27.11.1944
Efri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

181. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Allshn. hefur haft frv. þetta til meðferðar og leggur til, að það verði samþ.

Ég skal geta þess, að eftir að n. hafði haft málið til meðferðar, átti ég tal við tollstjóra, og mæltist hann til, að inn í frv, væri bætt: fulltrúar tollstjóra. Ég tók þessu líklega, en að athuguðu máli virðist mér þetta óþarft, því að í 32. gr. tölulið 7 þessara laga segir svo: „eða gegnt opinberu starfi, sem laga- eða hagfræðipróf þarf til.“ Í þessu virðist mér felast það, sem óskað er. Ef fulltrúar tollstjóra eru lögfræðingar, öðlast þeir þann rétt, sem um ræðir í 7. tölul. 32. gr. Ég tel því óþarft og mun ekki flytja brtt. eftir ósk tollstjóra, en lýsi yfir, að ég skil þetta á þennan hátt. Þessar athugasemdir vildi ég láta koma fram, þótt þær séu frá mér sjálfum, en n. leggur til, að frv. verði samþ.