08.03.1944
Neðri deild: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Jakob Möller:

Herra forseti. — Þeir þrír hv. stjskrnefndarmenn, sem hér hafa talað, hafa raunar upplýst hv. þdm. um það, að þeir skilji stjórnskipul. frá 16. des. 1942 þannig, að heimilt sé að skipa æðsta valdið eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég efast ekki um, að þetta sé sannfæring þeirra, en spurningin er, hvort sá skilningur er réttur, og um það hafa þessir þrír stjskrnefndarmenn ekkert talað. Ég benti á, að ákvæðin í stjórnskipul. frá 1942 um það, að óheimilt skyldi að gera aðrar breyt. en þær, sem beinlínis leiddi af flutningi æðsta valdsins inn í landið, byggðust á því, að ef farið væri út fyrir þetta, mundi það verða líklegt til þess að koma af stað deilum, sem nauðsynlegt væri að sneiða hjá í sambandi við þessa fyrstu stjskr. Og ég held því fram, að það sé ekki heimilt að skilja þetta ákvæði á annan veg en þann, að það sé ekki heimilt að gera á þeim þá breyt., sem ekki er nauðsynleg. Það liggur beinlínis í orðalaginu og öllum upplýsingum málsins. Nú segir hv. þm. G.-K., að þegar þetta frv. var borið fram á Alþ., hafi ríkisstj. ekki lagt í það þann skilning, sem hv. stjskrn. gerir nú. Ég staðhæfi, að þessi skilningur hafi ekki komið fram, og einnig, að hinn skilningurinn hafi ekki heldur komið fram. Hitt var vitað mál, að þegar farið yrði að ræða á Alþ. framtíð stjórnskipul., mundu einmitt rísa harðar deilur um vald forsetans. Það liggur í hlutarins eðli, að það á að halda því fyrir utan þessa fyrstu bráðabirgðastjórn.

Það er alveg rétt, sem fram kom bæði hjá hv. 2. þm. S.-M., frsm. n., og sérstaklega hv. 2. þm. Reykv., að með þessu frv., sem nú liggur fyrir, er forsetanum fengið allmikið vald í hendur, ég vil segja að ýmsu leyti miklu afdrifaríkara vald en felst í því, að hann hefur þetta synjunarvald, — t.d. það, að nú samþ. þingið lög, sem forseti vill ekki fallast á. Samkv. þessu frv. getur forseti leyst þá ríkisstj., sem þá situr, frá völdum, tekið sér aðra stj. og fellt þau l. úr gildi með bráðabirgðaákvæðum. Hvers vegna hefur hv. stjskrn. ekki sett undir þennan leka? Það er bara ekkert annað en það, að þetta með synjunarvaldið hlýtur að vera aukaatriði, því að vald hans að öðru leyti er svo mikið. Hvers vegna hefur hv. stjskrn. ekki breytt þessu, takmarkað vald forsetans á ýmsum öðrum sviðum? Ég er hræddur um, að það stafi af því, að ekki sé gott að ganga mjög langt í því að breyta ákvæðum stjskr., öðrum en þeim, sem beinlínis er óhjákvæmilegt að breyta vegna breyt. á stjórnskipulögunum.

hv. n. hefur verið mjög viðkvæm fyrir þessu atriði, er auðvelt að sjá, þegar maður athugar þær breyt., sem hún gerir á upphaflega frv. Í nál. sínu segist hún hafa breytt 22.–24. gr., og séu þær breyt. aðallega orðalagsbreyt. Hafi þótt rétt að færa þessi ákvæði í sama horf og nú er í gildandi stjskrfrv. Það vill svo til, að a.m.k. eitt af þessum atriðum, sem n. leggur til, að breytt sé, stendur í beinu sambandi við flutning æðsta valdsins inn í landið. N. leggur til, að 24. gr. verði aftur breytt í sama horf og var, og er það þó ekki mjög verulegt atriði í stjskrfrv., eins og það kom upphaflega frá n. og lagt fyrir Alþ. í greininni segir, að forseti lýðveldisins geti rofið Alþ. og skuli þá nýjar kosningar fara fram eins fljótt og auðið er. N. telur betra að færa þetta í sama búning og það var áður og ákveða að stofna til nýrra kosninga, áður en tveir mánuðir séu liðnir. Ég held, að þetta hefði mátt standa, því að víða er það forsetinn, sem á að ákveða þessa hluti. En svo hefur n. hins vegar ekkert við það að athuga, að forseti geti fyrirvaralaust rofið Alþ. Hún breytir því ekki neitt. Það er, eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, alveg undravert, og má þó vafalaust setja það í samband við stofnun lýðveldisins, að æðsti maður þjóðarinnár verður innlendur maður og á hér heima, eins og sagt var í þessu sambandi.

Hv. frsm. n. sló því föstu, að það væri ekkert lýðveldi til í heimi, þar sem forsetinn hefði ótakmarkað neitunarvald. En ef forseti getur haft neitunarvald, þótt það sé takmarkað, hvar eru þá takmörkin? Ef heimilt er, að lýðveldisforseti hafi nokkurt neitunarvald, hlýtur neitunarvald hans einnig að mega vera algert. Takmörk milli hins algera og ekki algera verða þar trauðla fundin, þótt könnuð væri skipun flestra lýðvelda í þessu efni. Það getur þess vegna ekki verið óhjákvæmileg afleiðing af flutningi þessa æðsta valds inn í landið, að setja þurfi synjunarvaldinu ný takmörk. Og hér er í rauninni verið að svipta forseta neitunarvaldinu og fá það þjóðinni einni. Nú hafa nm. talað um þetta mál mjög í þeim anda sem hér væri frambúðarskipulag ákveðið. En ég skoða þessa stjskr., sem hér er verið að koma sér saman um, sem bráðabirgðafyrirkomulag. Þess vegna er alveg óþarft að fara að deila um, hvort þetta sé heppilegasta skipulagið í framtíðinni eða ekki. Það getur ekki verið svo mögnuð hætta á í bili, að forseti misbeiti valdi sínu. „Traditionin“ hefur verið sú, að þjóðhöfðinginn hefur haft þetta neitunarvald, en aldrei notað það síðastliðna áratugi. Sú „tradition“ verður sterk, a. m. k. í fyrstu. Við höfum veitt innlendum þjóðhöfðingja þetta synjunarvald óskorað s.l. þrjú ár og ekki komið að sök. Næstu 2–3 árin mætti það haldast og væri áhættulaust. Frsm. n. sagði, að í rauninni færi því fjarri, að æskilegt væri, að forseti hefði nokkurt synjunarvald. Þá væri talsvert öðru máli að gegna, ef það væri lagt til. Þá hefði ég fyrst og fremst ekki rekið mig á þetta, að l., sem eiga að fá gildi án samþ. forseta, geta orðið felld úr gildi eftir 2–3 mánuði. Þá hefði ég e.t.v. fallizt á, að n. hefði athugað málið og kynni að hafa valið rétt. En það er n., sem hefur sett þetta synjunarákvæði í frv. og virðist þó sjálf telja það óþarft eða óheppilegt. Það er hún, sem hefur gefið forsetanum þetta ægilega vald. Hvers vegna vildi hún gefa honum það?

Á það var drepið, að ein afleiðingin af valdi forseta væri sú, að hann gæti skipað stj., sem hefði ekki meiri hl. þings bak við sig, og gefið út brbl. Stjskr. gerir ekki beint ráð fyrir þessu. En hvers vegna takmarkar n. ekki vald forseta til þessa alls, ef það er hættulegt vald? Hvers vegna tekur n. þetta eina og lítilvæga atriði út úr og setur valdi forseta skorður þar? Mér finnst það alveg óskiljanlegt, þar sem þetta er hreint aukaatriði í samanburði við aðalatriði forsetavaldsins. Einungis gagnvart þegnunum getur það ráðið miklu misrétti. L., sem standa stutta stund, ná þá til sumra, en ekki til annarra, og slíkt aflagi í löggjöf er gersamlega óviðunandi.

Ég get í rauninni látið hér við sitja. Þó að hv. þm. A.-Húnv. svari vafalaust frsm. um allt, er snerti hans till., vil ég taka fram, að mér virðist ástæðulaust að telja hana rekast á stjskr. frá 1942: Hv. frsm. vill telja brtt. óheimila. Ef heimilað er að hreyfa, við synjunarvaldinu á annað borð, getur Alþ. tvímælalaust ráðstafað því valdi eins og því gott þykir. Eða er undir niðri hjá n. einhver tilkenning þess, að varasamt sé að hreyfa of mikið við synjunarvaldsákvæðinu í núgildandi stjskr.? Þorir n. ekki að kasta því ákvæði?

Ég býst við, að ég mundi heldur samþ. þessa brtt. en láta frv. vera eins og það er, því að hún kæmi í veg fyrir það aflagi, sem gildistaka óstaðfestra l. leiddi til.