14.02.1944
Efri deild: 10. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

30. mál, sala hálfra Skáldalækjareyju og Hvarfsdals

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Um ástæðurnar til þess, að þetta frv. er fram borið, vil ég vísa til bréfs hreppstjórans í Svarfaðardalshreppi, sem prentað er með frv. sem fylgiskjal. Bréf hans er til dóms- og kirkjumrn. um söluna á þessari ey, sem frv. fjallar um. Þar sem hann er nákunnugur maður, má byggja á því, sem hann segir þarna í þessu bréfi.

Með frv. er farið fram á það að selja bóndanum á Skáldalæk í Svarfaðardal hálfa Skáldalækjareyju í Svarfaðardal. En sá helmingur er talinn tilheyra Böggvisstöðum hinum megin árinnar, sem eru eign ríkissjóðs. Hefur Skáldalækjarbóndinn haft þennan helming hólmans á leigu undanfarin ár. Þessi hólmi er rétt við túnið á Skáldalæk, og það er vitanlega langeðlilegast, að Skáldalækjarbóndinn hafi hann til nota. Í öðru lagi má nefna það, sem hreppstjórinn getur og um í sínu bréfi, að eins og nafnið bendir til, muni allur þessi hólmi hafa tilheyrt Skáldalæk, en svo verið skipt á helmingi hans og uppsátri á Böggvisstaðasandi. Nú er þetta uppsátur sem réttindi fyrir Skáldalæk fyrir löngu fallið úr sögunni, en helmingur hólmans hefur eftir sem áður fylgt Böggvisstöðum og er orðinn tilheyrandi þeirri jörð vegna gamallar hefðar.

Ég hygg, að það sé því fullkomlega sanngirnismál, að þar sem Skáldalækur hefur ekki neinar nytjar af því, sem jörðin á sínum tíma fékk fyrir þennan helming hólmans, þá renni hann aftur til þeirrar jarðar og tilheyri Skáldalæk. Og ég vildi gjarnan beina því til þeirrar n., sem ég vona, að fjalli um þetta mál, að rétt kynni að vera að setja ákvæði í 1. gr. frv. um það, að þessi hólmapartur legðist þá undir jörðina Skáldalæk, þannig að það ætti ekki að skoða þetta sem sérstaka jarðeign, sem bóndinn gæti þá kannske verzlað með og selt undan jörðinni aftur.

Ég býst við, að þetta mál heyri frekast undir hv. landbn., og legg til, að því verði vísað þangað að umr. lokinni.