21.09.1944
Efri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

131. mál, bæjarstjórn í Ólafsfirði

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og grg. þessa frv. ber með sér, er það flutt af alveg sérstakri ástæðu nú. Eins og kunnugt er neitaði sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu um ábyrgð sýslusjóðs þar á hafnarláni, sem Ólafsfjarðarhreppur hugðist að taka og gat fengið með ríkisábyrgð. En í hafnarl. fyrir Ólafsfjörð var þessi endurábyrgð Eyjafjarðarsýslu áskilin fyrir ríkissjóð. Það er ekki langt síðan ég færði rök að því hér í hv. d. í sambandi við annað mál, sem sé hafnarl. fyrir Ólafsfjörð, að það er algert lífsskilyrði fyrir fjárhagsafkomu manna á þessum stað, að þar verði gerð fullkomnari hafnarmannvirki en þegar eru þar. En það er öllum mönnum ljóst, að það er ekki hægt að koma slíkum hafnarmannvirkjum upp nema með því móti að fá til þess lán. Og það lán getur ekki fengizt, a.m.k. tæplega, nema með því móti, að ábyrgð ríkissjóðs sé fyrir því. En nú er þetta skilyrði um ábyrgð sýslunnar til hindrunar því, að ríkið veiti sína ábyrgð. Og ég tel það vonlaust mál, að þessi ábyrgð sýslunnar fáist, a.m.k. að óbreyttum öllum aðstæðum. Mér sýnist því, að ekki séu nema tvær leiðir fyrir hendi, ef á að bjarga þessu máli við. Fyrri leiðin gæti verið sú að nema ákvæðið um endurábyrgð Eyjafjarðarsýslu úr hafnarl. og láta þar við sitja. Með því væri óneitanlega gefið fordæmi og ákaflega hætt við, að aðrir, sem hlut eiga að máli, myndu fara fram á, að sams konar ákvæði yrðu numin úr hafnarlögum.

Þegar við þm. Eyf. fréttum í fyrravetur um þessa neitun sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu, kynntum við okkur það báðir, hvort hægt mundi verða að fá fylgi Alþ. fyrir því að nema ákvæði þetta úr hafnarl. Og við komumst báðir að þeirri niðurstöðu, að það mundi ekki vera hægt, fordæmisins vegna. Hin leiðin er svo sú, að Ólafsfjarðarkauptún fái bæjarréttindi, því að þegar þau væru fengin, mundi þykja sjálfsagt að fella ákvæðið um ábyrgð Eyjafjarðarsýslu niður. Ég get í því efni vitnað til hafnarl. fyrir Akranes. Í fyrstu var svo ákveðið í þeim l., að skilyrði fyrir ábyrgð ríkissjóðs til lántöku þar væri endurábyrgð Borgarfjarðarsýslu. En þegar Akranes varð sérstakur kaupstaður, var þetta ákvæði numið úr hafnarl. þar, ég held alveg mótatkvæðalaust. Náttúrlega má segja sem svo, að það sé ekkert öruggara fyrir ríkið að veita Ólafsfirði þessa ábyrgð, þó að kauptúnið verði að bæjarfélagi, heldur en nú, þegar það er aðeins hreppur, — og það er alveg rétt. Sú nauðsyn að fá bæjarréttindi viðurkennd stafar aðeins af þessari venju, sem hefur ríkt um þetta, og af fordæminu, sem það mundi gefa, ef ákvæði þetta yrði numið úr gildi, meðan Ólafsfjörður er partur af sýslu. En ég vil taka það fram, að ég lít svo á, að þó að þessi árekstur út af ábyrgð Eyjafjarðarsýslu hefði ekki orðið, þá hefði samt sem áður ekki liðið á löngu þar til Ólafsfjarðarkauptún hefði beðið um bæjarréttindi, þó að það hefði sjálfsagt ekki orðið á þessu ári. Eins og ég býst við, að hv. dm. viti, er Ólafsfjarðarkauptún í hröðum vexti. Í grg. er getið um, að íbúatalan alls í hreppnum sé 900 manns, eða mjög svipuð og á Seyðisfirði, sem lengi hefur haft bæjarréttindi. Atvinnuhættir í Ólafsfirði eru mjög ólíkir því, sem er í meginhluta Eyjafjarðarsýslu. Samgöngur á milli Ólafsfjarðar og Eyjafjarðar eru eingöngu á sjó og ekki miklar. Á landi hefur Ólafsfjörður aðallega samgöngur við Skagafjörð. Og þegar vegur kemur yfir Lágheiði, sem sjálfsagt verður innan skamms, má búast við, að samband Ólafsfirðinga verði miklu meira við Skagafjörð.

Af þessum ólíku atvinnuháttum í Ólafsfirði og Eyjafirði leiðir það, að Ólafsfirðingar eiga ekki alls kostar samleið með öðrum Eyfirðingum í ýmiss konar félagsmálum, þó að þar sé enginn metingur á milli. Það er því alveg víst, að í þessu efni hljóta leiðir að skiljast fyrr eða síðar. Þetta hafnarmál er að vísu orsök til þess, að þetta mál er borið fram nú. Það aðeins flýtir fyrir, en er alls ekki eina orsökin til þess, að fram á þetta er farið. Til þess að sannfærast um þetta þarf ekki annað en renna huganum víðar um landið og sjá, hver þróunin hefur orðið í stærri kauptúnum hér á landi. Það voru þeir tímar — og stóðu líklega um 100 ár —, að ekki var nema einn kaupstaður hér á landi, sem sé Reykjavík. Svo var farið að fjölga þeim. Sat þó enn við það um áratugi, að einn var kaupstaður í hverjum landsfjórðungi. En á síðari árum hafa stærri kauptúnin eitt af öðru fengið bæjarréttindi: Hafnarfjörður, Siglufjörður, Nes í Norðfirði, Akranes o.s.frv. Ég sé ekki heldur, hvað ætti að vera á móti að samþ. þetta frv. um einn kaupstað í viðbót. Á það má benda, að slíkt mun ekki hafa í för með sér nein teljandi útgjöld fyrir ríkissjóð. Fyrir nokkrum árum var skipaður lögreglustjóri í Ólafsfirði, og hann er launaður af ríkissjóði. Þetta embætti mundi leggjast niður, en í staðinn kæmi bæjarfógetaembætti. Yrði hann ef til vill launaður eitthvað lítið eitt hærra en lögreglustjóri. Og það er þá eini kostnaðurinn í launum, sem af þessu leiddi. Síðan þetta frv. varð kunnugt í þinginu, hefur einstaka maður látið í ljós við mig efa um það, að Ólafsfjörður sjálfur fái undir því risið að vera bæjarfélag. En ég sé ekki í fljótu bragði, hvaða baggar Ólafsfirðingum eru bundnir með þessu fram yfir það, sem nú er. Ég veit ekki betur en hreppurinn verði að standa straum af sínum málum, og þessi mál hreppsins eru mikið þau sömu og bæjanna. Í frv. er að vísu gert ráð fyrir sérstökum bæjarstjóra, og mætti ætla, að hann yrði að hafa nokkur laun. Oddvitar hafa nú þegar nokkur laun í fjölmennum hreppum, sem hrepparnir borga sjálfir. Mér fyndist alveg sjálfsagt, a.m.k. fyrst um sinn, að bæjarfógetinn þarna yrði jafnframt bæjarstjóri, og vil ég skjóta því til n., sem væntanlega fær málið til meðferðar, hvort ekki sé fært að setja ákvæði um það í frv. Ég sá mér það ekki við fljóta athugun fært, vegna ákvæða annarra l., en ég vildi mjög gjarnan, að n, athugaði þetta.

Eins og getið er í grg., er það eindregin ósk Ólafsfirðinga, að kauptúnið og þar með Ólafsfjarðarhreppur fái bæjarréttindi. En það er ekki einasta ósk Ólafsfirðinga, heldur má sjá það í fskj. með þessu frv., að fyrir liggur samþ. sýslun. í Eyjafjarðarsýslu, og er fyrir fram búið að koma sér saman um fjárskipti milli Ólafsfjarðar og Eyjafjarðarsýslu, ef til kemur. Svo að ef þessi skilnaður fæst, má segja, að það sé skilnaður í fullum friði og samþ. allra hlutaðeigenda. Ég vona því, að mál þetta fái góðar undirtektir, bæði hér í d. og þinginu yfirleitt. Legg ég til, að málinu verði vísað til allshn.umr. lokinni.