17.10.1944
Neðri deild: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

97. mál, tilraunastöð

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég skal ekki að neinu leyti endurtaka þær umr., sem hér fóru fram um þetta mál, áður en málið fór út úr þessari hv. d. En varðandi það, hvort í 1. gr. frv. skyldi standa, að hafnar væru framkvæmdir, þegar fé væri veitt í fjárl., þá sé ég, að hv. Ed. hefur tekið þetta ákvæði út úr, og frá sjónarmiði landbn. skiptir það ekki svo miklu máli, að hún vilji gera að kappsatriði að hrekja málið milli d. Þó að n. vildi setja þetta ákvæði inn í, þá ætlast hún til, að þarna verði reist tilraunastöð. En hún er á þeirri skoðun, að heppilegra sé, þegar byrjað er með nýja tilraunastöð, að veitt sé sérstaklega fé til hennar eða hún sé tekin inn í þá fjárveitingu, sem til tilraunastarfsemi er varið. En n. ætlar ekki að gera þetta að neinu deiluatriði og leggur til fyrir sitt leyti, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.