04.03.1944
Efri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Pétur Magnússon:

Herra forseti. — Ég kvaddi mér hljóðs til þess að gera grein fyrir atkv. mínu um brtt. á þskj. 132, þótt ef til vill megi segja, að það sé undarlegt, að þm. standi upp,hver á fætur öðrum til að deila um ákvæði, sem gera má ráð fyrir, að hafi mjög litla praktíska þýðingu.

Hv. frsm. benti á, að síðan 1918 hefur það aldrei komið fyrir, að synjað hafi verið staðfestingar á lagafrv. En ég verð að segja, að mér þykir undarlegt, að þeir ágætismenn, sem skipa mþn. í stjskrmálinu, skuli hafa getað komið sér saman um ákvæði eins og hér er um að ræða, af því að eins og gengið er frá stjskr. að öðru leyti, get ég ekki betur fundið en hér sé um rökvillu að ræða.

Í stjskr. er gert ráð fyrir því, að löggjafarvaldið sé tvískipt, svo að lagafrv. þarf fyrst staðfestingu hjá Alþ. og síðan hjá forseta. Þá get ég ekki betur séð en l., sem Alþ. hefur samþ., fái fyrst gildi, er hinn aðilinn hefur lagt blessun sína yfir. Það finnst mér rökstudd afleiðing af tvískiptu löggjafarvaldi.

Hv. frsm. komst svo að orði, að forseti hefði rétt til að synja lagafrv. staðfestingar, ef hann áliti það málefnislega rétt. Mér er ekki fyllilega ljóst, hvað hv. frsm. meinar með þessu „málefnislega“, en það liggur ekki fjarri að skilja það svo, að hann álíti forseta hafa rétt til synjunar, ef hann álíti frv. efnislega óheppilegt. Sú skoðun sýnist mér fjarri lagi. Það getur ekki komið til mála, að forseti mundi láta sína persónulegu skoðun á lagafrv. ráða því, hvort hann veitti staðfestingu sina. Ég get hugsað mér eitt tilfelli, þar sem það gæti komið fyrir, og það er undir þeim kringumstæðum einum, að hann teldi, að l. væru brot á stjskr. Það eru einnig til teóretískir möguleikar, t.d., að hann teldi lögin ómórölsk. Svona dæmi má taka, en það er frekar til skemmtunar. Hitt er möguleiki, að Alþ. samþ. l., sem mættu teljast brot á stjskr. Það hefur komið fyrir, að Alþ. hefur samþ. l., sem dómstólarnir í landinu telja brot á stjskr., og eins er vitanlegt, að slík l. hafa verið samþ., án þess að dómstólarnir hafi kveðið upp sinn dóm um þau. Ef það kæmi fyrir, að forseti synjaði staðfestingar af þessari ástæðu, þá sýnist mér augljóst, hvaða afleiðingar það gæti haft, ef frv. fengi lagagildi, meðan á þjóðaratkvæði stæði. Það gæti valdið slíkri truflun, að við það yrði ekki unað.

Hv. 1. þm. Reykv., sessunautur minn, heldur því fram, að meiri ástæða sé að fara þá leið, sem ráðgerð er á þskj. 132, fyrir það, að þjóðhöfðinginn sé í landinu og vald hans því meira en ella. Nú er það svo, að eftir stjskr. eru forseta ætluð lík völd og konungurinn hafði, og mér skilst, að aðstaða hans verði svipuð og konungsins. Ég skal játa það, að þjóðhöfðingi, sem búsettur er í landinu, hefur betri aðstöðu til að hafa óbein áhrif, en ekki til að hafa bein pólitísk völd. Einmitt fyrir það finnst mér, að rík ástæða sé til, að lagafrv., sem hann synjar staðfestingar, fái ekki gildi, fyrr en þjóðin hefur kveðið upp úrskurð sinn. Ef skerða á þau litlu völd, sem forseta eru nú ætluð, þá veit ég satt að segja ekki, hvað eftir er handa honum. — Eins og skilja má af því, sem ég hef hér sagt, mun ég greiða atkv. á móti brtt. á þskj. 132.

En þar sem ég nú tók til máls, langar mig til þess að minnast á eitt atriði annað. Það eru ákvæði 5. gr. um forsetakjörið. Ég álít, að því máli sé óheppilega fyrir komið. En þar sem samkomulag var orðið um það í stjskrn. og ætla má, að svo sé einnig milli flokka hér á þingi, þá taldi ég ástæðulaust að bera fram till., sem aðeins væri til að tefja framgang málsins. Gert er ráð fyrir, að forsetakjör fari fram eins og kjör fulltrúa á Alþ. Þá verða menn að bjóða sig fram til forsetakosninga, en það þýðir, að hinir pólitísku flokkar koma hver með sitt forsetaefni, og svo hefst hinn alkunni hildarleikur. Afleiðingin er sú, að enginn getur orðið þjóðhöfðingi, án þess að búið sé að ata hann auri og brigzla honum um alls konar vammir og skammir, oft glæpi og hvað eina, svo að forseti verður orðinn hálfgerður misindismaður í augum þeirra, sem skipa annan stjórnmálaflokk en hann.

Það er þýðingarlaust að vera að fjölyrða um, hvaða tilhögun væri heppilegust, þar eð ég ber ekki fram neina till., en nær er mér að halda, að skárra væri, þrátt fyrir allt, að Alþ. kysi forseta eða af tvennu illu, að forseti væri kosinn af kjörmönnum. Þá yrði ekki kunnugt fyrr en eftir kjörið, hverjir hefðu verið í framboði og við slyppum við þann leiðinlega blæ, sem hinn grimmi hildarleikur mun setja á kosningu þjóðhöfðingjans. Við þessu er ekkert að gera nú, en ég hygg, að þetta verði eitt af því fyrsta, sem breytt verður, þegar stjskr. verður endurskoðuð.