12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Út af orðum, sem féllu hjá hv. þm. V.-Húnv. (SkG) og hv. þm. V.-Sk. (SvbH) um starf mþn. í skólamálum í þá átt, að rétt væri að láta þetta mál bíða, unz álit hennar lægi fyrir og séð væri fyrir enda á hennar starfi, vil ég taka þetta fram:

Þessari n. hefur verið falið mjög yfirgripsmikið starf. Hún hefur eðlilega byrjað á því að gera till. um grundvöll almennrar fræðslu, um barnaskóla í landinu, gagnfræðaskóla, héraðsskóla og loks menntaskóla, en þar á eftir kemur að sérskólum. Og um það er ég sammála hv. þm. V.-Húnv., að mál háskólans séu einnig á sviði mþn. Um barnaskóla og skóla, sem almenna fræðslu veita, hefur n. þegar lokið störfum og skilað áliti til ríkisstj. Bíður það nú prentunar í prentsmiðju. Vonazt er til, að Alþ. taki afstöðu til tillagna hennar á þessum vetri. En meðan ekki er séð, hvort Alþ. fellst á meginatriði þeirra tillagna, og um það ætti brátt að fást nokkur reynsla, á meðan treystist mþn. ekki til að semja framhaldstillögur, þar sem hin æðri sérmenntun yrði byggð á hinni almennu menntun. Þetta er þó alls engin ástæða til að fresta endanlegri afgreiðslu þessa máls á þann hátt, sem lagt er til í brtt. Ég þykist mega fullyrða, að mþn. í skólamálum muni fallast á þetta frv., þótt ég geti ekki lýst yfir því fyrir hennar hönd. Það væri ekkert móti því að spyrja n. Á málið hefur þar verið minnzt, en engin ályktun gerð. Menn mega ekki heldur gleyma því, að háskólinn á að njóta nokkurs sjálfstæðis í þjóðfélaginu. Ég hygg, að hvorki mþn. í skólamálum né nokkur aðili annar vildi reyna að ,knýja fram breyt. þar gegn tillögum háskólaráðs. Frv. þetta er komið hér fram að tilhlutun háskólaráðs og flutt af óskiptri menntmn. að þess vilja.

Viðvíkjandi orðum hv. þm. V.-Sk., að fjárhagsútlitið sé svo ískyggilegt, að ekki megi samþ. frv., vil ég segja, að þetta er léttvæg röksemd, fyrst. þm. fellst á brtt. hv. þm. V.-Húnv., þar sem gert er ráð fyrir að launa næstu tvö ár jafnmarga kennara og frv. til tekur. En þar sem nú virðist einkum hitt vaka fyrir þm., að spara á næstu fjárl., virðist hann kominn í mótsögn við sjálfan sig. Það er aftur á móti ástæða, sem lítandi er á, hjá hv. þm. V.-Húnv., að málið þurfi að rannsaka betur. Umsögn mþn. í skólamálum ætti að geta fengizt mjög bráðlega.