13.12.1944
Efri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Bjarni Benediktsson:

Ég þakka menntmrh. greið svör og vænti, að hann beiti sér fyrir þessu, og ber því ekki fram brtt. þessu viðvíkjandi. En eins og ég tók fram í ræðu minni í gær, virðist mér þetta mál erfitt viðureignar. Það ber ekki að skilja svo, að ég sé á móti vexti norrænudeildarinnar. En ef vöxtur háskólans á að verða svo ör, þá verður að fara fram allsherjarathugun á því, hvar er mest þörf stækkunar. En að slík athugun hafi ekki farið fram, ræð ég af því, að hér eru tvö önnur frv., um fjölgun kennara í guðfræðideild og læknadeild. Þetta þyrfti allt að athuga í sameiningu. — Ég get sagt það varðandi þá deild, sem ég þekki bezt, lagadeildina, að fái þessi frv. góðar undirtektir, þá skammast ég mín fyrir að hafa ekki gert meiri kröfur fyrir hennar hönd. En við megum umfram allt ekki blanda saman gildi íslenzkra bókmennta og afköstum einstakra manna á því sviði og þeirri vísindalegu starfsemi, sem unnin er í norrænudeildinni.

Ég tel, að hæfilegur millivegur sé fundinn, ef farið er eftir því, sem ég legg til. Á þann hátt er séð fyrir þessum tveimur ungu mönnum, sem hér um ræðir. Enn fremur vil ég, að þeim Sigurði Nordal og Ólafi Lárussyni, úr því að farið er að nefna nöfn, sé gefinn kostur á að koma sínum mikla fróðleik og þekkingu á framfæri.