07.03.1944
Neðri deild: 27. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

66. mál, barnaspítali

Ólafur Thors:

Ég viðurkenni, að það er mikið vandamál að taka ákvarðanir um, undir hvaða kringumstæðum ber að heimila skattfrelsi varðandi slíkar gjafir. Hins vegar hef ég ríka tilhneigingu til þess að líta svo á, að þegar um er að ræða stofnanir, sem beinlínis væri skylda ríkisins að koma á fót, en aðrir taka það í sínar hendur, sé það mjög vel til fallið, að ríkið styðji slíka starfsemi sem hér er á ferðinni, og einmitt á þann hátt, sem ætlazt er til í þessu frv.

Ég fyrir mitt leyti væri í rauninni samþykkur því, að sett yrði einhver allsherjar löggjöf um þessi efni, og teldi vel farið, að þetta yrði gert einmitt meðan fólk hefur góð peningaráð, eins og standa sakir. Hins vegar er þess ekki kostur á þessu þingi, þar sem það yrði nokkuð umfangsmikið og tæki sinn tíma.

Eins og hv. frsm. fjhn. tók fram, er n. einhuga samþykk þessu frv., og vil ég þess vegna segja það, að þrátt fyrir það að ég væri samþykkur því, að sett yrði allsherjar löggjöf fyrir þær stofnanir, sem teljast þjóðarnauðsyn og skylda ríkisins er að koma á fót, að ég er því fylgjandi, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Ég mun því fyrir mitt leyti reyna að greiða götu þessa frv., svo að það sleppi gegnum hinar þröngu dyr, þar sem þess er nú mjög skammt að bíða, að þingi verði frestað.