28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Ég þarf nú ekki að vera langorður, en vil aðeins segja nokkur orð vegna þeirra raka og andmæla, sem komu fram í ræðu hv. 2. þm. S.–M. gegn brtt. minni á þskj. 94. Það er nú svo, að ég hef hvorki sannfærzt af rökum hans né aths., sem komið hafa frá stjskrn.

Ég tók það fram, að ákvæði 26. gr. riði í bága við 2. gr. frv. Vil ég orða það svo, að ef 26. gr. verður samþ., hefur 2. gr. misst gildi sitt að því leyti, sem farið er eftir orðanna hljóðan. Ef 26. gr. verður samþ., ætti í raun og veru ekkert annað að standa þar en: Alþingi fer með löggjafarvaldið, því að forseta er ekkert vald veitt í lagasetningu. Þess vegna er sama, hvort hann undirskrifar lögin eða ekki. Ef hann undirskrifar l., öðlast þau gildi, geri hann það ekki, öðlast þau samt gildi, en til frambúðar þó því aðeins, að þjóðin hafi samþ. þau að viðhafðri þjóðaratkvæðagreiðslu. — Það er ekki um synjunarvald forseta að ræða hér, heldur er það þjóðin, sem segir til um það, hvort l. eigi að hafa framtíðargildi eða ekki.

Það er svo fyrir mælt, að l. skuli lögð fyrir þjóðina svo fljótt sem auðið er. Þetta er vel mælt. En ég hygg, að forseti hafi ekkert vald til að ákveða hér um, og ef ríkisstj. er samtaka um að vera ekki fljót til í þessu efni, þá mun Alþ. ekki sjá ástæðu til að skipta sér af því.

Það er misskilningur hjá hv. 2. þm. S.–M., að um synjunarvald sé að ræða hjá forseta. Það er þjóðin, sem fer með það. Það er því aðeins formsatriði, þegar talað er um, að löggjafarvaldið sé hjá Alþ. og forseta, að þessir aðilar fari saman með löggjöfina. Og ég vil taka það fram, að ég álít, að í stjskr. eigi ekkert að vera, sem ekki hefur fullt gildi.