05.10.1944
Neðri deild: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

97. mál, tilraunastöð

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég held, að þessi breyt., sem hv. landbn. gerir á þessu frv., sé mishugsuð og misráðið sé að samþ. hana. Það er orðið svo, að það fé, sem veitt er til jarðræktartilrauna, er veitt af Alþ. í einu lagi, sömuleiðis til búfjárræktartilrauna. Síðan er þriggja manna ráð látið skipta þessu fé milli þessara tveggja aðila, jarðræktarstarfseminnar og búfjárræktarstarfseminnar. Þegar svo búið er að ákveða, hvað mikið skuli fara til jarðræktarstarfseminnar í landinu, þá er það aftur tilraunaráð, skipað fimm mönnum, sem ákveður, hvað mikið hver tilraunastöð skuli fá. En eftir þessu frv. á Alþ. að ákveða sérstaka fjárveitingu til tilraunastöðvarinnar að Reykhólum, og kemur það í raun og veru í bága við l., eins og þau eru nú.

Ég held þess vegna, að það sé misráðið að setja þetta inn í frv. og betra, að það sé lagt á vald tilraunaráðs, hvenær það sér sér fært að taka af því fé, sem það fær til umráða, að byrja á rekstri hennar og að Alþ. grípi ekki hér inn í og fyrirskipi, að nú skuli byrjað á Reykhólum, og veiti til þess sérstaka fjárveitingu. Ég held, að tilraunaráð ætti að ráða þessu, og það mun haga gerðum sínum eftir því, hve miklu fé það hefur yfir að ráða ár hvert.

Ég vil helzt, að landbn. taki till. aftur nú, a.m.k. athugi hana vel og ef til vill taki hana aftur fyrir fullt og allt. Hún getur sett tilraunaráð í þá aðstöðu, sem neyðir það til að byrja að byggja á Reykhólum, og orðið til þess að draga úr framkvæmdum, sem áður hafa verið ákveðnar og nauðsynlegar eru.