27.09.1944
Neðri deild: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

137. mál, lækningaleyfi til handa dr. Karl Kroner

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég vil ekki mótmæla þessu frv. af því, að ég telji, að sá læknir, sem hér er um að ræða, eigi það ekki fyllilega skilið, að honum sé veitt þetta leyfi, heldur af því, að ég álít það ekki viðeigandi, að Alþ. fari að blanda sér inn í þessa löggjöf um veitingu lækningaleyfa. Það er svo, að þessi mál eiga að vera í höndum sérfræðinga, því að þeir einir geta dæmt, hvort viðkomandi læknir á að fá leyfi eða ekki. Ég heyrði ekki framsöguræðu hv. flm. í þessu máli, en skilst þó, að ekki muni eiga að skapa fordæmi með þessu, og tel ég það vel farið út af fyrir sig, en frv. þá líka jafnframt að nokkru leyti óþarft. Ég veit ekki betur en læknadeild Háskólans og landlæknir hafi mælt með því, að þessum manni yrði veitt lækningaleyfi. 2. gr. l. frá 1932 tekur skýrt fram um það, hvaða skilyrði viðkomandi læknir verður að uppfylla til að fá lækningaleyfi, og eru þar taldar upp þær skyldur, sem hann verður að uppfylla. En í 3. gr. stendur, að ráðh. sé heimilt að veita lækningaleyfi, og það eitt tekið fram, að læknadeild Háskólans verði að dæma um kunnáttu umsækjanda. Tel ég því frv. óþarft og ráðh. sé kleift að veita honum lækningaleyfi, án þess að það sé samþ.