22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

97. mál, tilraunastöð

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Eins og ég gat um á síðasta fundi þessarar d., þá höfum við landbnm. athugað betur þetta frv. í samráði við hv. 6. þm. Reykv. Við getum játað, að það getur borið til beggja vona, hvort nauðsynlegt er, að 2. gr. verði jafnlöng og hún er, en úr því á annað borð er farið að gera grein fyrir landamerkjum þessa svæðis, sem tekið er undir tilraunastöð, þá finnst mér ekkert á móti því að þingfesta ræktunarlandið. Við sáum ekki ástæðu til að breyta þeirri gr. neitt, en aftur á móti getum við gert hv. þm. það til eftirlætis að stytta eða taka aftan af 3. gr. frv., þannig að 2. málsgr. 3. gr. frv. falli niður, því að það er alger óþarfi og engin nauðsyn á að tala um þjóðvegarstæði eða hvernig þeim skuli vera fyrir komið. Þetta er einnig gert með samþykki eða án mótmæla hv. flm. málsins, og ég hef þegar afhent hæstv. forseta skriflega brtt. frá landbn. þess efnis, að 2. málsgr. 3. gr. frv. falli niður. Býst ég þá við, að allir aðilar uni við þau málalok, og vænti, að frv. verði samþ. þannig. Sé ég svo ekki ástæðu til að tala frekar um þetta atriði.