09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

66. mál, barnaspítali

Gísli Jónsson:

Ég sé nú ekki, að hæstv. fjmrh. hafi verið mikið áhugamál að koma fram brtt. sinni, því að ekki sést hann hér sjálfur í d. til að berjast fyrir henni. (Forseti: Hæstv. fjmrh. er forfallaður.) Það er nú náttúrlega nokkur afsökun, en ég get ekki fallizt á, að brtt. nái því marki, sem hæstv. fjmrh. ætlar henni, þótt hún yrði samþ. Ég lít svo á, eins og hv. 8. landsk. sagði, að skattalögunum hér sé þannig fyrir komið, að nauðsynlegt sé að rjúfa skörð í þann múr, ef hjálpa á nauðsynja- og mannúðarmálum í landinu á hverjum tíma. Þetta hefur sýnt sig með skattfrelsi gjafa til vinnuhælis berklasjúklinga, og sé ég ekki ástæðu til að setja þetta mál skör lægra með því að takmarka skattfrjálsu gjafirnar við 25 þúsund, því að yfirleitt gefa menn ekki heldur hærri gjafir.

Í sambandi við þetta vil ég benda á, að gjafmildi Reykvíkinga og Íslendinga yfirleitt hefur jafnan verið við brugðið, og ég held, að það sé nauðsynlegt við og við að samþ. frv. eins og þetta, svo að skattalöggjöfin þvingi þá gjafmildu ekki um of, því að ef svo væri ekki, þá mætti enda með því, að skattalöggjöfinni tækist að afnema þennan góða sið. Af þeirri ástæðu m.a. er ég á. móti brtt. hæstv. fjmrh., en með frv. óbreyttu.

Að síðustu vil ég benda hv. 1. þm. Eyf. á, af því að hann skaut því hér fram, hvort ekki væri alveg eins rétt að láta 3. umr. þessa máls falla niður eins og senda það ekki í n., þá væri það ekki verra frá mínu sjónarmiði en afgreiða ósómann um Krýsuvíkurveginn við tvær umr., því að það álít ég einsdæmi að brjóta þannig stjórnarskrána og falsa ríkisreikningana.