12.09.1944
Efri deild: 41. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

94. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Í grg. þessa frv. er allrækilega gerð, grein fyrir efni þess og einstökum ákvæðum. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það frekar að svo stöddu, en vil eingöngu geta þess, að frv. hefur verið borið undir byggingarn. í Reykjavík og bæjarráð, og hafa báðir þessir aðilar lýst sig sammála frv. að meginefni til, enda er mikil þörf á slíkri löggjöf sem þessari. Refsiákvæði fyrir brot eru nú hæst 50 kr., svo að það borgar sig vel fyrir hvern, sem er, að brjóta á móti l., og þó að byggingarn. vilji láta til sín taka um framkvæmdir í þessu efni, þá hefur reynzt ómögulegt að fá rifnar niður ólöglegar byggingar. Hér er því þörf úrbóta, og er sérstaklega aðkallandi að gera þær nú, þar sem í ráði er að setja nýja byggingarsamþykkt, sem gerð er í samræmi við kröfur tímans, en hún getur ekki komið að gagni, ef menn geta að kalla vítalaust brotið á móti henni.

Þá er einnig lagt til, að byggingarn. sé skipuð með nokkrum öðrum hætti en verið hefur, þannig að auk borgarstjóra verði í henni þrír sjálfskipaðir menn, bæjarverkfræðingur, húsameistari bæjarins og skipulagsstjóri ríkisins, og enn fremur aðrir menn kosnir af bæjarstjórn með hlutfallskosningu. Ég hygg, að með þessu sé nokkurn veginn séð fyrir því, að sérfræðileg þekking sé tryggð í n., um leið og öruggt á að vera, að hleypidómar sérfræðinganna séu þar ekki einráðir, heldur séu þarna leikmenn til frekari áréttingar og tryggingar því, að það, sem gert er, sé í samræmi við heilbrigða skynsemi og almenningsálit.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.