28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

52. mál, hafnarlög fyrir Akureyrarkaupstað

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að vera fjölorður um frv. þetta. Það mega allir sjá, að hér er farið fram á löggjafaratriði til samræmingar við hafnarl. annarra kaupstaða og ekkert annað.

Þannig er ástatt um hafnarl. Akureyrar, að þau eru frá 1915 og hafa engar breyt. verið á þeim gerðar síðan, svo að þau eru því langt á eftir tímanum. Eins og sjá mátti á því frv., sem afgreitt var hér í hv. d. áðan um hafnarl. fyrir Siglufjörð, þá er hér farið fram á svipað og þar. Hér er farið fram á að bæta tveim greinum framan við gildandi hafnarl. Akureyrar.

Fyrst og fremst er lagt til, að í 1. gr. sé ákveðið eitthvert framlag úr ríkissjóði til hafnargerðar á Akureyri, en það hefur ekkert verið, síðan l. voru sett. Samkv. þeirri gr. er ætlazt til þess, að ríkissjóður greiði 1/3 kostnaðar til hafnarsjóðs Akureyrarkaupstaðar.

Í 2. gr. er farið fram á heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs allt að þriggja millj. kr. lán, er hafnarsjóður Akureyrarkaupstaðar kann að fá til hafnargerðar gegn ábyrgð bæjarsjóðs. Þetta er ekkert nýmæli, því að hliðstæð ákvæði eru í öllum hafnarl. kaupstaða utan þessa eina, Akureyrar.

Í grg. hef ég tekið upp það, sem bæjarstjórn Akureyrar hefur samþ., en frv. er flutt eftir áskorun bæjarstjórnarinnar. Hún hefur sem sé í huga að ráðast í mikilfengleg hafnarmannvirki handa bænum á næstunni og telur því mikla nauðsyn á því, sem hér er farið fram á, því að ella er allt í óvissu um, hvenær það skipulag, sem í öllum höfuðdráttum er nú búið að samþykkja, getur komið til framkvæmda. Dráttarbraut læt ég aftur á móti ósagt um, það bíður betri tíma.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, vænti, að málið fái góðar undirtektir. Ég óska, að það fái að ganga til 2. umr. og síðan til sjútvn.