09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

66. mál, barnaspítali

Pétur Magnússon:

Ég er að vissu leyti sömu skoðunar og hæstv. fjmrh. um þetta mál, að það sé varhugaverð braut, sem farið er inn á með því að veita slíkar undanþágur. Það er hins vegar af allt öðrum ástæðum, sem ég álít þetta varhugavert, heldur en hæstv. fjmrh.

Sannleikurinn er sá, að þau fyrirtæki, sem fá slíkan undanþágurétt, eru yfirleitt fyrirtæki, er mundu hvort sem er fá styrk af ríkisfé, svo að hvað hag ríkissjóðs snertir skiptir þetta ekki miklu máli. Það, sem mér þykir varhugavert við að ganga inn á þá braut, að veita smáundanþágur út á hina fjárhagslegu skattalöggjöf, er það, að mér finnst þetta verða til þess, að síður verði bætt úr hinum stóru ágöllum skattalöggjafinnar, og finnst mér mjög varhugavert að veita slíkar undanþágur hvað eftir annað.

Hins vegar er þetta mál, sem hér liggur fyrir, þess eðlis og þörfin fyrir slíka stofnun, sem hér um ræðir, svo aðkallandi, að ég tel það væri ákaflega varasamt af þinginu, úr því að einu sinni hefur verið gengið út á þessa braut og á meðan skattamálin eru látin dankast, að neita nú um þá ívilnun, sem hér um ræðir.

Forgöngumenn þessa máls hafa beitt sér fyrir því af miklum dugnaði og óeigingirni, og mér skilst, að búið sé að safna talsvert góðum vísi til sjóðsstofnunar í þessu skyni. Mér finnst þess vegna; að hæstv. fjmrh. taki allt of illa á þessu máli, og sérstaklega fyndist mér það fjarri öllu lagi, ef þingið færi að neita um afbrigði fyrir málinu, því að það er aðferð, sem ég hef ekki þekkt hér á Alþ. nema í alveg sérstökum undantekningartilfellum:

Ég vildi því gera það að till. minni, að þetta mál næði fram að ganga og helzt án þess að því væri vísað til n.