12.09.1944
Efri deild: 41. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

94. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Jónas Jónsson:

Það gleður mig, að hv. flm. segir, að það sé ekki meiningin með þessu frv. að gera neina breyt. á skipulagsl. Ég hygg þó, að réttara væri að orða 4. gr. skýrar. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef bæjarstjórn samþykkir álit byggingarnefndar; öðlast hún gildi. Þó er lóðareiganda eða lóðarleigjanda heimilt, ef honum þykir rétti sínum hallað með ályktuninni, að skjóta henni til fullnaðarúrskurðar stjórnarráðsins. Nú greinir byggingarnefnd og bæjarstjórn á um afgreiðslu máls, og sker þá stjórnarráðið úr.“

Þetta gæti skilizt svo, að yfireftirlitið, sem ætlazt er til samkv. núgildandi l., að skipulagsn. hafi, sé fellt burt. En þar sem hv. flm. segir, að ekki sé meiningin að gera efnisbreyt. á þessu, eins og áður hefur komið til orða, væri réttast að orða gr. svo ljóst, að enginn vafi gæti leikið á, að þessu er svo háttað. Ég vil segja hv. flm., að fyrir 12 árum var flutt frv. um skipulagsmál Reykjavíkur í þá átt, að samkv. því hefði Reykjavík fallið undan skipulagsn. og verið á eftir nokkurs konar „no man's land“, svo að það hefði mátt byggja skýskafa úti á Austurvelli, án þess að skipulagsn. hefði nokkuð átt að geta um það sagt. Læt ég svo útrætt um það.