12.10.1944
Efri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

131. mál, bæjarstjórn í Ólafsfirði

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Af því að það kom til orða við 2. umr. þessa máls, að allshn. tæki það til nýrrar athugunar á milli umr. út af því nýja viðhorfi, sem þá var talið, að skapazt hefði, vegna þess að nokkrir menn í Ólafsfirði höfðu sent skeyti til Alþ. og mótmælt því, að allur Ólafsfjarðarhreppur yrði gerður að sérstöku lögsagnarumdæmi, þótt þeir hins vegar mæltu með því, að kauptúnið fengi bæjarréttindi, þá vil ég taka það fram, að n. hefur ekki síðan beinlínis haldið fund um þetta. En þetta nýja viðhorf í málinu, sem út leit fyrir, að hefði skapazt, virðist nú ekki hafa þýðingu lengur, og málið liggur í raun og veru fyrir nú eins og það var í fyrstu borið upp. Alþ. hefur borizt símskeyti 9. þessa mán., þar sem skýrt er frá því, að almennur borgarafundúr í Ólafsfirði hafi samþ. í einu hljóði áskorun til Alþ. um að afgreiða sem l. frv. til l. um bæjarréttindi fyrir Ólafsfjörð og láta það ekki hafa áhrif á framgang málsins, að nokkrir menn hafa sent ósk um, að hreppnum verði skipt.

Og það skal tekið fram, að allmargir þessara manna, sem sendu Alþ. fyrra skeytið, voru staddir á þessum fundi, og þeir greiddu ekki þeirri till., sem þessi tilkynning fjallar um, mótatkvæði. — Auk þess hef ég persónulega fengið sannanir fyrir því, að mótmælaskeytið, ef kalla má það svo, var ekki sérlega alvarlega meint, a.m.k. ekki frá hendi allra þeirra, sem sendu það; og ég held, að hv. þd. geti haft góða samvizku fyrir því, þó að hún afgreiði þetta mál, þrátt fyrir það að þessi snurða hlypi á um daginn.