12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Sveinbjörn Högnason:

Það er mesti misskilningur hjá hv. 8. þm. Reykv. (SigfS), að sömu útgjöld fylgi því fyrir ríkið, hvort sem samþ. er brtt. frá þm. V.-Húnv. eða frv. óbreytt. Ég skil ekki, að nokkur aukakennari sé ráðinn með sömu launum og prófessorar, sem þegar komast í hæsta launaflokk. En mestu skiptir, að þetta sé ekki bundið fyrir framtíðina. Mig furðar á, að maður í mþn. í skólamálum lýsir yfir því, að þetta frv. komi eiginlega n. ekki við, og þar á ofan, að hann viti, að hún sé frv. samþykk, þótt hann geti ekkert um það sagt fyrir hennar hönd, einn nm. af sjö.

Fyrir tveim árum flutti ég þáltill. um undirbúning að stofnun menntaskóla í sveit. Þá vissi ég ekki betur en frá mþn. í skólamálum kæmu mjög eindregin mótmæli, því að n. firrtist við, að þetta skyldi ekki fyrst vera borið undir sig. Það mátti ekki einu sinni fara fram á rannsókn málsins. Ég þori að fullyrða, að ekki hefði framkvæmd þeirrar till. kostað meira en þetta, sem hér er lagt til að órannsökuðu máli. Ef mþn. telur þetta mál koma sér lítt eða ekki við, sé ég ekki, hvaða rétt hún hefur til að sletta sér fram í afgreiðslu annarra mála eins og stofnunar menntaskóla í sveit, þó að hún hafi hindrað það mál og fjöldi unglinga líði við það og bíði eftir lausn þess, hafi beðið eitt ár nú þegar og verði víst að bíða annað árið til. Það eru bara þeir, sem þau forréttindi hafa að geta komizt í skóla, sem eiga að fá aukin fríðindi, en hinir, sem alls engin tækifæri hafa til að njóta þeirra fríðinda, þeir mega óhætt bíða. Ég vil vita aðferð mþn. í því máli.