28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Herra forseti. — Ég benti á það við 2. umr., og það kom einnig til tals í n., að ákvæðið um kjörgengi virtist ekki geta verið eins og gert er ráð fyrir í frv. Þar segir svo:

„Kosningarrétti og kjörgengi til Alþingis, svo og embættisgengi, halda að öðru jöfnu þeir menn, er þann rétt hafa, er stjórnarskrá þessi kemur til framkvæmda, þótt eigi séu þeir íslenzkir ríkisborgarar.“

Þetta er í sjálfu sér rétt, en það gætu komið fleiri menn, sem krefðust hins sama, t.d. danskir ríkisborgarar, sem enn hafa ekki öðlazt kosningarrétt, gætu öðlazt hann á þessu tímabili og þar til stjskr. gengur í gildi. Gæti það gilt um flóttamenn frá Danmörku.

Ég hef því leyft mér að koma með brtt. við 2. ákvæði um stundarsakir. Því miður er till. ekki prentuð, en von er til þess, að hún komi, áður en umr. er lokið. Ég var því knúinn til að bera fram skrifl. brtt., og þar eð hún er einnig of seint fram komin, þarf tvöföld afbrigði. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir erlendir ríkisborgarar, sem öðlazt hafa kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis eða embættisgengi, áður en stjórnskipunarlög þessi koma til framkvæmda, skulu halda þeim réttindum. Danskir ríkisborgarar, sem téð réttindi hefðu öðlazt samkv. 75. gr. stjórnarskrár 9. maí 1920, að óbreyttum lögum frá gildistökudegi stjórnskipunarlaga þessara og þar til sex mánuðum eftir, að samningar um rétt danskra ríkisborgara á Íslandi geta hafizt, skulu og fá þessi réttindi og halda þeim.“

Með tilvísun til stjskr. frá 1920 og 6. gr. sambandsl. hefur verið girt fyrir, að aðrir en þar um ræðir geti orðið þessara réttinda aðnjótandi. Ég hef ekki haft tækifæri til að sýna nema 2 nm. brtt. þessa, en þeir telja, að hún megi vera eins og hún er nú. Ég hef afhent hæstv. forseta brtt. og vænti, að hann taki hana til greina.