25.02.1944
Efri deild: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

46. mál, lendingarbætur í Örlygshöfn

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Þetta frv. er flutt eftir ósk hreppsnefndar Rauðasandshrepps. Það er samið eftir gildandi l. um lendingarbætur að öðru leyti en því, að farið er fram á aðrar upphæðir en gert er ráð fyrir í öðrum lendingarbótal., og er það í samræmi við það, sem hreppurinn treystir sér til, og hins vegar, hvað gert er ráð fyrir, að þetta muni kosta.

Vitamálastjóri hefur látið fara fram rannsóknir í sambandi við þessar fyrirhuguðu lendingarbætur. Þeim er enn ekki lokið, en búizt er við, að þeim verði lokið á næsta sumri. Síðan verður hafizt handa um framkvæmdir, eftir að allur nauðsynlegur undirbúningur hefur verið gerður.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta neitt frekar nú, en óska, að frv. verði vísað til hv. sjútvn. að þessari umr. lokinni og það fái þar fljóta og sanngjarna afgreiðslu.