21.09.1944
Efri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

131. mál, bæjarstjórn í Ólafsfirði

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég sé ekki, að það sé neitt leiðinlegt, hvernig þetta mál hefur borið að. Sýslun. Eyjafjarðarsýslu hefur gert grein fyrir þessari neitun sinni, sem byggist ekki á neinn hátt á óvild til Ólafsfjarðar eða vantrausti, heldur á þeirri almennu skoðun sýslun., að ekki sé rétt að ganga í ábyrgð, sem ekki er hægt að standa við, ef til kæmi, og það telur hún Eyjafjarðarsýslu ekki geta í þessu tilfelli. Þessi neitun varð til þess að hrinda málinu af stað á þessum tíma. Annars er bæjarfógeti og sýslumaður Eyjafjarðarsýslu staddur í bænum, og ég tel víst, að hv. þm. Barð. eigi greiðan aðgang að því að tala við hann um þetta. En hann beitti sér aðallega fyrir þessari afstöðu sýslunefndarinnar. Það kann vel að vera rétt bending hv. þm: um það, að ekki sé öruggt, að hafnarl. verði breytt á þann eina hátt, að ákvæðið um ábyrgð sýslunnar verði numið úr gildi. En ég man ekki betur en svo væri um Akranes, og mætti það heita merkilegt, ef Ólafsfjörður ætti ekki að njóta sama réttar. En hvað sem um þetta er, er, eins og málið horfir nú, vissa um það, að Ólafsfirðingar kjósa það frekar, jafnvel þótt þeir fái verri kjör en upprunalega var ætlazt til, að koma hafnarmálinu þó áleiðis en að koma því ekki neitt, eins og aðstæður eru að óbreyttu. Ég hygg, að ekki komi til neinna mála, að nægt geti í Ólafsfirði að veita eitthvert fé til lendingarbóta, því að það eru stór mannvirki, sem fyrirhuguð eru í sambandi við höfnina. Annars vil ég enda með því að þakka hv. þm. fyrir undirtektir hans. Því að þrátt fyrir þessar aths. lýsti ræða hans ekki öðru en velvilja til málsins.