21.09.1944
Efri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

97. mál, tilraunastöð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Að þetta er svo tiltekið í 2. gr. frv., kemur til af því, að jörðinni sjálfri er skipt; hún er ekki öll lögð undir tilraunastöðina, heldur ákveðinn hluti samkv. till. frá tilraunaráði í jarðrækt. Þegar skiptin voru gerð, var hugsað, að hinn hluti jarðarinnar gengi til landbúnaðarskólaseturs. Og til þess að tilraunastöðin gæti fengið ótakmarkaðan rétt yfir því landi, sem hún hlyti úr jörðinni, þurfti að sjálfsögðu að ákveða, hvernig skiptin skyldu gerð og hvaða takmörk sett. — Hvað snertir ákvæðið um þjóðveginn, kemur það til af því, að nauðsynlegt er að ákveða legu hans fyrir fram, svo að hún komi ekki í bága við það skipulag, sem gera á á jörðinni um húsabyggingar, sumpart vegna tilraunastöðvarinnar og sumpart vegna hins væntanlega skólaseturs. Er þetta gert algerlega eftir till. mþn., en í henni átti sæti m.a. Pálmi Einarsson ráðunautur, sem lagði mjög mikla áherzlu á, að einmitt þetta stykki úr landareigninni yrði afhent tilraunastöðinni, og jafnframt, að vegurinn yrði ekki lagður annars staðar en þar, sem ráðið segði til um. Hér er því fullt samkomulag um öll þessi mál, bæði við skipulagsstjóra og aðra aðila.

En ef nú landbn. þykir ástæða til að taka frv. á ný til athugunar, er ég síður en svo á móti því að taka málið af dagskrá. Vil ég gjarnan heyra álit hv. frsm. um það, hvort hægt sé að breyta þessu orðalagi þannig, að það sé eðlilegra og betra, en nái þó tilgangi sínum.