburð í stjórnmálasögu okkar. Ég tel þetta samkomulag á síðustu stundu gleðilegan fyrirboða nýrrar einingar í þjóðmálum Íslendinga. Ég tel það vott þeirrar nýju blessunar, sem hið fulla frelsi mun færa íslenzku þjóðinni.