12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Eysteinn Jónsson:

Ef ég skil þetta frv. rétt, fjallar það í fyrsta lagi um að sameina lagadeild og viðskiptadeild, og getur það vel verið skynsamlegt, með 3 háskólakennurum í lögfræði og 2 í viðskiptafræðum. Þarna er ekki um raunverulega fjölgun að ræða frá því, sem er lögfest áður. Aftur á móti er efni 3. og 4. gr. það að bæta við 2 dósentum í heimspekideild og lögfesta verkfræðideild, sem nú er starfrækt til bráðabirgða. Mér fyndist eðlilegt, að þetta mál yrði borið undir mþn. í skólamálum, og raunar merkilegt, að það skuli ekki þegar hafa verið gert. Undanfarið hefur öllum slíkum málum verið vísað til hennar. Hv. 8. þm. Reykv. (SigfS) taldi eðlilegt, að mþn. hætti að starfa að áliti um þann hluta skólakerfis, sem hún á eftir, ef Alþ. féllist ekki á till. hennar um barnakennslu og aðra almenna fræðslu. En mér skilst það sé skylda n. að bera fram till. um allt skólakerfi landsins. Ástæðulaust er að bíða með endurskoðun á sérskólunum og æðstu menntastofnunum landsins af þeim sökum, sem þm. nefndi. Það getur eðlilega verið álitamál, hvort við gerum rétt í að bæta við háskólann öflugri verkfræðideild til frambúðar, þó að hún hafi skapazt nú við sérstakar ástæður. Ég teldi eðlilegt, að um það yrði sérstaklega leitað álits milliþn. og málið vandlega íhugað. Mér finnst brtt. hv. þm. V.-Húnv. eðlileg, þar sem hún er gerð til þess, að málið fái rækilega athugun í milliþn. En eðlilegast er, að málinu sé þegar skotið til þeirrar n., og finnst mér öll von til þess, að álit hennar gæti legið fyrir á þessu þingi, svo að allir mættu vel við una. Ég legg eindregið til, að málinu verði nú frestað, þangað til milliþn. hefur skilað um það áliti.