05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Þorsteinn Þorsteinsson:

Mér finnst hæstv. Alþ. nokkuð stórstígt í þessu frv. með fjölgun embættismanna. í frv. er gert ráð fyrir að lögfesta 7 nýja embættismenn. Að vísu er þannig ástatt með 2 af þessum mönnum, að þegar er búið að gera ráðstafanir til þess, að þeir geti setzt í embætti sín. Það eru tveir dósentar í hagfræði, sem búið virðist að ráða, svo að því verður ekki kippt til baka, enda er kennslu þannig fyrir komið í lagadeild, að þeirra verður að njóta við kennsluna.

Þá kem ég inn á aðra breytingu. Þegar háskólinn var settur hjá okkur, var það hugsun margra, að það yrði einmitt norrænudeild háskólans, með málfræði sína og sagnfræði, sem mundi verða meginstoð undir það, ef háskólinn ynni sér lof og virðingu í öðrum löndum. Hér er lifandi mál til leiðbeiningar norrænunni, og hér eru ýmis þau gögn fyrir hendi, sem ekki er hægt að afla sér annars staðar. Í byrjun var lagt til fámennt kennaralið, þannig að sumum finnst ekki nógu mikill liðsafli þar til þess að deildin geti unnið það hlutverk, sem henni var ætlað að vinna, þ.e. að meginuppistöðunni í norrænum fræðum hér í álfu. Þannig hefur það staðið lengi, að ekki hefur verið bætt við mönnum nema að litlu leyti. Nú er völ á tveim mönnum í dósentsembættin. Báðir hafa þeir samið doktorsritgerðir. Önnur er mjög nákvæm og vandvirknislega gerð og óvenju mikil vinna lögð í hana. Hinn manninn þekki ég ekki persónulega, en menn, sem ég treysti til að hafa vit á því, hafa sagt mér, að það væri hið mesta tjón, ef sá maður fengi ekki að njóta sín við sagnfræði við háskólann. Það er nokkur kostnaður því samfara að stofna nú tvö ný dósentsembætti. En það dugir ekki að horfa í kostnaðinn, ef maður hefur von um, að í andlegum efnum fáist miklu meira verðgildi fyrir þjóðina en það, sem af höndum er reitt.

Ég er búinn að tala um tvo liði frv. Hvað snertir þann þriðja, þá vil ég þar spyrna fótum við. Þessa fjóra embættismenn vil ég samþykkja. En að bæta svo við heilli deild með þrem prófessorum, það virðist mér engin nauðsyn. Þessi deild var aðeins stofnuð til bráðabirgða og menn ekki fastráðnir í hana. Ætlunin var, að hún starfaði aðeins, meðan stríðið stæði, til þess að undirbúa stúdenta undir verkfræðinám, svo að þeir þyrftu ekki að vera eins lengi í útlöndum. Ég get ekki séð, að nokkur nauðsyn sé að taka þennan fjölda kennara inn í einu. Við getum tekið þessa fjóra embættismenn nú og látið verkfræðideildina starfa með sama hætti fyrst um sinn. Ég fæ ekki séð, að okkur reki nokkur nauður til að breyta þessu nú. Þess vegna segi ég það, að þótt ég geti fylgt tveimur breyt. þessa frv., get ég ekki fylgt 4. gr. þess. Og ég vil segja það, að mér finnst engin nauðsyn, þótt það verði ofan á, að verkfræðideildin verði stofnuð, að hafa til að byrja með meir en einn til tvo dósenta og einn til tvo prófessora, í stað þess að gera alla að prófessorum undir eins, svo að þeir komist þegar í hæsta launaflokk. Skynsamlegast er að taka þetta í áföngum.