27.09.1944
Neðri deild: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

137. mál, lækningaleyfi til handa dr. Karl Kroner

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef í rauninni engu við það að bæta, sem hv. flm. sagði um þetta mál, en ég vil sérstaklega undirstrika það, að mér þótti vænt um að heyra, að hann lagði áherzlu á það, að hér ætti ekki að skapa neitt fordæmi með þessu máli. Í annan stað vil ég leyfa mér að leggja þann skilning í frv., að það sé aðeins vegna ríkisborgararéttarins, að Alþ. grípur inn í þetta mál, því að í lagagreininni segir, að ráðh. sé heimilt að veita mönnum, er eigi hafa tekið próf o.s.frv., þennan rétt, en með frv. sé alls ekki gengið inn á það, að Alþ. ætli sér í framtíðinni á nokkurn hátt að blanda sér inn í mál, sem sérfræðingum einum tilheyra, um það, hvort viss maður hafi þau þekkingarskilyrði, sem til þarf. Ég vil undirstrika það, að þrátt fyrir orðalag frv. er alls ekki gengið inn á það, að Alþ. taki sér nú heimild til að dæma um sérþekkingu þessa manns, sem hér er um að ræða, heldur bara sem undanþágu, er stafar af því, að maðurinn hefur ekki ríkisborgararétt. Þetta vildi ég taka fram, svo að það kæmi skýrt fram við þessa umr.