26.02.1944
Neðri deild: 20. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Jakob Möller:

Herra forseti. — Það eru aðeins tvö atriði í þessu frv., sem ég vildi lýsa afstöðu minni til.

Þessi fyrirhugaða stjskr., sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjskr., þ.e.a.s., jafnframt því; sem hún er samþ., er gert ráð fyrir, að stjskr. ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum. Ég hygg, að það hafi vakað fyrir stjskrn. þeirri, sem samdi þetta frv., er hér liggur fyrir, m.a. af þessum sökum að tiltaka, að forseti lýðveldisins skyldi vera kjörinn af þinginu. Það hefur vafalaust komið fleira til athugunar í því sambandi og að sjálfsögðu vald forsetans. Og það er vissulega mál, sem hv. þm. verða að taka afstöðu til, hve mikið vald forsetanum er ætlað. Mér virðist, að kosning valdalauss forseta, eins og gert er ráð fyrir í frv., geti í rauninni ekki verið almenn þjóðarkosning. Það er ekki ætlazt til þess, að hann hafi neina sérstaka stjórnmálastefnu, og hann getur þess vegna ekki boðið sig fram til forsetaembættisins sem stjórnmálaleiðtogi. Og mér er spurn, hvernig slík kosningabarátta meðal þjóðarinnar á að fara fram, þar sem ekki er slíku til að dreifa. Það er auðsætt hins vegar, að gera mætti ráð fyrir því. að forsetaefni verði boðin fram fleiri en eitt og fleiri en tvö við sömu kosningar, og kosningabarátta hlýtur þá að verða. Er þess vegna ekki sjáanlegt, að kosningabaráttan geti snúizt um annað en persónueiginleika forsetans. Og það er vissulega ákaflega óheppilegt að stofna til slíkra kosninga um forseta, sem fyrirsjáanlegt er, að ekki geta snúizt um annað en persónueiginleika forsetans. Hitt finnst mér alveg liggja í hlutarins eðli, að deila megi um, hvort fara eigi að dæmi Bandaríkjamanna og ætlast til þess, að forsetinn sé stjórnmálaleiðtogi og hafi þá viss völd í sambandi við það. En meðan ekki er tekin afstaða til þessa, þá finnst mér alveg auðsætt, að til bráðabirgða beri að haga þessu eins og vakað hefur fyrir þeim, sem frv. sömdu, að forsetinn verði kjörinn af þinginu. — Ég er þess vegna mótfallinn þessari breyt. og mun greiða atkv. á móti henni. Ég vil svo vekja athygli á 7. brtt. n., þar sem um er að ræða frávikningu forseta, áður en kjörtími hans er liðinn. Það er náttúrlega óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því, að forseti geti orðið óhæfur til þess að gegna starfi sínu. Það verður að gera ráð fyrir þeim möguleika, þó að sjálfsagt megi gera ráð fyrir því, að það geti ekki komið nema örsjaldan fyrir, að slíkt hendi. En sá möguleiki er fyrir hendi, og verður þess vegna að setja ákvæði þar að lútandi. Nú er eðlilegt, — þar sem gert er ráð fyrir, að forsetinn verði þjóðkjörinn, — að kröfu um, að honum verði vikið frá, sé skotið undir atkv. þjóðarinnar. Og ég hef ekkert við það að athuga. En mér þykir furðulegt að slá því föstu, að kjörtímabil forsetans sé framlengt, ef þjóðaratkvgr. í því tilfelli fer þannig, að kröfunni sé hafnað, hve lítill munur sem verða kann við atkvgr. Og ef þetta gerðist seint á kjörtímabili, þá á forsetinn að sitja að heita má nýtt kjörtímabil í viðbót, aðeins fyrir það, að krafa um frávikningu hans kann að verða felld með dálitlum atkvæðamun. Nú er vitanlegt, að í slíkum tilfellum geta komizt að persónulegar tilfinningar, persónuleg velvild, þannig að menn kveinki sér við að fylgja slíkri kröfu fram við þjóðaratkvgr. og greiði því atkv. á móti henni, jafnvel þó að þeir hafi hugboð um, að réttmætt sé að gera slíka kröfu, sem hér um ræðir. Er það þá ekki nægilegt, að forsetinn fái hrundið kröfunni, þó að hann sé ekki verðlaunaður fyrir það, að þessi krafa hefur verið gerð um frávikningu hans, með því að kjósa hann til nýs kjörtímabils? Mér finnst það ekki ná nokkurri átt, heldur beri að breyta þessu þannig, að forsetinn sitji í stöðu sinni til loka kjörtímabils síns, ef slík krafa er felld við þjóðaratkvgr., en svo verði að sjálfsögðu að fara fram kosning eins og venjulega, þegar kjörtímabilið rennur út.

Ég hef orðað brtt. um þetta, en sé þó kannske ekki ástæðu til þess að bera hana fram við þessa umr., þar sem þetta ákvæði er í sambandi við þjóðkjör forsetans. Og þó að ég telji að vísu alveg víst, að brtt. um þjóðkjör forsetans nái fram að ganga, og telji það óheppilega ráðið, þá get ég vel játað, að eins og komið er, sé e.t.v. ekki fært vegna vinsemda málsins að stofna til þess, að ágreiningur verði um þetta. Ég hygg, að það sé rétt, að það sé nokkuð almennur vilji kjósenda, að forseti verði þjóðkjörinn, þó að ég sé fyrir mitt leyti alveg sannfærður um það, að sá almenni þjóðarvilji sé byggður á fullkomnum misskilningi, þannig að menn geri sér ekki grein fyrir því, hvaða munur er á þjóðkjöri og þingkjöri í sambandi við forsetann og til hvers er stofnað með slíku þjóðkjöri, eins og hér er gert ráð fyrir. Ég hygg sem sagt, að einmitt það, sem menn almennt hugsa sér að vinna við þjóðkjör forsetans, því einmitt tapi þeir við það, að forsetinn sé þjóðkjörinn, í samanburði við það, að hann sé þingkjörinn. Ég er einnig alveg sannfærður um það, að þegar fram í sækir, verði forsetaefnin við þjóðkjör borin fram af flokkunum og til forsetaefna kjörnir harðvítugustu flokksmenn, sem mest ítök eiga meðal kjósendanna. En ég hygg, að þeir, sem fastast fylgja þjóðkjöri nú, geri það af því, að þeir álíti, að það sé einkum þetta, sem hægt sé að forðast með þeim hætti, að forsetinn verði þjóðkjörinn.

Svo vildi ég aðeins spyrjast fyrir um það, hvernig skilja beri eitt atriði. Það er í 7. brtt., um að krafa Alþ. þurfi að hafa hlotið fylgi 3/4 hluta allra atkv. í sameinuðu þingi. Hvað þýðir „allra atkvæða“ þarna? Ég er hræddur um, að það megi deila um þetta, þannig að það megi leggja hvorn skilninginn, sem vera skal, í þetta, að það sé átt við 3/4 hluta greiddra atkv. eða hins vegar 3/4 hluta atkv. allra þm. Ég held þess vegna, að rétt sé að breyta orðalagi þarna.

Svo get ég aðeins tekið undir með hv. 4. þm. Reykv.. — því að ég hygg, að hann hafi vakið athygli á því, — að mér finnst alveg öfugt við það, sem vera á, að hafa það ákvæði í stjskr., að l., sem forseti neitar að staðfesta, skuli ganga í gildi þegar í stað og svo e.t.v. falla úr gildi samkvæmt þjóðaratkvgr.