23.10.1944
Neðri deild: 69. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

131. mál, bæjarstjórn í Ólafsfirði

Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Þessu máli var vísað til allshn., sem hefur athugað það og mælir með, að það verði samþ. óbreytt. Ástæðan til þess, að þetta frv. er borið fram, er sú, að Ólafsfjarðarhreppur hefur ákveðið að gera þar nokkur hafnarmannvirki eftir till. og teikningum vitamálastjórnarinnar. Það hafa síðan verið samþ. hafnarl. fyrir Ólafsfjörð, og í þeim l. er heimilað að ábyrgjast fyrir hreppinn verulega upphæð, en svo var tilskilið í hafnarl., að til þessa þyrfti ábyrgð sýslunefndar. Þegar til kom, að fá átti ábyrgð sýslun., neitaði hún að samþ. þetta, og þess vegna gat Ólafsfjarðarhreppur ekki fengið ríkisábyrgðina, sem er nauðsynleg til þess, að hreppurinn gæti fengið lán. Í vor, á s.l. Alþ., stóð málið svo, að búið var að fá leyfi til kaupa á efni í Ameríku til hafnarmannvirkja í Ólafsfirði, og stóð þá ekki á öðru en því, að þessi ábyrgð fengist, til þess að , vörurnar fengjust útfluttar. En þegar sýslun. hafði neitað um ábyrgð, stöðvaðist málið, og þá var það, sem Alþ. heimilaði ríkisstj. að kaupa þetta efni í Ameríku, flytja það inn og selja Ólafsfjarðarhreppi efnið. Ólafsfjarðarhreppur hefur útvegað sér lán til þess að kaupa efnið fyrir, en þetta er aðeins lítill hluti af því láni, sem hreppurinn þarf að fá til þess að reisa þetta mannvirki. Þess vegna er það, að hreppurinn er í vandræðum með að geta útvegað ríkisábyrgð, og er nú um tvær leiðir að velja til þess að koma þessu í sæmilegt horf. Önnur er sú að breyta hafnarl. og fella þetta skilyrði burtu, að ábyrgð sýslun. þurfi, til þess að ríkissjóður ábyrgist þetta lán, hin leiðin er að veita Ólafsfjarðarhreppi þessi réttindi. Eftir að þessar leiðir hafa verið athugaðar, sést, að á því eru miklir annmarkar að fá þessu breytt, því að eins og stendur er svo ákveðið í öðrum hafnarl., að bakábyrgð sýslun. þurfi gagnvart ríkissjóði fyrir lánum til slíkra hafnarmannvirkja. Ólafsfjarðarhreppur hefur leitað fyrir sér til sýslun. um fjárskipti við sýsluna, og eins og sést á þskj. 332, hefur orðið samkomulag milli sýslun. og Ólafsfjarðarhrepps um skipti á eignum og sjóðum sýslunnar.

Ef þetta frv. nær samþykkt, þarf að breyta hafnarl. og fella þetta ákvæði burt, en fyrir því er fordæmi, þar sem er Akranes. Þegar Akranes fékk bæjarréttindi, var fellt burt skilyrðið um ábyrgð Borgarfjarðarsýslu.

Það er lífsskilyrði fyrir Ólafsfirðinga að fá þessu mannvirki lokið; höfnin grynnist óðum, svo að einungis smæstu bátum er þar fært. Að dómi verkfræðinga verður á þessu ráðin bót með þessari aðgerð. Ég vænti þess, að hv. d. samþ. frv. eins og n. leggur til.