12.09.1944
Efri deild: 41. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

97. mál, tilraunastöð

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Á þ. 1943 var samþ. þáltill. í Sþ. um að fela ríkisstj. að skipa fimm manna n. til að gera athuganir og till. um framtíðarafnot jarðarinnar Reykhóla sem skólaseturs og tilraunastöðvar fyrir Vesturland. Þar með var fenginn þingvilji fyrir því, að jörðin Reykhólar væri ákveðin sem tilraunastöð fyrir Vesturland, ef n. væri sammála um, að hún væri hentugur staður til slíks.

N. lauk störfum á árinu 1943 og sendi langa grg. til ríkisstj. og uppkast að frv. til l. um skólasetur og tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum. Frv. var borið fram á Alþ. 1943 og var í 4 köflum. Kvað fyrsti kaflinn á um skiptingu jarðarinnar milli skólaseturs og tilraunastöðvar og hafði inni að halda heimild til ríkisstj. um að kaupa núverandi læknisbústað, ef það þætti nauðsynlegt til að samræma reksturinn. Annar kaflinn var um tilraunastöð í jarðrækt fyrir Vesturland og enn fremur ákvæði um það, að hluti af jörðinni skyldi tekinn og lagður undir tilraunaráð. Þriðji kaflinn var um sérstakan skóla, þ.e. vinnuskóla. Var þar farið inn á nýjar brautir, sem nauðsynlegt þótti að athuga nánar og ollu því, að frv. náði ekki fram að ganga á þ.

Frv. var borið fram af mér á þ. 1943 og sent til umsagnar fræðslumálastjóra og Búnaðarfélagi Íslands. Fræðslumálastjóri lagði til, að frv. væri sent mþn. í skólamálum, og óskaði eftir, að það yrði ekki samþ., fyrr en umsögn hennar væri fengin, en Búnaðarfélag Íslands lagði til, að frv. væri samþ., þó með þeim breyt., að skólinn væri reistur, þegar fé væri ákveðið til hans í fjárl. Þá þótti landbn. þessarar d. rétt, að málið væri afgreitt með þál., þar sem ríkisstj. væri falið að hefja undirbúning að því að reisa tilraunastöð, jafnframt því, sem frv. um skólastarfsemina yrði sent mþn. í skólamálum, og loks, að ráðstafanir skyldu gerðar til að losa jörðina úr ábúð.

Með þessum till., sem samþ. voru hér, er enn undirstrikað, að þingvilji er fyrir því, að tilraunastöðin skuli sett á stofn. Í l. frá 1940 er beint ákveðið, að tilraunastöð skuli vera á Sámsstöðum og ein á Austurlandi og ein á Vesturlandi, og fyrir það er þetta frv. borið fram. Ég vildi ekki bíða eftir, að frv. næði fram að ganga í heild, heldur yrðu gerð sérstök lagaákvæði um annan kafla frv.

Það liggur fyrir frá tilraunaráði áætlun um kostnað, sem send var ríkisstj. 23. febrúar 1944. Kostnaður er áætlaður 367 þús. kr., en einnig liggur fyrir álit um það, að tilraunastöð, sem hæf væri til byrjunar starfrækslunni, kosti 80 þús. kr., og leggur tilraunaráð til, að henni skuli komið upp. Ég gæti og fellt mig við það.

2. gr. er um það, hvað tilraunastöðin skuli fá til umráða af eigninni, en 3. gr. kveður á um, að niðurröðun allra bygginga tilraunastöðvarinnar skuli gerð í samráði við skipulagsstjóra ríkisins og að fyrirhugað þjóðvegarstæði um Reykhólaland skuli einnig valið í samráði við hann og tilraunaráð í jarðrækt. Þetta er nauðsynlegt, af því að vegurinn þarf að fara yfir land tilraunastöðvarinnar.

Með tilliti til þess, að fullur þingvilji hefur komið fram fyrir þessu, vænti ég, að málið fái skjóta afgreiðslu, og vil vona, að landbn., sem mun fá málið til meðferðar, vilji hraða því og skila áliti sínu sem fyrst.