05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi mega beina því til hæstv. forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að fresta að sinni, að mál þetta verði tekið til 3. umr. í deildinni. Ástæðan fyrir þessu er sú, að heilbr.- og félmn. flytur hér á sérstöku þskj. frv. til l. um stofnun prófessorsembættis í heilbrigðisfræði í læknadeild Háskóla Íslands. Fundur hefur verið haldinn í dag hjá heilbr.- og félmn. um frv. þetta, og mælir hún með samþ. þess. Ef samþ. verður að taka þetta til 2. umr., færi bezt á því að fella það inn í frv. um breyt. á háskólalögunum, sem hér hefur verið til umr. í dag, og fresta þess vegna að taka það mál til 3. umr., þangað til séð verður, hvernig þetta nýja frv. heilbr.- og félmn. færi við 2. umr. Nál. heilbr.- og félmn. kemur á morgun, svo að þetta ætti ekki að tefja málið.

Um það frv., sem hér liggur fyrir, skal ég fátt segja, en ég get hins vegar ekki neitað því, að mér finnst þessir áfangar, sem hér er talað um að teknir verði með þessu frv., nokkuð stórir, og satt að segja er ég ekki alveg viss um, að ástæða sé til þess að gera svona miklar breytingar nú þegar, eins og hér er lagt til. Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir, að lögfest séu 2 dósentsembætti í viðskiptafræðum, 2 dósentsembætti við heimspekideild og enn fremur 3 prófessorsembætti í verkfræðideild, þannig að um er að ræða að lögfesta 7 fullkomin embætti við háskólann. Til viðbótar mætti svo nefna stofnun prófessorsembættis í heilbrigðisfræði í læknadeild, sem verður þá áttunda embættið. Þá er og uppi allmikil hreyfing um það meðal kennimanna að stofna eitt dósentsembætti til viðbótar í guðfræði, sem ég veit ekki, hvort till. koma fram um núna, þar eð mér er ekki kunnugt um, hvort frá þessu er fyllilega gengið. Auk þess má og benda á, að menntmn. hafa borizt till. frá kennurum verkfræðideildar háskólans, um að þeir telji þörf á að skipa fleiri fasta kennara í verkfræðideild en lagt er til í frv.

Ég get ekki neitað því, að mér finnst kenna nokkurs stórhugar um þessar framkvæmdir, nema þær séu mjög aðkallandi.

Um dósentsembættið í hagfræði er það að segja, að mér finnst eðlilegt að taka það upp. Sama er að segja um framlög til norrænudeildarinnar. Það er sjálfsagt að skera þau ekki við nögl. Við verðum að stuðla að því að gera hana sem fremsta á sínu sviði. Að því er verkfræðideildina snertir er ég ekki eins viss um, að ráðast eigi í þær framkvæmdir, sem farið er fram á viðvíkjandi henni.

Hv. frsm. telur, að þótt þetta verði gert, sé því ekki þar með slegið föstu, að tekin verði upp fullkomin kennsla í byggingarverkfræði, þannig að hún verði fyllilega sambærileg við þá kennslu, sem fram fer í öðrum háskólum. En samkv. bréfi kennara háskólans virðist þó gert ráð fyrir því.

Það má segja, að kennsla í þessari grein sé á byrjunarstigi, og fæ ég ekki séð, að við getum með þeim kennslukröftum, sem við höfum yfir að ráða, veitt þeim verkfræðingum, sem útskrifast, eins fullkomna menntun og þörf er á, til þess að þeir standi jafnfætis verkfræðingum frá öðrum háskólum. Mér er sagt, að slíkt sé ógerningur nema kennurunum sé fjölgað stórkostlega.

Ég mun fylgja þessu frv. til 3. umr., en ég vil taka það fram í fyrsta lagi, að mér virðist mjög vafasamt, að um fullkomna kennslu geti verið að ræða með þeim starfskröftum, sem við eigum nú yfir að ráða, og í öðru lagi finnst mér mjög vafasamt að stofna þrjú prófessorsembætti til að framkvæma þá kennslu, sem nú fer fram við skólann.