09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

7. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Frv. það, er hér liggur fyrir, lá fyrir síðasta Alþ. og var þá samþ. í hv. Nd. Hins vegar voru gerðar á því töluverðar breyt. hér í þessari hv. d., þannig að í burt var felld 6. gr. frv., en slíkt fer mjög í bága við venjuleg hafnarl. og stafar af sérstökum aðstæðum á Siglufirði. Frv. náði því ekki fram að ganga þá, en er nú flutt hér aftur í sama formi og það var afgr. við 3. umr. í Nd. á fyrra þingi, þó að tekið hafi verið tillit til nokkurra smábreyt.,. sem sjútvn. Ed. bar fram.

En þegar málið kom nú til sjútvn. þessarar hv. d., kom enn til umr. 6. gr. frv., og var n. ekki sammála um það, hvernig leysa skyldi þetta mál.. Í þessari gr. er gert ráð fyrir, að náist ekki almennt samkomulag lóðarleigjenda á Siglufirði, geti meiri hl. þröngvað minni hl. til að taka þátt í endurbyggingu hafnarmannvirkja móti vilja sínum. Nokkrir í n. voru á móti þessu og töldu óeðlilegt og óheppilegt að fara inn á að lögbinda ákvæði af þessu tagi og töldu þau ganga nokkuð nærri ákvæðum stjskr. um eignarréttinn. Þeir vildu því fella 6. gr. úr frv., eins og hún kom frá Nd. En á fundi upplýstist, að þörf Siglfirðinga væri svo mikil til að leysa úr þessu, að nauðsynlegt væri, að samkomulag fengist um þetta. Þetta tókst n., og lagði hún til, að á frv. yrðu gerðar þó nokkrar breyt., meðal annars á 5. gr., en sú breyt. er í því fólgin að fella niður síðasta lið gr. Það var að vísu upplýst af vitamálastjóra, sem kom á fund n., að þetta ákvæði mundi vera til í ýmsum hafnarl. eða einum fimm. Ég hef hins vegar ekki getað fundið það nema í hafnarl. fyrir Dalvík. Skoðun meiri hl. var, að ákvæðið væri ekki einasta óeðlilegt, heldur hefði það ekki heldur neina þýðingu, vegna þess að það fengi ekki staðizt dóm fyrir hæstarétti, ef um það yrði deilt síðar meir. N. samþ. því að fella þetta ákvæði niður að undan teknum einum nm., hv. 4. landsk., sem skrifaði undir með fyrirvara, sérstaklega með tilliti til þessarar gr.

Þá varð samkomulag um að gera breytingu á 6. gr. á 193. þskj. Liðirnir a-e eru í rauninni ekki annað en leiðréttingar, sumpart á prentvillum, og vegna þess, að þessar prentvillur breyta efni, þótti ekki annað gerlegt en breyta þeim. Hins vegar er í f-lið mikilsvarðandi breyt. og fer fram á það, að ef einhver hluti leigutaka vill ekki beygja sig undir það, sem meiri hl. kemur sér saman um, þá skuli þeir menn eiga kröfu á því, að hafnarsjóður Siglufjarðar kaupi af þeim lóðarréttindi ásamt mannvirkjum, sem þeim fylgja, og skuli andvirðið ákveðið af þar til dómkvöddum mönnum. — Þá er g-liður brtt., ný málsgr. um það, hvernig fara á með ákvæði gr. um það, hvernig réttur manna skiptist í hlutfalli við eignir þeirra. Þótti rétt, að atvmrh. ákvæði nánar um þetta með reglugerð að fengnum till. bæjarstj. Siglufjarðar.

Þá er breyt. á 12. gr. frv., að á eftir orðunum „er greiða ber í ríkissjóð af vörum“ í 2. málsl. 1. málsgr. komi nýr málsliður, svo hljóðandi: „Gjald þetta innheimtir hafnarnefnd“. Þetta er sett inn í til samræmis við önnur hafnarl. og breytir ekki neinu.

Ég tel ekki ástæðu til að skýra þetta nánar. Það er fullt samkomulag um afgr. málsins við hv. flm., og enn fremur hefur þetta verið borið undir bæjarstj. á Siglufirði, sem bar það undir hafnarn. á staðnum, og einnig hefur það verið borið undir vitamálastjóra, þó að hann teldi það beztu lausnina, að hafnarsjóður keypti upp allar þessar eignir, en það er ekki heldur lokað fyrir það, þó að þetta sé samþykkt.

Hafnarstj. hefur óskað eftir því, að þetta verði að l. á þessu þ. Sjútvn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt að öðru leyti og því verði flýtt svo, að það geti orðið að l., áður en Alþ. er frestað.