12.09.1944
Efri deild: 41. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

94. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Hv. þm. S.-Þ. ruglar saman skipulagsmálum og byggingarmálum, sem er tvennt ólíkt. Þetta frv. á eingöngu við byggingarmál og er alls óskylt skipulagsmálunum. Þetta sýnist liggja í augum uppi og vera auðskilið hverjum manni. Ég get glatt hv. þm. á því, að ég geri ráð fyrir, að ég flytji aftur frv., sem ég flutti á síðasta þingi um skipulagsmál Reykjavíkur, annaðhvort óbreytt eða að einhverju leyti breytt, og getum víð þá rætt um það nánar. Annars held ég, að það frv. geti átt betri viðtekna að vænta en hv. þm. gerir ráð fyrir, vegna þess að ég hef séð í síðustu blöðum Dags, sem hingað hafa borizt, að kvartað er undan afskiptum skipulagsn. af skipulagsmálum Akureyrar og bent á, að það sé óheppilegt, að landsn. hafi þau þannig í hendi sér eins og raun beri vitni. Sannleikurinn er sá, að ef skipulag í bæjum á að komast eitthvað áleiðis, þá verður að fá aðra löggjöf um það efni en gilt hefur hingað til, þó að ekki sé af annarri ástæðu en þeirri, að skipulagsn. hefur svo miklu að sinna varðandi landið allt, að hún hefur ekki tíma til að skipta sér af málefnum Reykjavíkur eins og nauðsyn ber til, enda er það svo, að ýmis deilumál verða að liggja ár eftir ár og fást ekki útkljáð, auk þess sem það er vafasamt, hvort n. er skipuð á þann heppilegasta hátt. Það er enginn vafi, að núverandi vitamálastjóri er prýðilegur maður, en það er vitanlega engin fyrirframtrygging fyrir því, að vitamálastjóri sé öðrum hæfari til að sitja í þessari n., þó að svo vel vilji til, að sá maður, sem nú skipar þá stöðu, sé prýðilegur í starfið. Sama má segja um vegamálastjóra, sem hefur mjög miklu starfi að gegna viðvíkjandi þjóðvegum úti um allt land, en það er alls ekki víst, að vegamálastjóri hafi ætíð þá kosti til að bera, sem nauðsynlegir eru í skipulagsn., þó að svo vel vilji til, að núverandi vegamálastjóri sé mjög vel hæfur maður. Um húsameistara ríkisins má segja, að sjálfsagt sé, að hann sé í n. Þannig má margt um þetta segja og sýna fram á, að það er ekki eins víst og hv. þm. vill vera láta, að skipulagsn. hafi einveldi í þessum málum, og það er engin ástæða fyrir mig að hræðast umr. um þessi mál, fyrst hann vill draga þær hér inn í gersamlega að tilefnislausu.

Viðvíkjandi aths. hv. þm. Barð. þá er það svo, að það er engin nýlunda í l., að áfrýjun fresti ekki framkvæmd úrskurðar. Það fer allt eftir atvikum hverju sinni, hvaða ákvæði gilda um það. Margir úrskurðir verða að framkvæmast þegar í stað, svo að þeir verði ekki áhrifalausir, þó að þeim sé skotið til æðri dóms. Í langflestum tilfellum, sem hér er um að ræða, kemur enginn vafi til greina. Sé byrjað að byggja, án þess að leyfi sé fyrir hendi, þá er fráleitt, að menn megi halda áfram byggingunni, meðan málið er fyrir æðri dómstóli, því að þá gætu menn verið búnir að steypa upp margra hæða hús í millitíðinni. Það liggur í augum uppi, að ef um vafaatriði væri að ræða, sem er langsjaldnast, þá færi bæjarstjórn ekki að skipa fyrir um að rífa niður byggingu, áður en fullnaðardómur væri fallinn, þar sem hún ber ábyrgðina og er skaðabótaskyld, ef fullnaðardómur verður henni í óhag. Þá má einnig á það benda, sem fram er tekið í grg. frv., að þetta ákvæði er sett í samráði við sakadómarann hér í bænum, sem er allra manna kunnugastur slíkum hlutum. Auk þess hef ég átt viðtal um þetta víð dómsmrh., sem ekki síður hefur þekkingu í þessum efnum, svo að ætla mætti, þegar við þrír, sem allir höfum nokkra fræðilega þekkingu í þessu, höfum fjallað um frv., að ekki ætti að vera um að ræða algert afbrigði frá því, sem tíðkast venjulega í löggjöf, enda er þetta í samræmi við ótal fyrirmæli önnur í íslenzkri löggjöf.