21.09.1944
Efri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

131. mál, bæjarstjórn í Ólafsfirði

Gísli Jónsson:

Það er út af fyrir sig ekkert við að athuga, þó að hreppar í landinu óski að verða kaupstaðir í staðinn fyrir hluti af sýslu, sérstaklega þegar fullt samkomulag er um fjárskipti og annað. En hins vegar er leiðinlegt, að slíka ósk skuli bera þannig að eins og þetta mál, að hún er beinlínis — á þessu stigi málsins — borin fram til að komast undan ákvæðum l. um ábyrgð vegna hafnarmannvirkja. Um það ætla ég ekki að ræða frekar, en benda flm. á, að ég tel ekki alveg öruggt, að fullt samþ. fáist um það á eftir, að hafnarl. verði breytt eins og hann minntist á. Það er þegar ákveðið í hafnarl. almennt, að hver kaupstaður hafi aðeins 1/3 tillags frá ríkissjóði. Og það væri sannarlega bjarnargreiði við Ólafsfjörð, ef fjárframlag vegna þessara l., sem nú kynnu að verða samþ., yrði framvegis miðað við 1/5 í staðinn fyrir 2/5. Ég sé ekki yfirleitt, hvernig sjútvn. og Alþ. á að fara inn á þá braut að veita 2/5 til hafnarbóta, á meðan viðkomandi staður er hluti af sýslu, en strax og þeim þóknast að verða bæjarfélag, til þess að koma sér undan ákvæðum um ábyrgð, skuli þeir hafa frekari réttindi hvað ábyrgðir snertir og framlag til hafnarbóta en aðrir staðir. Það getur verið rétt, að þetta hafi verið gert við Akranes, — áður en ég kom á þing; en ég tel, að þegar beiðni kemur næst um hafnarbætur á Akranesi, eigi Alþ. að taka til íhugunar, hvort veita skuli þeim stað meira en 1/3, miðað við aðra kaupstaði landsins. Hitt hefði verið möguleiki, að leysa þetta mál þannig, að í stað þess, að Ólafsfjörður fengi framlag til hafnarbóta, fengi hann framlag til lendingarbóta. Þetta hefur verið gert á ýmsum stöðum, m.a. Árskógssandi. En hvort þessi upphæð, sem Ólafsfjörður þarfnast, er miklu hærri en fordæmi eru fyrir á öðrum stöðum, skal ég ekki segja. En þá leysist málið þannig, að ekki þarf ábyrgð ríkissjóðs, en framlag ríkissjóðs hækkar úr 2/5 og í helming. Vil ég aðeins benda á þetta hv. flm. til athugunar.