15.11.1944
Efri deild: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

181. mál, meðferð einkamála í héraði

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Þetta litla frv. fjallar um að breyta nokkuð þeim skilyrðum, sem menn þurfa að fullnægja til, að þá megi skipa í fast dómarasæti, en skilyrði þessi standa í 32. gr. einkamálal. frá 1936. Eins og hv. þm. muna, var þessum lið breytt þannig í fyrra, að starfsmenn á skrifstofu Alþingis öðluðust sama rétt í þessu efni og þeir, sem öðrum tilteknum störfum gegna. Breyt. sú, sem nú er farið fram á, fer í þá átt, að þm. öðlist þennan rétt, en auðvitað er áskilið, að menn fullnægi öðrum skilyrðum, sem sett eru í 32. gr., og þá auðvitað fyrst og fremst því, að þeir hafi lögfræðipróf, en síðan er lagt til að bæta þessu við, að það nægi, að þeir hafi í þrjú ár samtals setið sem alþm. í þessari stofnun. Mér sýnist, að þetta sé sanngjarnt, vegna þess að úr því að menn, sem hafa það starf að greiða fyrir störfum alþingismanna, hafa þennan rétt, þá sé sjálfsagt, að alþingismenn hafi ekki síður þessi hlunnindi. Það er einnig vitað mál, að með þeirri löngu setu, sem Alþingi hefur haft að undanförnu, þá hafa menn, sérstaklega þeir, sem ekki eru komnir í fastar stöður, átt erfitt með að komast í slíkar stöður samfara því að vera bundnir hér. og á það sérstaklega við þá, sem eru búsettir úti á landi. Er því mikill bagi fyrir unga lögfræðinga, sem kosnir eru á þing, ef þeir fyrir það raunverulega glata þeim rétti, sem þeir hefðu að sjálfsögðu öðlazt, ef þeir hefðu ekki tekið að sér þingmennsku. Þetta frv. er eingöngu flutt til að bæta úr þessu.

Ég vil mælast til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn., sem getur þá athugað það nánar.