07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

66. mál, barnaspítali

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er nú liðið á fundartímann, og skal ég ekki eyða mörgum orðum til andsvara.

Fjhn. hefur ekki þótt það góð meginregla að veita slíkar skattaundanþágur fyrir hvaða fyrirtæki sem er, en ég vil benda á það, að fjhn. varð sammála um að flytja þetta frv. N. leggur einróma til, að þessi heimild verði veitt, og er það af þeim sérstöku ástæðum, að þótt ríkið missi. nokkuð af tekjum sínum við þetta, er ríkið í rauninni að gefa sjálfu sér, því að sú skylda að reisa hér barnaspítala hvílir í rauninni á ríkinu og bæjarfélaginu. Ef þessi heimild verður veitt, má þess vænta, að þetta stórmál komist fyrr í framkvæmd en ella.

Nokkuð svipað átti sér stað með byggingu Landsspítalans, er konur landsins tóku sig saman um að hrinda því máli í framkvæmd, og eru allir landsmenn mjög þakklátir fyrir þá starfsemi þeirra. Nú er hér um viðbót að ræða við Landsspítalann, sem ekki má lengur dragast. Kvenfélagið Hringurinn hefur nú tekið þetta mál í sínar hendur og gengið að því verki með mjög miklum dugnaði og myndarskap, og hefur þegar safnazt há fjárupphæð í þessu skyni. Þar sem ríkisstj. lagði til á síðasta þingi, að veitt yrði undanþága, sem nemur 10% af skattskyldum tekjum, vænti ég þess, að stj. leggi nú ekki þránd í götu þessa litla frv.

Fjhn. gerði sér það ljóst, að það væri ekki hægt að halda áfram endalaust að veita slíkar undanþágur, en hins vegar fannst henni þessi undanþága eiga fullkominn rétt á sér, þar sem um er að ræða byggingu barnaspítala. Þess vegna vænti ég þess, að á sama hátt og fjhn. var sammála um að fylgja þessu máli, að hv. Alþ. muni nú í annað skipti veita þessa heimild, og er mikils um vert, að hún verði veitt, áður en þingi verður frestað, því að með því mun málið fyrr ná fram að ganga en ella.