13.12.1944
Efri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Bjarni Benediktsson:

Ég held nú, að hv. frsm. menntmn. þurfi ekki að óttast, að frv. verði fyrir aldurtila í þessari d., vegna þess að mér hefur verið skýrt frá því úti í bæ, að búið væri að tryggja, að frv. næði fram að ganga, hvað sem öllum rökræðum liði. (KA: Gott, ef svo er.)

Það mun nú vera svo, að málið sé sótt meira af ofurkappi en hyggindum. Hitt hefur glögglega komið fram í þessum umr., bæði hjá hv. frsm. og í rauninni líka hjá hv. 1. þm. Reykv., þessar gömlu aðdróttanir, sem eru látnar koma í allra raka stað, að það væri einhver fjandskapur við háskólann, þó að menn leyfðu sér að ræða um hans mál og teldu sig jafnskynbæra á þau og sumir ofurkappsmennirnir, sem hér eru að verki. Við í þessari hv. d. getum allt eins, leiðbeiningarlausir út í frá, myndað okkur skynsamlega skoðun á þessu máli eins og mörgum öðrum. Það er algerlega ljóst og óumdeilanlegt, að þetta mál er sótt með óskiljanlegu ofurkappi og í raun og veru þannig, að rökfærsla, sem gegn er höfð, er öll afbökuð og úr lagi færð.

Hv. frsm. vitnaði hér áður í það, máli sínu til stuðnings, að lögfesting á 2 dósentsembættum við svokallaða viðskiptadeild háskólans hefði verið borin undir milliþingan. í skólamálum og hún hefði tjáð sig þessu meðmælta. Um þetta er í sjálfu sér ekkert nema gott að segja, en milliþingan. gleymir að færa nokkur rök fyrir áliti sínu, og þótt ég hafi mikla trú á þeim góðu mönnum, ekki sízt hv. samþm. mínum, 8. þm. Reykv., þá verð ég samt að láta uppi, að ég tek ekki orð þeirra sem algerðan guðsdóm og vildi gjarnan heyra ástæðurnar fyrir máli þeirra. Ég geri heldur ekki ráð fyrir, að n. leggi til, að viðskiptadeildin sé numin burt úr. háskólanum, eins og ég sagði í gær, og mun sannast, að hægara er að koma vitleysunni á en afnema hana. Ég geri ekki svo mjög ráð fyrir því, að deildin verði afnumin, fyrst búið er að setja hana inn í háskólann, en hitt vil ég að komi fram, áður en embætti verða lögfest í viðskiptadeild, hverjar till. milliþingan. og Alþ. sjálfs verða um það, hvort útiloka eigi verzlunarskólapilta frá deildinni.

Það er vitað mál, að stúdentar og háskólaráð, a.m.k. meiri hluti þess, hafa fjandskapazt óskaplega gegn þeirri réttarbót, sem hv. 1. þm. Reykv. gerði, þegar hann var kennslumálaráðherra. Hann veitti verzlunarskólanemendum stúdentsrétt, sem háskólinn hefur barizt gegn, þótt hann hefði tekið að sér að sjá fyrir æðstu verzlunarmenntun í landinu. Þessir aðilar verða að skilja, að ef þeir vilja sjá fyrir æðstu verzlunarmenntun í landinu, þá er minnsta krafa, sem verður að gera, að þeir menn, sem frá barnsaldri hafa búið sig undir að verða verzlunarmenn, geti komizt inn í þá háu menntastofnun.

Ég tel þess vegna, að hvað sem öðru líður, sé algerlega ótímabært og óhæft að lögfesta þessa viðskiptadeild, fyrr en sýnt er, hverjar till. milliþingan. í skólamálum eru varðandi háskólarétt verzlunarskólans. Ef verzlunarskólanemendur eru sviptir þeim rétti, sem hv. 1. þm. Reykv. veitti þeim, þegar hann var kennslumálaráðherra, þá tel ég sjálfsagt að taka upp beina baráttu fyrir því að fá viðskiptadeildina afnumda og setja hana sem sérstaka stofnun í sambandi við verzlunarskólann.

Hins vegar geri ég ráð fyrir því, ef það er látið haldast, að verzlunarskólinn hafi stúdentsprófsrétt, eins og verið hefur, að þá sé þýðingarlaust að ætla að fara að berjast fyrir því að afnema viðskiptadeildina í háskólanum, og mun ég ekki gera það fyrir mitt leyti. Mér finnst alls ekki tímabært, að ríkið bindi þessa deild fastar en gert hefur verið, fyrr en búið er að ákveða, hvernig þeirri almennu verzlunarmenntun verði fyrir komið og hvort hinn almenni skóli verzlunarmanna hefur rétt til að útskrifa menn til að ganga inn í þessa ákaflega fínu viðskiptadeild.

Milliþingan. hefur alveg leitt hjá sér að svara því, sem mestu máli skiptir varðandi þessi efni. Jafnframt vil ég taka fram, að ég hef alls ekki gert að till. minni að afnema viðskiptadeildina að svo stöddu og tel sjálfsagt, að þeir góðu menn, sem þar eru starfandi, haldi áfram að starfa, enda eru þeir líka samningum bundnir, þangað til ákveðið er, hvernig þessu eigi að koma fyrir. En ég tel ekki ástæðu til að hefja skynsamlega ákvörðun þessa atriðis, með því að lögbinda nú þessi embætti, og ég segi alveg eins og er, að ég álít, að þeir menn, sem hafa lítinn skilning innan háskólans og meðal stúdenta, hafi beitt sér fyrir því að kveða niður þennan stúdentsprófsrétt verzlunarskólanemenda. Úr því sem komið er, hafa þeir gott af að verða varir við þann skilning, að þessi 2 atriði hljóta að vera talin að vera í samhengi, því að það er alveg óforsvaranlegt að halda uppi æðstu stofnun í verzlunarmálum, sem verzlunarskólapiltar eru hindraðir frá að komast í, þótt þeir hafi fjögurra, fimm eða sex ára nám að baki sér. Ég held sannast sagt, ef menn gera sér grein fyrir þessu, að þá hljóti þeir að sjá, að það er of fljótt í það farið nú að ætla að lögbinda þessi embætti.

Varðandi aftur á móti norrænudeildina, þá var sannast sagt dálítið skoplegt að heyra sumt af því, sem hv. frsm. sagði um það áðan, ekki sízt í ljósi þeirrar þekkingar, sem við höfum nú af starfsemi sumra þeirra manna, sem þarna eru. Hv. þm. leyfði sér að segja, að það sé í raun og veru verið að óvirða lýðveldisstofnunina og jafnvel allt íslenzkt þjóðerni, ef menn vilja ekki auka þessa deild nú. Guði sé lof, að spekingarnir voru ekki fleiri við deildina með sama hugarfari í lýðveldismálinu en voru á síðasta vori. Það er nóg að hafa Sigurð Nordal á móti íslenzkum málstað, þó að ekki fleiri jafnsterkir aðilar komi til að beita sér gegn Íslendingum, þjóðinni til lítilsvirðingar. Að ætla að blanda þessum málum saman, ætti allra sízt að koma frá málsvara stækkunar norrænudeildarinnar, því að það hefur allt of mikið verið látið liggja í þagnargildi, hvernig þessir menn brugðust á úrslitastundu, þar sem þeir öðrum fremur hefðu getað lagt íslenzku þjóðinni gott til með gerðum sínum og áliti.

Ég fyrir mitt leyti ætla alls ekki að erfa við þessa menn, þótt þeir hafi brugðizt. Þetta eru menn háðir mannlegum breyzkleika eins og aðrir, og enginn getur ætlazt til, að þeir séu alfullkomnir. Maður eins og Sigurður Nordal er yfirburðamaður í sinni grein, maður, sem er mikil sæmd fyrir háskólann að hafa og hefur gert íslenzkum bókmenntum ákaflega mikið gagn, og það eigum við að virða við hann, en ekki eftir á að fara að telja mönnum trú um, að hann hafi verið sem hinn sterki skjöldur í sjálfstæðismálinu, eða guma af, hve vel hann hafi reynzt okkur í lýðveldisstofnuninni. Við skulum horfa á þessi mál, hvort út af fyrir sig, og ég segi, að ég mun ekki beita mér fyrir að erfa við Sigurð Nordal, þótt honum hafi skjátlazt í hinu stærsta máli, og það er aðalbletturinn á starfi hans, að hann hefur komið svona fram í sjálfstæðismálinu. Það ætti allra sízt að sitja á fylgismönnum frv. að taka þá hlið málsins til umr. Ég tel þvert á móti, að það eigi að gleyma þessu sem fyrst og lofa prófessor Nordal að vinna að sínum hugðarefnum, eins og ráð er gert fyrir í frv., sem komið er fram í Nd., og ég mun verða því fylgjandi að verulegu leyti, því að ég tel höfuðvinning fyrir okkur, að slíkur maður gefi sig að því, sem honum hentar að gefa sig að og þar sem hann getur orðið landinu að sem mestu gagni. Það er mjög mikils um vert, að slíkur maður, sem er búinn að safna ærnum fróðleik og með mikilli íhugun búinn að gera sér ljósar en aðrir það, sem varðar starf hans, fái að vinna að því í næði, því að það er mikils virði, að slíkur fróðleikur týnist ekki með honum látnum og því heppilegt, að hann geti varið síðustu árum ævi sinnar, sem vonandi verða mörg, til að skrifa rit, sem hann er allra manna hæfastur til. Ég vil benda á, að hér er um tvö algerlega ólík atriði að ræða, stofnun lýðveldis á Íslandi og svo vöxt norrænudeildarinnar, sem hv. frsm. ætti ekki að gamni sínu að blanda saman, vegna þess að það gæti ekki orðið þessu frv. til framgangs né öðrum þeim, sem nú eru á ferðinni varðandi fyrirgreiðslu fyrir aðra menn norrænudeildarinnar.

Þá sagði hv. þm., að hér væri aðeins um 10 eða 20 þús. kr. að ræða, og taldi mikil firn, að slíkt væri eftir talið varðandi málefni háskólans. Ég vil benda á, að því fer fjarri, að þetta sé rétt hermt. Aðalatriðið í máli mínu í gær var einmitt ekki að telja þessa upphæð eftir út af fyrir sig, heldur að menn yrðu að gera sér ljóst, ef þeir teldu sig hafa efni á að láta eina deild háskólans vaxa svo tilfinnanlega, hvort þeir teldu sig hafa efni á að láta hinar deildirnar vaxa að sama skapi.

Þá er fyrst það, sem hv. þm. sagði, að honum fyndist ekki fram á mikið farið eða mikil frekja lýsa sér í því, þótt nú væri farið fram á að auka kennslukrafta við norrænudeildina, því að hún hefði aðeins tvöfaldazt frá því, sem fyrst var. En hvernig er með aðrar deildir háskólans? Hafa þær tvöfaldazt? Hefur guðfræðideildin tvöfaldazt? (KA: Það fer að líða að því.) Það er þó ekki nema einn vesalingur, sem á að bæta þar við. Lögfræðideildin hefur ekkert aukizt, og hefur þar þó hlaðizt margfalt starf á hvern kennara. Læknadeildin hefur eitthvað verið aukin að mannafla, sumpart vegna þeirra starfa, sem þar eru unnin og hafa beinlínis beinzt í hagnýtingu atvinnuveganna, eins og rannsóknadeild háskólans, sumpart vegna þess að prófessorar háskólans hafa tekið að sér umfangsmikil störf við spítala og sumpart af því, að verklegt nám er meira þar en við hinar deildir háskólans og þess vegna óhjákvæmilegt að fjölga kennurum. Þegar á allt er litið, er það einmitt svo, að norrænudeildin er eina deildin, sem fram að þessu hefur vaxið, svo að orð sé á gerandi, frá því að háskólinn var stofnaður. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil a.m.k., að tekið sé til athugunar, áður en norrænudeildin vex enn, hvort ekki væri nauðsynlegt, að aðrar deildir vaxi líka samhliða, og hvort það séu ekki enn nýjar deildir eða fræðigreinar við háskólann, sem okkur ríður ekki síður á en að auka norrænudeildina. Með því móti er ég ekki að gera lítið úr norrænum fræðum, en ég skoða bara norræn fræði í samanburði við ýmislegt annað, sem ekki hefur minni þýðingu í lífinu. Það tjáir ekki svo að horfa á sinn eigin nafla, að halda, að naflinn sé allur alheimurinn, þótt sagt sé, að einhverjir undramenn austur í Indlandi geri slíkt. Þótt okkur finnist fortíð okkar merkileg, þýðir ekki að einblína svo á hana, að við höldum, að það eina, sem hefur þýðingu gagnvart umheiminum, sé að hugsa um okkar eigin fortíð og útskýra hana fyrir öðrum, og það sé það eina, sem hafi þýðingu fyrir okkur sjálfa nú á dögum. Norræn fræði eru vissulega merkileg, og við þurfum að gera margt í þeim, en við þurfum einnig að hugleiða nauðsyn á störfum í öðrum málum. Það er eins og búið sé að löghelga það sem einhverja allsherjartrúarjátningu, að það eina, sem Ísland ,geti lagt til, sé fróðleikur í norrænum fræðum. Ég verð að segja, að af íslenzkum fræðimönnum á seinni árum, þá held ég, að norrænufræðingunum ólöstuðum, að þá hafi enginn hlotið slíka frægð eins og einmitt í greinum, sem alls ekki eru kenndar við háskólann, t.d. náttúrufræði. Ég held, að maður eins og Þorvaldur Thoroddsen o.fl. hafi verið enn kunnari í vísindaheiminum en nokkurn tíma nokkur okkar norrænufræðinga, og náttúrufræði, uppbygging landsins, veðurfar og annað slíkt hefur vissulega ekki síður þýðingu fyrir umheiminn en þekking á okkar fornu sögu og öðru slíku. Það er því vissulega athugandi, hvort ekki væri frekar stuðlandi að því, og það verða menn að athuga í samhengi, hvort þeir telja nauðsynlegra að skapa kringumstæður fyrir vísindamenn í náttúrufræði, t.d. sérstaklega varðandi eðli Íslands, eða fornum fræðum. Hvort er mikilvægara? Hvort er líklegra til að verða til gagns fyrir okkur sjálf og gera okkur fræg í umheiminum? Ég vil heldur ekki viðurkenna, að íslenzk lögfræði sé svo ómerkileg fræðigrein, að það eigi að ýta henni til hliðar og segja: Íslendingar geta ekkert gert í lögfræði, þeir geta gert mikið í norrænum fræðum, en í lögfræði geta þeir aldrei lagt neitt til, sem þýðingu hefur. Jafnvel þótt maður vildi gera lítið úr gildi íslenzkrar löggjafar, þá er það nú svo, að einn af höfuðstólpum okkar í fornum fræðum eru þær gömlu íslenzku lögbækur eða handrit, Grágás, sem þó verður að segja um, að lögfræðingar ættu að vera öllu hæfari til að rannsaka en norrænumenn. Og þegar verið er að tala um það, að á sviði norrænna fræða hafi ekki tekizt á svo stuttum tíma sem háskólinn hefur starfað að vinna öll þau verk, sem þyrfti að vinna, þá má vissulega segja það sama um lagadeildina, og ég segi það ekki til lasts mínum ágæta kennara og síðar samkennara, prófessor Ólafi Lárussyni, sem ég met allra manna mest, að það hefur ekki enn verið kennt nema lítið af því elzta í réttarsögu landsins í lagadeildinni sjálfri, svo að ég ekki tali um það, að það hefur orðið að notast við meira og minna óviðeigandi danskar kennslubækur, sem eru að vísu góð stoð, en eru engan veginn fullnægjandi. Það er þess vegna, ef menn vilja tala um þarfir háskólans, alls ekki rétt að taka eina deild út úr og segja: Það verður að auka þessa deild, það er óvinátta við háskólann að gera það ekki. En ég segi: Við skulum auka þessa deild, en við skulum gera það í samræmi við það, hvað við ætlum að auka háskólann í heild, ef hann á ekki að verða dvergur með allt of stórt höfuð og kannske höfuð, sem ekki er víst að veki nokkra hrifningu eða aðdáun hjá öðrum. Mig skortir sannfæringu fyrir því, að það sé rétt, að íslenzkar bókmenntir og þekking á þeim, þótt merkilegar séu og hafi gefið okkur mikið gildi, sé það aleina, sem við getum lagt til bæði fyrir sjálfa okkur og aðra, ég trúi því ekki. Og það, sem ég tel vera óviðeigandi í þessum málflutningi, er þetta, sem hv. 1. þm. Reykv. gerði sig sekan um, og hv. frsm. líka, að berja strax á þá stórtrumbu, að það væri fjandskapur við háskólann, þótt á það væri bent í minni fyrri ræðu í einlægni, að séð væri fyrir því og reynt að tryggja það, að háskólinn yxi með eðlilegum hætti, en ekki eftir þeim sjónarmiðum, að reynt væri að koma fyrir sérstökum mönnum, sem þar þyrfti að koma að á tilteknum tíma. Hv. frsm. og hv. þm. Dal. sögðu, að það væri engan veginn verið að reyna að koma fyrir tilteknum mönnum, en sannleikurinn er sá, að allir, sem eitthvað eru inni í málinu, vita, að það er einmitt þetta, sem verið er að gera. Vegna þess hvað þetta eru taldir efnilegir og hæfir menn og menn, sem eru embættislausir og hafa ekki ákveðnar tekjur aðrar en þær, sem líklegt er, að þeir geti fengið á vegum háskólans, einmitt þess vegna er verið að drífa þetta í gegn og af engri ástæðu annarri. En ég vil segja þeim hv. þm., sem hér er staddur úr hv. Nd. (BG), það, að það var illa farið, að hann skyldi ekki vera búinn að átta sig á þessu á sínum tíma, að ekki þyrfti annað en að koma með frv. um ný embætti, ef maður gat ekki fengið embætti, sem voru laus. Ég veit ekki til, að þessir gáðu menn, sem ég hef alls ekkert á móti, hafi lagt meira til í norrænum fræðum, t.d. höfundur ritverkanna um Jón Thoroddsen, en þessi hv. þm. úr Nd. (BG) eða þessir menn séu á nokkurn hátt líklegri til að koma með frumlegar eða þrauthugsaðar íhuganir í þessum efnum en þessi ágæti þm. (BG). Það, sem á skorti, er, að hann sýndist ekki njóta þeirrar hylli hjá valdamönnum innan háskólans, sem þessir menn eiga að njóta. Og hv. þm. V.-Sk. virðist hafa verið of mikið utanveltu, þegar hann sótti um embætti við háskólann, að hann skyldi ekki knýja fram hér á hæstv. Alþ. frv. um að fjölga kennurum við guðfræðideild háskólans, til þess að tryggja það, að hann gæti komizt þangað, og hv. þm. Snæf. gæti sagt alveg sömu sögu. Hann sótti um embætti við lagadeild háskólans, og taldi meiri hl. deildarinnar, að hann væri hæfasti umsækjandinn, og ég held, að nú geti engum blandazt hugur um, að það hafi verið það rétta. En hann fékk ekki embættið, og honum datt ekki annað í hug en að beygja sig undir það, þangað til hann gat fengið embætti við stofnunina með eðlilegum hætti. En nú sýnist eiga að fara að taka upp þann hátt, sem kemur fram í þessu frv. og enn þá betur í öðru frv., sem liggur fyrir Nd., sem sé þann hátt, að ef einhver umsækjandi kemst ekki að stofnuninni, vegna þess að annar verður fyrir valinu, þá sé ekkert annað en að stofna annað embætti, án þess að íhuga, hvort viðkomandi deild eigi rétt á að fá slíka aukningu með hliðsjón af öðrum deildum. Það er sá háttur, sem ég vil mótmæla, og ég vil segja það, að þeir, sem vilja taka upp slíkan hátt um málefni háskólans, þeir eru sízt að leika nokkurt vinarbragð við háskólann. Og það er vegna þess að ég tel, að það sé í rauninni meira í húfi varðandi bæði heilbrigðan embættisrekstur og heilbrigða starfsemi innan þessarar stofnunar en ætla mætti, að ég hef gerzt svo fjölorður um þetta mál. Hins vegar benti és á það í gær, og hv. 1. þm. Reykv. rangfærði í raun. inni það, sem ég sagði, að ef þessir ágætu menn sem hér eiga hlut að máli og eiga að verða dósentar við norrænudeildina, eru í vandræðum í bili, og það getur verið skiljanlegt, að efni. legir menn fá,i ekki strax fast starf við sitt hæfi við háskólann, þá hefði háskólinn möguleika til þess að sjá þeim fyrir uppihaldi í bili, ekki embætti. heldur til þess að vinna að ákveðnum störfum og ljúka ákveðnum verkum. Háskólinn hefur t.d. fengið mikla tekjulind með stofnun Tjarnarbíós. Hv. 1. þm. Reykv. sagði að vísu, að þetta væri ekki annað en það, að verið væri að gera fé sáttmálasjóðs arðbært á hagkvæmari hátt. En hvað sem því líður, er þessi tekjuöflun svo mikil, að þó að við segjum, að það væri ekki óeðlilegt, að sáttmálasjóður fengi til úthlutunar þrefalda upphæð á við það, sem hann hafði áður, þá verður það aldrei meira en 120 þús. kr. og því í rauninni ekki nema 80 þús. kr., sem til þess ætti að fara. En tekjur Tjarnarbíós hafa verið yfir 300 þús. kr., og þótt þar frá séu dregnar 80 þús. kr., verða þó eftir yfir 200 þús. kr. Er þá ofætlun að ætla sér að styrkja þessa ungu menn af þessu fé þangað til embætti losna, sem þeir gætu fengið með eðlilegum hætti, eða þangað til allsherjarendurskoðun og rannsókn færi fram á því, hver væri starfsmannaþörf við háskólann? Ég vil þess vegna mótmæla því, að það sé eðlilegt og sanngjarnt gagnvart öðrum deildum háskólans og gagnvart vísindalífinu í landinu að láta slíkan ofvöxt hlaupa í norrænudeildina, sem hér er ráðgert, ég álít, að slíkt yrði ekki einungis til þess að gera háskólanum lítinn greiða, heldur mundi það einnig verða til þess að rugla mat Íslendinga á því, hvað mesta þýðingu hefur fyrir þá og þeirra framtíð. En varðandi það, að slíkir menn eins og þessir megi ekki starfa að neinu öðru en kennslu við háskólann og það sé fáheyrt, að slíkir menn vinni á söfnum, þá er slíkt auðvitað hin mesta fjarstæða. Ég veit ekki betur, — og ég veit, að hv. frsm. n. veit það alveg eins vel og ég, — en mörg bókavarðarstörf hvarvetna í heiminum séu talin fullkomin vísindastörf. Hvernig er það með Halldór Hermannsson í Íþöku í Bandaríkjunum? Ég held, án þess að Halldór sé talinn öllum öðrum fremri, að hann hafi lagt sitt lóð á vogarskál íslenzkra fræða á borð við suma þá menn, sem hæfastir eru taldir í þeim efnum hér, og ég veit ekki, hvort aðrir hafi meira lagt til íslenzkra fræða, og þá sérstaklega varðandi þær aldir, sem hv. þm. Dal. vitnaði til, en einmitt skjalaverðir. Ég veit ekki til, að aðrir hafi verið íslenzkri málfræði þarfari en Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður og Hannes Þorsteinsson. Það má líka minna á skjalavörðinn Jón Sigurðsson forseta, þótt ástæðulaust ætti að vera að blanda honum inn í þessar umr. En vissulega hefur hann ekki verið allra manna óþarfastur íslenzkum fræðum. Ég get þess vegna ekki séð, að hlutur okkar kynslóðar verði gerður minni, þó að bent sé á það, að við gætum verið þekktir fyrir það að feta í fótspor þessara manna um ráðstöfun á okkar fræðimönnum.

Hv. frsm. var að snúa út úr því, sem ég sagði um núverandi háskólabókavörð. En hv. þm. mun vita það eins vel og ég, að núverandi háskólabókavörður er fyrst og fremst fræðimaður í norrænum fræðum. En ef hv. þm. lokar ekki augunum fyrir því, þá getur hann vel séð, að með þessum manni hefur háskólanum bæzt fræði- og vísindamaður í þeirri grein. Hitt er svo saga út af fyrir sig, sem ég tel rétt, að komi fram, að ég tel það hafa verið mjög misráðið, þegar háskólabókasafnið var gert að sérstakri stofnun. Ég teldi skynsamlegt, að háskólabókasafnið og landsbókasafnið hefði verið gert að einni stofnun. Ég tel það mjög misráðið, að upp hefur verið tekinn sá háttur að blanda á milli 3–4 stofnana bókasöfnum í sömu fræðigrein. Í lögfræði var bókum t.d. skipt á milli landsbókasafnsins, bókasafns lagadeildar háskólans, bókasafns hæstaréttar og loks áður fyrr bókasafns Alþingis. Ef skynsamlega hefði verið að þessu farið, ef tjáð hefði að tala um þessi mál eins og menn vilja tala um ráðstöfun til þess að koma hlutunum fyrir á hagkvæman hátt, og án þess að það hefði verið talinn fjandskapur við háskólann, þá mundu allar þessar stofnanir, auðvitað, hafa verið sameinaðar. Og ég er viss um, að það á eftir að verða, að landsbókasafnið og háskólabókasafnið verði sameinuð með einum eða öðrum hætti, en það hefði verið miklu skynsamlegra að gera það strax, áður en hlaupið var í að byggja sérstakt háskólabókasafn eins og gert var.

Svo að það eru til stöður bæði innan lands og utan fyrir fræðimenn í norrænum fræðum. Það eru vissulega til stöður utanlands, sem mikill vinningur væri að, að þessir menn kæmust í, og er ég viss um, að þeir gerðu íslenzkum fræðum ekki síður gagn með því að starfa þar en þótt þeir störfuðu hér. Ég er viss um, að Guðbrandur Vigfússon, Finnur Jónsson o.fl. hafa vissulega ekki gert landi sínu minna gagn með því að vinna hjá erlendum þjóðum en þótt þeir hefðu unnið heima. Ég álít það fásinnu, enda gæti það ekki gengið nema 1–2 ár, ef það ætti að stofna embætti handa öllum beztu nemendunum, sem út úr norrænudeildinni fara, — það verður aldrei framtíðarlausnin. Og norrænudeild háskólans er lítill greiði gerður með því að útþenja hana úr hófi fram, áður en menn sjá það, sem sjálfsagt er, að ekki er hægt að stofna háskólaembætti handa öllum þeim, sem þaðan koma. Það væri því miklu skynsamlegra fyrir þessa menn að beina þeim að því að komast að við erlenda háskóla sem fræðimenn þar. Það væri miklu skynsamlegra af íslenzka ríkinu að leggja fé fram til þess, að þessir menn gætu unnið þar, heldur en að láta þá vera að vinna við störf hér, þar sem þeir að vísu gera mikið gagn, en þar sem það er óeðlilegt gagnvart annarri fræðslustarfsemi í landinu, að þeim sé hlaðið utan í háskólann, af því að það er ekki hægt að búast við því, að aðrar deildir háskólans séu svo lítilþægar að una því að verða settar út í horn sem Öskubuska, meðan kóngsdóttirin, norrænudeildin, á að fá að blómgast og dafna. Það er þess vegna vissulega rétt um þessa góðu menn, að jafnvel þótt þeir gætu ekki komizt að við háskólann með venjulegum hætti síðar, þá hafa þeir marga vegi fram undan sér. Þess vegna er það rangt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það þyrfti að stofna handa þeim föst embætti, — þeim væru allar bjargir bannaðar. Af Tjarnarbíói hefur háskólinn þær tekjur, að hann hefur möguleika til þess að láta þessa menn fá styrk til þess að vinna að ákveðnum störfum, þangað til hægt er að koma þeim fyrir í störf, sem ekki þarf að mynda með sérstökum lögum, sem gerir það að verkum, að norrænudeildin verður óhæfilega stór, miðað við aðrar deildir háskólans, og án þess að sú ranga trú sé alin upp í mönnum, að það sé aðeins vísindastarfsemi í norrænum fræðum, sem hér eigi nokkurn rétt á sér.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið meira um þetta mál. Margt fleira mætti um það segja, og ekki sízt eftir þann leiða hugsunarhátt, sem þeir báðir sýndu sig seka um, hv. 1. þm. Reykv. og hv. frsm. menntmn., þótt þeir undantækju mig því orðbragði, að umr. um þetta mál þyrftu að lýsa fjandskap við háskólann. Það stendur alls ekki hér á dagskrá, að það eigi að skerða réttindi eða hlunnindi háskólans. Mér skilst þvert á móti, að það séu allir sammála um að auka hann stórlega frá því, sem verið hefur. Spurningin er einungis sú, hvort ekki eigi að hafa eitthvert hóf á því og samræmi á því varðandi aðra starfsemi, bæði innan háskólans og í íslenzka ríkinu. Og það er eitt atriði, sem ég vildi sérstaklega drepa á í sambandi við háskólann. Það hefur ekki allt fengizt með því að fá nógu marga starfsmenn. Það verður að búa þannig um háskólann, að hann geti launað sínum mönnum, svo að viðhlítandi sé. Ég fyrir mitt leyti, sem hef starfað við háskólann nokkuð mörg ár, get sagt það, að lengst af þeim tíma voru launakjörin þannig, að ég lifði ekki af þeim einum saman, þótt ég væri einhleypur maður, og það er einmitt vegna þess, að ég hef reynt það sjálfur, hvernig búið hefur verið að þessum mönnum, að ég vil segja: Farið varlega í útþensluna, en gerið háskólann heldur lífvænlegri fyrir þá, sem þar eru, og gerið þeim mögulegt að starfa og koma einhverju í verk. Ég held sannast að segja, að sú stefna væri háskólanum síður til óþurftar en slík útþenslustarfsemi, sem hér er ráðgerð. Ég tel, að það sé orðið mjög tímabært, að það væri á ný reynt að gera grein fyrir starfsemi og getu einstakra deilda, stærð þeirra og hlutföllum sín í milli, og ég treysti hæstv. núverandi ríkisstj. vel til þess að taka slíkt starf að sér, ef hún fengist til þess að sinna því. Með slíkri athugun yrði séð fyrir því, að engin ein háskóladeild væri látin vaxa á kostnað annarra og fengi óeðlilega stærð eða útþenslu, svipað því, sem hér er ráðgert. Annars er það eftirtektarvert í þessu sambandi, að hv. frsm. talar um þessa 2 prófessora, sem ætti að lögfesta við viðskiptadeild. Þetta eru ekki prófessorar, heldur dósentar. Í því sambandi vil ég beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort ekki sé ráðlegt, að um dósent í viðskiptafræði og dósent í heimspekideild eigi að gilda sú almenna regla, að þeir eigi að verða prófessorar eftir 6 ár. Enn fremur vildi ég spyrja hv. frsm., og í rauninni beina þeirri fyrirspurn til hæstv. kennslumálarh., hvort þeir mundu standa að því, eftir ummælum sínum í gær, að felld væri niður sú heimild, sem í háskólalögunum er nú, um það að takmarka tölu nemenda í deildum. Hæstv. kennslumálarh. taldi sjálfsagt, að slíkar takmarkanir ættu ekki að eiga sér stað, og mér finnst því sanngjarnt að búast við því, að hann yrði slíku fylgjandi. Vildi ég þá beina því til þeirra, hæstv. kennslumálarh. og hv. frsm., hvort þetta yrði ekki gert með breyt. á þessu frv. eða yrði ef til vill gert í sambandi við þau önnur l., sem nú liggja fyrir þinginu, eða hvort það yrði gert með sérstöku frumvarpi.