12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég þarf ekki að segja mikið í sambandi við ræðu hv. 6. þm. Reykv. Það geta verið skiptar skoðanir um einstök atriði þessa frv. Það geta t.d. verið skiptar skoðanir um það, hvort rétt hafi verið að stofna viðskiptadeild, en þar eru nú starfandi tveir dósentar, og það er ekki um annað að ræða hér en það, hvort rétt sé að lögfesta þá. Ég vil ekki fara út í neinar deilur um það, hvort hér hafi verið valin rétt leið, þegar þessi embætti voru stofnuð, en ég býst við því, að þessi embætti verði ekki látin niður falla, þannig að það skipti ekki mjög miklu máli, hvort þetta verður lögfest eða ekki, og sé því ekki þörf á að ræða sérstaklega um þetta mál í því sambandi.

Að því er snertir þau tvö embætti, sem samkvæmt frv. er ætlazt til, að verði lögfest við heimspekideild háskólans í bókmenntum og sögu, þá eru færð fram þau rök fyrir þeim kröfum, að hér sé um tvo mjög hæfa menn að ræða, sem háskólinn vilji festa. Hv. 6. þm. Reykv. álítur, að þess gerist ekki þörf að taka nema annan manninn og telur, að hægt væri a.m.k. um stund að gera hinum manninum kleift að stunda fræði sín af því fé, sem háskólinn hefur yfir að ráða. Ég skal ekki deila við hv. þm. um þetta, en ég tel hins vegar rétt, þar sem hér er um tvo vel hæfa menn að ræða, að þeir verði festir við háskólann, og ég hygg þó, að heppilegt væri fyrir framgang frv., að það yrði samþ. óbreytt. Ég veit, að það eru nokkuð skiptar skoðanir manna um einstök atriði frv., og teldi ég mjög illa farið, ef slík breyt. yrði frv. að falli, vegna þess að ég tel nauðsynlegt, að það verði samþ. Það er hægt að deila um það, hvort ríkið hafi efni á þessum kostnaði vegna þessarar vísindastarfsemi, sem hér er farið fram á, um það er hægt að deila óendanlega. En ég horfi ekki svo ákaflega mikið í þennan kostnað, þegar hæfur maður á í hlut, og meðan fjárlög eru útbúin eins og raun er á, væri vissulega hægt að spara útgjöld, sem næmu mörgum prófessorslaunum, með því að strika burtu ýmsa útgjaldaliði, sem að mínum dómi eru óþarfir. En það, sem ég tel höfuðatriði þessa frv., er stofnun verkfræðideildar, og þar erum við að mestu leyti sammála, að það sé nauðsynlegt að stofna þessa deild og það sé nauðsynlegt, að þessi kennsla haldi áfram, því að hér er aðeins um að ræða að lögfesta þá kennslu, sem farið hefur fram við háskólann og í þetta skipti þó aðeins undirbúninginn að fyrrihlutaprófi í verkfræði. Ég held líka, að það sé alls ekki ágreiningur um það, að það beri að halda þessari kennslu áfram, en aftur á móti getur verið nokkur ágreiningur um það, hvort við höfum getað haldið uppi framhaldsnámi í verkfræði. Það er alveg augljóst, að það er hægt að kenna almenn fræði hér eins og annars staðar. Það er hægt að kenna stærðfræði og eðlisfræði hér á landi, alveg eins og annars staðar í heiminum. Hins vegar er nokkur vafi á því, hvort hægt sé að halda þessari kennslu uppi með lausakennslu, það er a.m.k. ekki hægt til frambúðar, og er því ekki eftir neinu að bíða og töluverð hætta í því falin, að ekki verði þegar settir 3 fastir embættismenn til að hafa á hendi þessa kennslu, eins og hér er farið fram á. Hv. 6. þm. Reykv. spurði að því, hvort mér væri kunnugt um, að takmarkanir ættu sér stað í þessari deild, það væri mjög takmarkað innstreymi í deildina. Ég hef ekki kynnt mér þessar takmarkanir., en er sammála hv. þm. um það, að það sé mjög illa farið, að takmakað sé innstreymi í þessa deild, það þyrfti að búa þannig að þessari deild, að slíkar takmarkanir þyrftu ekki að koma til greina, þannig að allir, sem óskuðu að stunda verkfræðinám, gætu notið náms til fyrri hluta prófs, þegar þeir hefðu útskrifazt úr stærðfræðideild menntaskólans. Ég get upplýst hv. þm. um það, að á s.l. vori tóku sex stúdentar fyrri hluta próf í verkfræði og stunda þar allir framhaldsnám. Nú eru í eldri deild 7 stúdentar, en 14 í yngri deild, eða 27 alls, sem stunda verkfræðinám við háskólann, þannig að það er ekki svo umfangslítil kennsla, sem þarna fer fram nú þegar. Ég vildi svo mælast til þess, að það yrðu ekki á þessu stigi málsins gerðar breyt. við þetta frv., og er það ekki vegna þess, að ég teldi skaða, þó að einhverjar breyt. næðu fram að ganga, ef aðalatriði frv. yrði samþ., heldur vegna hins, að ég tel, að frv. væri stofnað í nokkra hættu, þegar svo mjög er liðið á þingtímann.