09.10.1944
Efri deild: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

99. mál, lendingarbætur á Látrum í Aðalvík

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta mál, borið það saman við gildandi l. um lendingarbætur og komizt að þeirri niðurstöðu, að ákvæði 4. gr. frv. sé öðruvísi en í öðrum l. um lendingarbætur, þannig að úr því hafa fallið orðin „lendingarsjóðsstjórnar og“ á eftir orðunum „nema samþykki“. Það er hins vegar mjög nauðsynlegt að hafa bæði samþykki lendingarsjóðsstjórnar og hreppsnefndar fyrir því, sem í 4. gr. getur um. Sjútvn. hefur því lagt til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að orðunum: lendingarsjóðsstjórnar og — verði bætt inn í 4. gr. frv. á eftir orðunum „nema samþykki“. Í sambandi við þetta mál þótti rétt að láta það koma fram í framsögu, að nauðsyn bæri til þess að láta fara fram gagngerða endurskoðun og róttækar endurbætur á öllum l. um hafnargerðir og lendingarbætur um land allt. Það er ekki aðeins, að hver hreppur, sem að sjó liggur, vilji fá sín l. um hafnargerð eða lendingarbætur, heldur heimta sumir þeirra fleiri en ein slík l.

Hér liggja nú t.d. fyrir d. tvö frv. um lendingarbætur í Aðalvík, en nú er Aðalvík eiginlega aðeins ein verstöð og ekki heill hreppur, heldur aðeins lítill hluti af einum hreppi, og gætu því aðrir hlutar þessa sama hrepps einnig farið fram á sín l. um lendingarbætur. Það hefur einnig komið fyrir með Ólafsfjörð, að þar hefur þurft að fá undanþágu frá ábyrgð sýslunnar fyrir láni til hafnargerðar. Það ber því brýna nauðsyn til þess að endurskoða þessi l. hið allra fyrsta, og það er eðlilegast, að ríkisstj. gangist fyrir því og þá vitanlega í samráði við vitamálastjóra. Það þarf að flokka niður hafnargerðirnarr og ákveða, hve stórt framlag ríkissjóðs eigi að vera til þeirra. Þá þarf einnig að ákveða, hver ábyrgð skuli vera fyrir láninu til slíkra mannvirkja og hve mikið sveitar-, bæjar- eða sýslufélög skuli leggja á móti framlagi ríkissjóðs. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lendingarsjóði heimilað að taka allt að 6% af brúttóverði afla, sem upp er lagður, til þess að standa straum af kostnaðinum við byggingu og viðhald mannvirkisins. Það er augljóst, að þar, sem slík ákvæði eru fyrir hendi, er áhætta ríkissjóðs miklu minni heldur en þar, sem ekkert slíkt gjald má leggja á, eins og t.d. á Siglufirði.

Ef lendingarsjóðsstjórnir komast í fjárþröng, þá er mikil trygging fyrir ríkissjóð að geta látið beita því, að tekin verði þessi gjöld af aflanum samkvæmt heimild í l. Hér er ósamræmi í, sem þyrfti að samríma um land allt.

Annars leggur sjútvn. til, að þetta frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem ég hef áður lýst.