05.10.1944
Neðri deild: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

97. mál, tilraunastöð

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Með l. um tilraunir í þágu landbúnaðarins frá 1940 er ákveðið, að reka skuli áfram tilraunastöðvar í jarðrækt, norðanlands á Akureyri, en sunnanlands á Sámsstöðum. Jafnframt er ákveðið að bæta við tveim öðrum, á Vesturlandi og á Austurlandi, þegar fjárhagsástæður leyfa.

Frv. þetta fer fram á, að tilraunastöð sú, sem reist verður fyrir Vestfirði, skuli vera á Reykhólum í Barðastrandarsýslu. — Þetta er í alla staði ákjósanlegur staður. Þar er nægur jarðhiti og önnur aðstaða æskileg. Eftir því, sem landbn. hefur fengið upplýsingar um, er um það fullkomið samkomulag milli þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, að tilraunastöðinni verði valinn staður á þessari jörð, bæði hefur það verið athugað hjá Búnaðarfélagi Íslands og tilraunaráði í jarðrækt og eins h já búnaðarsambandi því, sem þarna á hlut að máli. N. mælir því með því, að frv. verði samþ., en telur rétt, að inn í 1. gr. verði bætt: „þegar fé er veitt til þess í fjárl.“, — og er þá gert ráð fyrir því, að það verði tekið til athugunar við afgreiðslu fjárl., hvað mikið fé sé áætlað til þessarar tilraunastöðvar. Annars hefur það verið venjan að leggja sameiginlega fé til tilrauna starfseminnar, því hefur svo aftur verið skipt af tilraunaráði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál og vænti þess, að það gangi áfram sína leið.