08.03.1944
Neðri deild: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Pálmason:

Þegar stjskr. var síðast til umr., greiddi ég atkv. með brtt. hæstv. forsrh., en satt að segja var ég mjög á báðum áttum í því máli, af því að mér finnst þau ákvæði, sem deilt er um milli Ed. og Nd., vera meingölluð, og má sjálfsagt segja, að vafasamt sé, á hvorum séu meiri gallar. Frá mínu sjónarmiði er það mjög gallað ákvæði að láta l., sem forseti hefur neitað að staðfesta, öðlast gildi, og líka er gallað að banna þinginu að setja brbl., eins og gert er með þessu fyrirkomulagi, sem felst í till. “hæstv. forsrh.

Nú hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Vestm., án þess að ég viti um vilja hv. d., að flytja brtt. á þskj. 165 og geri það í þeim tilgangi að gera tilraun til sátta. Þessi till. er þannig, eins og menn sjá, að farið er eftir þeirri reglu, sem gildir í Bandaríkjunum og nú hefur nýlega komið til framkvæmda, að l., sem forseti hefur neitað að staðfesta, geta aftur orðið að l., ef ákveðinn hluti þm. samþ. þau á ný. — Ég tel varhugavert að setja í stjskr., að þjóðaratkvgr. þurfi, þó að ágreiningur verði milli forseta og þings. Ég viðurkenni alls ekki, að það sé staðfest djúp milli þings og þjóðar. Þingið er ekki annað en fulltrúar þjóðarinnar. Og þar sem sú regla er komin á, að milli kosninga liði í hæsta lagi fjögur ár, þá væri það gallað fyrirkomulag að setja þjóðaratkvgr. af stað þess á milli, ef um ágreining yrði að ræða um einhver l. milli forsetans og þingsins. Það er óeðlilegt að hugsa sér, að vilji þ. sé svo langt frá vilja þjóðarinnar, að þess ætti að þurfa. Ég tel það einfaldari og eðlilegri leið, að hér sé skorið úr á þann. hátt, sem við leggjum til í till. okkar, — að heimtaður sé ákveðinn meiri hl. eða 2/3 atkvæða allra. þm., annars sé þetta deilumál fallið. Og þegar til þess kemur að skera úr um þann ágreining, sem orðið hefur, þá verður það gert með venjulegum kosningum, hvorar sem standa nær, forsetakosningar eða alþingiskosningar.

Um þetta atriði skal ég svo ekki hafa fleiri orð, nema tilefni gefist til, en ég vil, að menn athugi, hvort ekki gætu orðið sættir á þeim grundvelli, sem hér um ræðir.